Stjórnandi Eyrún Jónasdóttir hér að baki sér með kór Menntaskólans á Laugarvatni sem hélt tónleika í Skálholtsdómkirkju á dögunum. Við hlið hennar til hægri stendur Emilía Sara Kristjánsdóttir, einn kórfélaga.
Stjórnandi Eyrún Jónasdóttir hér að baki sér með kór Menntaskólans á Laugarvatni sem hélt tónleika í Skálholtsdómkirkju á dögunum. Við hlið hennar til hægri stendur Emilía Sara Kristjánsdóttir, einn kórfélaga. — Ljósmynd/Jóna Katrín Hilmarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistin er stór þáttur í lífi mínu og svo hestamennskan; við erum með nokkra hesta og ég reyni að komast á bak daglega

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Söngurinn gleður og kórahefðin í dreifbýlinu er sterk. Þátttaka er gefandi í starfi þar sem kynslóðir sameinast á góðri stundu, eins og núna á aðventunni þegar haldnir eru tónleikar og sungin lögin sem æfð voru í haust. Þetta er afar skemmtilegur tími,“ segir Eyrún Jónasdóttir tónlistarmaður. Næstkomandi miðvikudagskvöld verða í Skálholtskirkju haldnir aðventutónleikar þeirra fjögurra sunnlensku kóra sem Eyrún stjórnar. Þetta eru Kór Menntaskólans á Laugarvatni, Vörðukórinn sem starfar í uppsveitum Árnessýslu, Kirkjukór Kálfholtskirkju í Rangárvallasýslu og Barnakór Grunnskólans á Hellu. Á tónleikunum, sem hefjast klukkan 20, syngja kórarnir hver í sínu lagi en svo nokkur jólalög sameiginlega í lokin.

Kirkjukór er mikilvæg stofnun

Eyrún Jónasdóttir segir að síðan í æsku hafi tónlist verið stór þáttur í lífi sínu. Hún er uppalin í Kálfholti í Áshreppi í Rangárvallasýslu, rétt fyrir austan Þjórsárbrú, og þar stendur kirkja í bæjarhlaði. Starf kirkjunni tengt hafði sín áhrif.

„Sem ungt barn fór ég alltaf með foreldrum mínum á kóræfingar sem þá voru haldnar í félagsheimili sveitarinnar hér skammt frá. Þetta var á tíma sem hentaði sveitafólkinu vel, það er eftir mjaltir á laugardagsmorgnum. Kirkjukór var og er mikilvæg stofnun og stundum var litið svo á að þátttaka þar væri að sumu leyti samfélagsleg skylda. Frá þessu starfi fyrir um hálfri öld á ég skemmtilegar minningar, meðal annars um fólk sem enn er í kirkjukórnum. En þrír stofnfélagar syngja enn með kórnum og munu gera það á miðvikudag. Ein þeirra er langamma tveggja drengja í barnakórnum á Hellu og einmitt svona nær söngurinn til svo margra og þvert á kynslóðirnar.“

Í skólastarfi á Laugarvatni er sterk hefð fyrir tónlist og kórsöng. Við Menntaskólann á Laugarvatni eru 140 nemendur og eru þeir allir, utan tólf, í kórnum, sem Eyrún hefur stýrt síðustu árin. Aðventutónleikar kórsins voru í síðustu viku og voru fjölsóttir.

„Aðstæður í heimavistarskóla úti í sveit móta eðlilega félagslíf þar og þátttaka í kórnum meðal nemenda kemur sjálfsagt að einhverju leyti af sjálfu sér. En svo er þetta bara líka svo skemmtilegt,“ segir Eyrún sem stjórnað hefur ML-kórnum síðastliðin tólf ár. Litlu lengri er tíminn hennar sem stjórnandi Vörðukórsins sem er blandaður fimmtíu manna kór fólks í uppsveitum Árnessýslu. Söngfólk kemur meðal annars af Skeiðum, úr Hreppum, Biskupstungum og allmargir frá Selfossi.

Raddir falli saman

„Við kórstjórn er mikilvægt að kór nái fallegum hljómi og raddirnar falli vel saman,“ segir Eyrún. „Styrkur hverrar raddar þarf að koma inn í réttum hlutföllum. Slíkt kallar á æfingar, ögun og þjálfun í því að læra sína rödd vel og geta hlustað sig saman við hinar raddirnar í kórnum. Ég legg afar mikið upp úr slíku. Sem kórstjóri er auðvitað gott að hafa góða tónlistarmenntun en svo vinn ég líka mikið eftir tilfinningu hverju sinni og hlusta á hvað hjartað segir mér. Annað verklag kemur svo með reynslunni. Síðast en ekki síst skiptir miklu að gleðin nái í gegn og hversu gefandi það er að syngja. Áheyrendur úti í sal verða að geta heyrt og séð hvað söngurinn er skemmtilegur. Þannig nákvæmlega vil ég að tónleika kóranna fjögurra í Skálholti næsta miðvikudag verði.“

Eyrún, sem býr með fjölskyldu sinni í Kálfholti, sækir þaðan vinnu, meðal annars á Hellu, þar sem hún sinnir tónlistarkennslu við grunnskólann.

„Ég er sveitakona alveg í húð og hár og uni mér þar vel. Tónlistin er stór þáttur í lífi mínu og svo hestamennskan; við erum með nokkra hesta og ég reyni að komast á bak daglega,“ segir Eyrún. „Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað sveitir hér á Suðurlandi hafa eflst mikið á síðustu tuttugu árunum eða svo. Hér um slóðir er til dæmis fjöldi smábýla þar sem fólk lifir og starfar í tengslum við landið og náttúruna og er gjarnan með hesta. Þetta hefur eflt samfélögin hér afar mikið og útkoman er góð.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson