Skagaströnd Helgi Gunnarsson, verktaki á Skagaströnd, við ratsjána sem risin er á Selfelli á Skagaheiði. Mannvirkið er síðasta stóra verk Helga.
Skagaströnd Helgi Gunnarsson, verktaki á Skagaströnd, við ratsjána sem risin er á Selfelli á Skagaheiði. Mannvirkið er síðasta stóra verk Helga. — Morgunblaðið/Ólafur Bernódusson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Ólafur Bernódusson Skagaströnd

Úr bæjarlífinu

Ólafur Bernódusson

Skagaströnd

Einmuna veðurblíða hefur verið á Skagaströnd í allt haust. Það hefur sannarlega komið sér vel fyrir þá sem standa í stórframkvæmdum á og nálægt staðnum. Þannig fleygir fram vegagerð á nýjum Skagastrandarvegi og kringum 20. nóvember var 800 rúmmetra brúargólf steypt á nýrri brú sem er í byggingu yfir Laxá í Refasveit. Verkinu á að skila haustið 2023. Mikil ánægja er með þessa framkvæmd því núverandi vegur þolir alls ekki þá miklu umferð og þungaflutninga sem um hann fara. Eða eins og einn sjómaðurinn orðaði það: „Ég verð aldrei sjóveikur nema á veginum milli Blönduóss og Skagastrandar.“

Þá auðveldar tíðarfarið til muna framkvæmdir við nýja fráveitu sem nú standa yfir. Það er fyrirtækið Vinnuvélar Símonar á Sauðárkróki sem vinnur verkið fyrir sveitarfélagið. Hér er um stóra og þarfa framkvæmd að ræða því leggja á nýja fráveitu fyrir Víkina og út í sjó vestan við höfnina. Mun lögnin þannig þjóna stórum hluta bæjarins. Til þess að koma henni fyrir þarf að breikka Strandgötuna, sem liggur meðfram Víkinni, um nokkra metra og verður þá til skemmtilegur göngu- og hjólastígur meðfram sjónum.

Tíðarfarið hefur líka gert línubátunum, stórum og smáum, kleift að róa nánast alla daga. Stórir línubátar í eigu Vísis í Grindavík hafa landað hér reglulega frá því í september 90-150 tonnum hver bátur með 5-6 daga millibili. Nokkrir minni línubátar í eigu Vísis hafa verið hér einnig en þeir tíndust heim nú í nóvember. Frá 1. september til 27. nóvember hafði verið landað 5.200 tonnum af bolfiski á höfninni sem er um 1.000 tonnum meira en á sama tíma fyrir ári.

Spákonufellshöfði, sem er útivistarparadís, var friðaður árið 1980 sem fólkvangur. Friðunin hafði í för með sér að þar má ekki byggja eða raska á annan hátt því sem þar er fyrir nema með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar. Nú hefur Esja Architecture, fyrir hönd sveitarfélagsins, sótt um leyfi til stofnunarinnar til framkvæmda á Höfðanum. Fyrirhugað er að reisa fuglaskoðunarhús norðanvert á honum auk þess að leggja stíga og bæta og afmarka bílaplan. Um 300 metrar af stígnum eiga að vera hjólastólafærir að útsýnispalli á einum af fallegu stöðunum á Höfðanum. Umhverfisstofnun hefur þegar svarað erindinu jákvætt og munu framkvæmdir því hefjast vorið 2023.

Óvenjulegt mannnvirki var reist á Selfelli í Skagaheiðinni nú í september. Um er að ræða veðurratsjá sem á að gefa veðurfræðingum á Veðurstofu Íslands betri upplýsingar um veðrið fyrir Norðurlandi og gera þeim kleift að vera með nákvæmari veðurspár. Ratsjánni var valinn staður á Selfellinu því að mati sérfræðinga var það besti staðurinn á Norðurlandi.

Bygging þessa óvenjulega mannvirkis var í höndum Helga Gunnarssonar verktaka á Skagaströnd. Mun þetta vera síðasta „stóra“ verkefni Helga því hann lætur nú af störfum eftir 42 ára þjónustu við íbúa og nágrannabyggðir sem húsasmíðameistari. Hann hefur á þessum árum séð um allar meiriháttar byggingarframkvæmir á staðnum, t.d. kirkjuna og íþróttahúsið. Tveir ungir og atorkusamir menn, Gísli Reynisson og Ragnar Björnsson, hafa keypt fyrirtæki Helga og tekið við keflinu úr hans höndum.

Ekki hefur enn tekist að fjármagna fornleifarannsóknir á gömlum kirkjugarði sem er í námunda við Spákonufellskirkjugarð. Við borkjarnarannsóknir fornleifafræðinga, sem gerðar voru 2018, komu upp mannabein frá því um og fyrir árið 1100. Það kemur kannski ekki á óvart því í Íslendingasögum og þjóðsögum er getið um kirkju á Spákonufelli á seinni hluta 10. aldar. Þarna eru því sennilega spennandi mannvistarleifar frá upphafi byggðar á Skagaströnd sem fróðlegt væri að kanna betur.

Í elsta steinhúsi bæjarins, Bjarmanesi, hefur nú verið sett á stofn menningar- og samverumiðstöð fyrir Skagstrendinga. Hér er um óhagnaðardrifið fyrirbæri að ræða þar sem nánast allar uppákomur koma til greina. Nú þegar hafa verið haldnar þar nokkrar uppákomur, svo sem myndlistarsýning, félagsvist, prjónakvöld og upplestrarkvöld úr nokkrum jólabókum. Mæting í Bjarmanes hefur verið góð og góður rómur gerður að þessu framtaki, sem tvær ungar konur, Erla María Lárusdóttir og Eva Guðbjartsdóttir, standa fyrir.

Dagrúnu HU-121, sem er um 20 tonna bátur, verður líklega lagt nú um áramótin. Hún er önnur af tveimur fyrstu bátunum sem smíðaðir voru í Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar hf. á Skagaströnd 1971 og hefur verið gerð út allar götur síðan áfallalaust. Dagrúnin er frambyggð, sem var nokkur nýlunda á þeim tíma, og smíðuð úr eik og furu. Eigendur hennar hafa nú keypt sér nýlegan bát úr plasti sem er mun hraðgengari en Dagrúnin og hugsa sér að gera hann út í staðinn.