Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Landsrétti í gær. Var Jón fundinn sekur um að hafa brotið kynferðislega á Carmen Jóhannsdóttur, þegar hún var gestkomandi á heimili hans og eiginkonu hans í Salobreña í Andalúsíu á Spáni, í júní 2018.
Á því var meðal annars byggt að ekkert haldbært hefði komið fram, sem með réttu yrði talið benda til þess að Carmen eða móðir hennar hafi borið þungan hug til Jóns Baldvins eða viljað honum illt. Litið var einnig til þess að Carmen hefði ekkert þekkt Jón Baldvin áður en atvik málsins gerðust. Ákæruvaldið var talið hafa fært sönnur á brotið með trúverðugum framburði brotaþola og móður hennar gegn neitun Jóns Baldvins. Móðir Carmenar gaf viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti og var framburður mæðgnanna talinn stöðugur.