Sir Stephen segir sköpunina ástríðu. Hann sendir senn frá sér æskuminningar sínar.
Sir Stephen segir sköpunina ástríðu. Hann sendir senn frá sér æskuminningar sínar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var mjög frelsandi að geta loksins verið hreinskilinn um það hver ég í raun og veru er. Það er galið að þurfa að fela svo stóran hluta af sjálfum sér.

Ég stari eftirvæntingarfullur inn í svart tómið. Halló? Ekkert svar. Andartaki síðar kemur hljóðið á undan myndinni. „Orri, ertu þarna?“ Mér bregður lítillega og í andartak stend ég ekki alveg klár á því hvort röddin kemur innan úr svörtu tóminu eða úr mínu eigin höfði. En þá birtist hann á skjánum, Sir Stephen Hough, frá heimili sínu í Lundúnum. Brosmildur og léttur í bragði. Lygileg þessi nútímatækni, maður!

„Gott að sjá þig,“ byrjar hann. „Ég kom heim frá París í gær, þar sem ég var með tónleika og er að vinna hérna heima í dag. Um hvað eigum við að spjalla?“

Nærtækast er að byrja á fyrirhuguðum Íslandsheimsóknum þessa virta breska konsertpíanista en til stendur að halda tvenna tónleika í janúar, fyrst með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu þann 12. og svo einleikstónleika degi síðar á sama stað, Portrett af Stephen Hough. Aðdáendur hans þurfa svo ekki að bíða nema rúman mánuð eftir næstu veislu en Sir Stephen kemur aftur fram með Sinfóníunni 23. febrúar.

Þetta mun vera í fjórða skipti sem hann sækir Ísland heim og eftirvæntingin leynir sér ekki. „Ég get ekki beðið,“ upplýsir virtúósinn. „Harpa er einn besti tónleikasalur í heimi og þá er ég bæði að tala um hljómburðinn og sjónræna þáttinn. Það er alltaf gaman að koma til Reykjavíkur, enda er borgin ykkar engri lík. Ég hef komið víða gegnum tíðina og það er sama hvort mann ber niður í Taípei eða Sydney, þá er alltaf eitthvað kunnuglegt. Strax í fyrsta skipti sem ég kom til Reykjavíkur fékk ég á tilfinninguna að bragðið væri allt annað en það sem ég hefði áður kynnst. Reykjavík er eins og ígulber en ekki eins og allir þessir ávextir sem bragðast nákvæmlega eins. Það spillir heldur ekki fyrir að áhorfendur baða mann alltaf í áhuga og hlýju. Eina eftirsjáin er sú að ég hef enn ekki náð að skoða landið að neinu gagni; eina leiðin sem ég þekki er frá flugvellinum til Reykjavíkur og aftur til baka.“

Hann hlær.

– Dag einn hlýtur að gefast tækifæri til að skoða landið!

„Ég vona það svo sannarlega. Ef til vill er janúar samt ekki besti tíminn, það hlýtur að vera mjög dimmt þá?“

Úr myrkrinu í ljósið

Á fyrri tónleikunum með Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur Sir Stephen þriðja píanókonsert Beethovens en annan píanókonsert Rakhmanínovs á þeim síðari. Hann segir þessa höfuðsnillinga hafa stöðuga viðveru í sínu lífi. „Báðir þessir konsertar eru öndvegisverk í píanóbókmenntunum. Þeir eru í sömu tóntegund, C-moll, en þar lýkur líklega samanburðinum. Allt annað er ólíkt, andinn, fagurfræðin, píanisminn, tilgangurinn og ferðalagið sjálft. Það er einna helst að ferðalögunum svipi hvoru til annars; í þeim skilningi að við byrjum í myrkri og endum í ljósinu. Ferðalagið sem Beethoven fer með okkur í er andlegt en Rakhmanínov er meira á tilfinningalegu nótunum. Það var heldur ekki hægt að hugsa sér mikið ólíkari manneskjur. Við erum með Rússann annars vegar og Þjóðverjann hins vegar. Líf Beethovens einkenndist af óreiðu. Hann vildi ekki baða sig og ringulreiðin réði för, en á hinn bóginn var Rakhmanínov virðulegur efristéttarmaður sem hafði meðal annars dálæti á fallegum bílum. Það er ekki síst þetta sem heillar mig við starf mitt – að vingast við hinar ólíkustu manngerðir.“

– Hvorum hefurðu kynnst betur?

„Það er auðveldara að kynnast Beethoven gegnum tónlist hans en Rakhmanínov. Það er engin leið að víkja sér undan manninum á meðan tónlist hans er leikin. Hann er svo til alltaf til staðar og strax frá fyrstu hendingu í píanókonsertinum. Maður er stöðugt í snertingu við kjarnann. Rakhmanínov er aftur á móti aðeins fjarlægari og að mínu mati er það ekki fyrr en í fjórða píanókonsert hans sem maður nær inn í sálina.“

Eins og farandsirkus

Sir Stephen er það sem Sinfóníuhljómsveit Íslands kallar „listamann í samstarfi“ í vetur og í apríl fer hann í tónleikaferðalag um Bretland með sveitinni. „Það verður stórskemmtilegt. Tónleikaferðalög eru vissulega mikil vinna. Maður þarf að rífa sig upp fyrir allar aldir, drífa sig út á flugvöll eða lestarstöð, æfa aðeins og spila svo á tónleikum um kvöldið, dag eftir dag, en um leið er félagsskapurinn yndislegur og við deilum tónlist með fólki. Þetta er svolítið eins og farandsirkus. Stundum finnst mér eins og ræturnar liggi þarna. Svona byrjuðu tónlistarmenn, löngu áður en þetta varð að starfi, eins og ég þekki það. Fyrir þúsund árum var algengt að menn, sem annað hvort sungu vel eða sögðu skemmtilega frá, ferðuðust milli bæja og deildu tónlistinni og sögunum með fólki. Við ættum aldrei að víkja langt frá þeim rótum. Við erum sagnaþulir þorpanna, skemmtikraftarnir sem söfnumst saman við bálköstinn og freistum þess að lyfta sálinni og hefja hana upp úr fábreytni og stundum eymd hversdagsins. Einmitt þess vegna er listin enn þá eins mikilvæg og raun ber vitni.“

Hann ber Sinfóníuhljómsveit Íslands vel söguna. „Hún er dásamleg og ég kann vel að meta hversu alvarlega hljómsveitin tekur starf sitt. Hverjum og einum hljóðfæraleikara er annt um sitt hlutverk í keðjunni. Ég kom fyrst til Íslands áður en Harpa var tekin í notkun og spilaði í gömlu kvikmyndahúsi, sem ég man ekki nákvæmlega hvar var. Þá strax tók ég eftir því að hljóðfæraleikararnir voru mættir áður en æfingin átti formlega að hefjast og voru að stilla saman strengi sína og æfa einstaka þætti. Þessa staðfestu hef ég hvergi annars staðar séð í heiminum. Menn hika ekki við að gera meira en þeir eru beðnir um.“

Langt hlé varð á tónleikahaldi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og Sir Stephen fagnar því að vonum að geta á ný leikið fyrir áhorfendur. Fólk komi til hans nánast með tárin í augunum eftir tónleika til að þakka fyrir. Honum er sérstaklega minnisstæður maður sem varla hafði farið út úr íbúð sinni í heil tvö ár.

„Það er svo aftur annað mál,“ segir hann, „hvort það var skynsamlegt að loka okkur svona lengi inni. Látum vísindamennina og læknana um að meta það en sjálfur velti ég fyrir mér hvort við höfum gert rétt, einkum og sér í lagi með tilliti til yngra fólksins.“

Það var vissulega skellur að geta ekki komið fram svona lengi en því fór þó fjarri að Sir Stephen sæti auðum höndum í faraldrinum en hann er einnig tónskáld. „Ég var þegar með mörg tónsmíðaverkefni í gangi þegar faraldurinn braust út og satt best að segja gafst skyndilega rýmri tími til að sinna þeim. Eitt af þessum verkum var strengjakvartett fyrir Takács-kvartettinn sem nú er búið að hljóðrita og verður kominn út á plötu áður en ég heimsæki ykkur í janúar. Sjálfur hljóðritaði ég einar sex plötur í faraldrinum. Þær hefðu ábyggilega orðið færri, hefði ég líka farið í tónleikaferðalög. Fyrir vikið get ég ekki með góðu móti sagt að ég hafi þjáðst mikið í faraldrinum; ég veiktist ekki og ekki mínir nánustu og mér gafst tækifæri til að hvíla mig á stöðugum ferðalögum.“

Hann kveðst hafa beitt sig aga á þessum tíma og verið duglegur að mæta á vinnustofuna. Það hafi verið hans leið til að fyrirbyggja vanlíðan og depurð vegna ástandsins í heiminum. „Ég veit um fólk sem notaði þennan tíma til að hvílast, vann kannski ekki í hálft ár. Það hefði aldrei gengið hjá mér; aðgerðaleysið hefði skilað mér á dimman stað. Mikil vinna bjargaði mér.“

Ástríða gagnvart tónlist

Sir Stephen á glæsilegan feril að baki; hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir píanóleik sinn, leikið með flestum helstu hljómsveitum í flestum helstu tónleikasölum heims og eftir hann liggja meira en 60 hljómplötur. Við blasir að spyrja hvað knýi hann áfram á þessum tímapunkti á ferlinum, nú þegar hann er kominn á sjötugsaldurinn.

„Heyrðu mig nú! Ég er mjög naumlega kominn á sjötugsaldurinn, 61 árs,“ segir hann og við hlæjum báðir. „Ætli það séu ekki sömu þættir og áður; ástríða gagnvart tónlistinni og ég væri óheiðarlegur ef ég viðurkenndi ekki að ég þarf líka að borga mína reikninga, eins og við flest. Þetta er vinnan mín. Skil knýja okkur flest áfram og við tveir eigum það ábyggilega sameiginlegt að við myndum ekki skrifa eins mikið ef við þyrftum ekki að standa í skilum á ákveðnum tíma. Það er ekkert athugavert við það; öll þurfum við ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana. Og þegar við erum komin á fætur þá njótum við þess.“

Hann segir þörfina fyrir að skrifa, hvort sem það eru nótur eða orð, koma úr iðrum sálarinnar. „Þetta er ástríða, ég get ekki útskýrt það öðruvísi. Um þessar mundir er ég að vinna að píanókonsert, sem til stendur að frumflytja eftir rúmt ár, í janúar 2024, og það kveikir í mér. Ég var meira að segja að vinna í honum í morgun, áður en við byrjuðum að tala saman. Konsertinn er langt kominn og ég hlakka mikið til lokarimmunnar við hann.“

Eins og kyndiklefi

– Gott að þú nefnir þetta. Ég hef hitt marga einleikara gegnum árin og flestum nægir þeim að ferðast og spila fyrir fólk. Það hefur aldrei verið nóg fyrir þig, þú hefur brýna þörf fyrir að skapa, rétt eins og að túlka, ekki satt?

„Ég skrifaði ekki mikið framan af ferlinum. Mér hefur alltaf þótt gaman að yrkja ljóð, skrifa smásögur og annað þess háttar en hafði enga trú á því að ég væri þess umkominn að skrifa bækur. Það kom ekki fyrr en seinna. Þegar einleikari er á milli tvítugs og þrítugs fer gríðarlegur tími í að læra ný og stór verk og varla tími fyrir neitt annað. Í dag eru áherslurnar aðrar. Ég er til dæmis að mestu hættur að spila kammermúsík, og hef fyrir vikið meiri tíma til að sinna mínum eigin verkum. Fyrir það er ég mjög þakklátur.“

– Þú hefur sagt að hugur þinn sé eins og kyndiklefi. Þú virðist alla jafna eiga mjög annríkt. Eru tímarnir í sólarhringnum nógu margir?

„Ekki alltaf,“ svarar hann brosandi. „Ég legg samt mikla áherslu á góðan svefn enda finn ég að mér verður ekki eins mikið úr verki ef ég gef afslátt af átta tíma svefninum mínum. Heilinn á mér gengur aldrei á öllum strokkum ef það vantar upp á svefninn. Fyrst þú nefnir kyndiklefann, þá má líkja þessu við að ofninn sé ekki á fullu og að gufan skili sér ekki í gegn. En fái ég átta tíma svefn get ég unnið eins og hestur. Auðvitað væri ágætt að hafa fleiri stundir í sólarhringnum en þær eru víst bara 24, þannig að maður verður að sætta sig við það.“

Hann brosir.

Panti einhver hjá honum verk kveðst Sir Stephen alla jafna vera fljótur að draga það upp, í grófum dráttum. „Það tók mig til dæmis ekki nema þrjá daga að semja fjórðu píanósónötuna mína, það er grunninn. Síðan var ég átta mánuði að fínpússa verkið. Taka út nótu hér, bæta við nótu þar, endurraða og endurskoða.“

Spurður um vinnulag kveðst Sir Stephen ekki vera upp á sitt besta í sköpunarlegum skilningi fyrst á morgnana. Þegar hann fer á fætur um klukkan 8 byrjar hann þess vegna á því að laga kaffi, sinna erindum, svara tölvupóstum og öðru slíku. Að því loknu skellir hann sér í sturtu áður en hann fer í hinn skapandi ham, um klukkan 10 og vinnur jafnt og þétt til klukkan 18.30. „Ég vinn ekki á kvöldin, það er regla. Strax eftir vinnu hitti ég maka minn í kvöldmat og eftir það förum við í leikhúsið, horfum á bíómynd, förum á tónleika eða annað slíkt. Þetta skipulag riðlast svo allt þegar ég er á tónleikaferðalögum.“

Heilun hins óheila

Fyrsta skáldsaga Sir Stephens, The Final Retreat, kom út í Bretlandi árið 2018 og á Íslandi hjá Hringaná í fyrra undir heitinu Fokið í flest skjól, í þýðingu Ara Blöndals Eggertssonar. Hún er í dagbókarformi og fjallar um raunir kaþólsks prests, kynlífsfíkn hans og efasemdir og togstreitu gagnvart trúnni. Spurður hvers vegna hann hafi valið það efni svarar Sir Stephen:

„Það er löng saga. Ég velti því í tvígang fyrir mér sjálfur að gerast prestur enda þótt þessi bók sé ekki á neinn hátt sjálfsævisöguleg. Við hugsum með gjörólíkum hætti, ég og þessi tiltekni prestur. Ég er ekki þunglyndur og örvæntingarfullur og hef aldrei glímt við sjálfsvígshugsanir. Ég hef hins vegar kynnst mörgum prestum gegnum tíðina og þekki því týpuna á bak við þessar hugsanir. Hvernig á prestur að heila aðra ef hann er óheill sjálfur?“

Annars er það allt afstætt, eins og Sir Stephen bendir á, og tengt tónlistinni. „Maður áttar sig ekki alltaf á því að tónlistin sem maður flytur hefur fært einhverjum mikla gleði. Maður er kannski ekki í sínu besta skapi sjálfur en tónlistin miðlar eigi að síður gleðinni með óhlutbundnum hætti sem stendur fyrir utan tónlistarmanninn sjálfan.“

Sir Stephen lítur frekar á bókina sem langt ljóð en skáldsögu, í þeim skilningi að hún segir ekki sögu með hefðbundnum hætti. „Mig langaði ekki að skrifa hefðbundna sögu, þetta var miklu frekar módernísk tilraun, þar sem það sem ég skil út undan er mikilvægara en það sem ég held inni. Dagbókarformið er leið til að ýja að hlutum sem ég segi ykkur ekki frá. Það er skissa sem opnar ekki endilega allar dyr, skuggi sem erfitt er að ráða í. Markmiðið var öðru fremur að skapa andrúmsloft. Mig langaði líka að stuða fólk, fá það til að súpa hveljur, sem er hreint ekki auðvelt á 21. öldinni, þegar allt hefur verið sagt og allt hefur verið gert. Þegar ég byrjaði að leita hófanna hjá útgefendum var ég spurður hvort ég vildi ekki hafa þetta í meira söguformi en svar mitt var nei. Það langar mig einmitt ekki að gera. Ef til vill er einhver skandinavískur bragur á þessu? Það er alltént meiri Sibelíus en Tjajkovskí í bókinni, það er fjarri efninu en samt svo ástríðulega nærri því.“

– Hafa viðbrögð við bókinni verið eins og þú bjóst við?

„Viðbrögðin hafa verið mögnuð. Sá sem gaf bókina fyrst út er ísraelskur rithöfundur og ljósmyndari og hann hafði áhyggjur af því að kaþólska kirkjan myndi móðgast og stilla sér upp á móti bókinni. Það hefur alls ekki gerst; ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð frá bæði prestum og biskupum. Einn prestur ritaði mér meira að segja bréf og sagði: „Þetta er mín saga!“ Það snerti mig djúpt.“

Áhugi Hringanár hitti hann einnig í hjartastað en um er að ræða einu erlendu þýðinguna á bókinni til þessa. „Áhugi íslenska útgefandans hreif mig, ekki síst í ljósi þess að þið talið öll svo góða ensku þarna að ég hélt að óþarfi væri að þýða bækur.“

Hann hlær.

Er ennþá kaþólskur

Sir Stephen fæddist inn í lútherska fjölskyldu en gekk kaþólskunni á hönd sem táningur. Hann tók trú sína mjög alvarlega og var til að mynda skírlífur um árabil. Hvar ætli hann standi í dag?

„Ég er enn þá kaþólskur. Ég var einmitt að ræða þetta við vin minn á dögunum sem einnig gerðist kaþólskur og hann á erfitt uppdráttar núna, á vont með að sækja messu og finnst hin sögulega byrði kaþólsku kirkjunnar of þung, ekki síst vegna samskipta kristninnar við gyðingdóminn. Sjálfur er ég meðvitaður um allar þessar flækjur og mótsagnir og sumt sem ég les í Biblíunni fyllir mig viðbjóði, verð ég að viðurkenna. En samt held ég enn þá fast í ákveðin grunnatriði, meðal annars þann boðskap Krists að það séu ekki þeir ríku, ungu, frægu og fallegu sem séu mikilvægasta fólkið í lífinu, heldur hinir fátæku, ekkjan og munaðarleysinginn, sem við þurfum að hugsa um. Þetta var róttæk afstaða á sinni tíð – og er það enn. Það er ekki vandalaust að fyrirgefa óvinum okkar en hefur líklega aldrei átt eins vel við og nú. Neyði einhver þig til að ganga eina mílu með sér, gakktu þá tvær mílur með honum. Rífi einhver af þér úlpuna, láttu hann þá hafa jakkann þinn líka. Auðvitað er þetta áskorun en ég get ekki hugsað mér betri leið til að lifa lífinu. Verum reiðubúin til að deyja fyrir aðra, ekki bara vini okkar, heldur óvinina einnig.“

Hann gerir sér grein fyrir því að erfitt sé fyrir stjórnmálamenn að selja kjósendum sínum tóman friðarboðskap og mögulega verði það aldrei hægt. Á hinn bóginn getum við, hvert og eitt, elskað friðinn okkar á milli, jafnvel við snúnustu aðstæður, eins og í fangelsi. „Segjum sem svo að ég yrði ranglega dæmdur í 30 ára fangelsi. Þá yrði mun auðveldara fyrir mig að lifa þar sem kristinn maður en trúleysingi. Þess vegna held ég í trú mína. Ég hugsa líka til fólksins sem hefur haft áhrif á mig. Ég er að lesa ævisögu Dags Hammarskjölds [aðalritara Sameinuðu þjóðanna frá 1953-1961] og persónuleiki hans hefur hreyft mikið við mér, þunglyndi hans, myrkrahlið og streð en líka þessi ofboðslega hlýja og mennska sem hann bjó yfir. Ef trúin er nógu góð fyrir hann, þá hlýtur hún að vera nógu góð fyrir mig. Ég ber mikla virðingu fyrir Hammarskjöld.“

Faðir og sonur

– Talandi um virðingu. Þú tileinkar föður þínum bókina. Voruð þið nánir?

„Nei, í raun ekki. Ég er í þann mund að senda frá mér æskuminningar mínar og fjalla þar heilmikið um samband mitt við föður minn. Við urðum nánari rétt áður en hann lést, aðeins 56 ára að aldri, en sú nánd var aldrei til staðar þegar ég var að vaxa úr grasi. Það var alveg eins mikið mér að kenna og honum. Samband þeirra móður minnar var erfitt og þau skildu á endanum. Ég tileinka honum bókina vegna þess að hann var á svo margan hátt vonsvikinn listamaður. Hann var 18 ára þegar seinna stríðið hófst og hafði ekki tök á að mennta sig vegna þess að hann þurfti að vinna fyrir salti í grautinn. En hann skrifaði mikið um dagana, mest ljóð og ég birti eitt þeirra í nýju bókinni. Faðir minn var líka ákaflega tónelskur enda þótt hann lærði aldrei á hljóðfæri. Ég hef alla mína sköpunargáfu frá honum. Mamma var mjög praktísk kona sem gerði við bíla og málaði hús. En það var engin listræn taug í henni.“

Sir Stephen heiðraði föður sinn einnig með því að taka upp ástralskan ríkisborgararétt, ásamt þeim breska, en faðir hans fæddist þar. Flutti þó kornungur í burtu ásamt móður sinni og náði aldrei að snúa aftur.

Hann ræðir einnig um kynhneigð sína í nýju bókinni en Sir Stephen gerði sér snemma grein fyrir því að hann væri samkynhneigður. „Ætli ég hafi ekki verið fimm ára,“ segir hann, „en hélt því lengi leyndu. Foreldrar mínir voru engir púritanar en þetta hefði eigi að síður ekki verið ásættanlegt. Mjög fáar breskar fjölskyldur á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda treystu sér til að deila slíkum upplýsingum með öðrum. Eins og svo margir samkynhneigðir menn af minni kynslóð kom ég út í áföngum gagnvart ólíkum hópum. Meðan ég var við nám í Juilliard í New York vissu allir að ég væri samkynhneigður en mjög fáir heima í Englandi. Ég kom ekki að fullu út úr skápnum fyrr en við maki minn tókum saman og hófum búskap 2002. Þá gat ég ekki lengur vikið mér undan því að greina móður minni frá þessu. Og þegar hún vissi allt um málið var mun auðveldara að tala um það við aðra. Það var mjög frelsandi að geta loksins verið hreinskilinn um það hver ég í raun og veru er. Það er galið að þurfa að fela svo stóran hluta af sjálfum sér.“

Allt hefur sinn tíma

Mikið hefur verið rætt og ritað um bakslag í baráttu hinsegin fólks á Íslandi undanfarin misseri en Sir Stephen hefur ekki orðið var við slíkt í Bretlandi. „Auðvitað getur alltaf komið bakslag. Hugmyndin um karl, konu og börn sem fjölskyldu er þúsund ára gömul og við umbyltum henni ekki á nokkrum árum. Sjálfur virði ég sjónarmið fólks sem ekki er sátt við samkynhneigð enda þurfa allir sinn tíma til að þroskast og sætta sig við breytingar. Það er ekki rétt að þvinga þessu upp á fólk. Besta leiðin til að sannfæra fólk er að vingast við það og fræða það í rólegheitunum. Margir sem voru á móti hjónabandi samkynhneigðra breyttu ekki um afstöðu fyrr en þeir kynntust slíkum pörum og áttuðu sig á því að sambönd okkar voru ekkert frábrugðin samböndum þeirra sjálfra. Ég á náinn vin í New York sem er trans kona og hún er mjög reið um þessar mundir; ekki út í hin íhaldssömu gildi heldur trans samfélagið, sem henni finnst ganga of hart fram og biðja um of mikið of snemma. Fólk verður að fá tíma til að melta þessar breytingar og ná áttum.“

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Katar hefur beint sjónum að stöðu hinsegin fólks þar um slóðir. Sir Stephen segir umræðuna af hinu góða enda sé breytinga augljóslega þörf. „Þeim breytingum náum við hins vegar ekki fram með því að ásaka aðra með heift. Þið verðið að breyta öllu hjá ykkur á morgun! Ekki er langt síðan fólk hér í Englandi var fangelsað fyrir að vera hinsegin, þannig að ekki er úr háum söðli að detta. Við stöndum vissulega betur hér en sumir aðrir en við erum bara að tala um fáeina áratugi þannig að við skulum sleppa því að setja okkur á háan hest. Allt hefur sinn tíma.“