Axel er vanur að rúlla sínum verkefnum upp. Með bros á vör.
Axel er vanur að rúlla sínum verkefnum upp. Með bros á vör. — DR
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Danskir þættir sem gerast á árunum eftir 1960. Frumkvöðlahjónin Axel og Birthe byrja með hugmynd að hárrúllum sem verður fljótlega að stórfyrirtæki sem malar gull. Um leið ryðja þau brautina fyrir atvinnuþátttöku kvenna og valdefla þær um leið og…

Danskir þættir sem gerast á árunum eftir 1960. Frumkvöðlahjónin Axel og Birthe byrja með hugmynd að hárrúllum sem verður fljótlega að stórfyrirtæki sem malar gull. Um leið ryðja þau brautina fyrir atvinnuþátttöku kvenna og valdefla þær um leið og hárið er krullað.“

Ég verð að viðurkenna að langt er síðan dagskrárkynning í sjónvarpi hefur fengið mig til að klóra mér jafn duglega í krulluðu hárinu. Er hér á ferðinni leikinn myndaflokkur um hárrúllur? Getur það virkilega verið? Í öllu falli hljómaði þetta of súrt til að láta þáttinn, sem heitir einfaldlega Carmen Curlers eða Carmenrúllur, framhjá sér fara. Ég hlammaði mér því í sófann og er búinn með báða þættina sem sýndir hafa verið í línulegri dagskrá á RÚV. Og, jú, jú, Carmenrúllurnar eru í öndvegi en þegar hér er komið sögu er nýbúið að breyta nafninu úr Axelsrúllur. „Það vill engin kona vera með Axel í hárinu,“ segja meðverkendur söguhetjunnar. „Hvað með Carmen?“ bæta þau við og draga upp auglýsingu fyrir samnefnda óperu. Þannig að Georges gamli Bizet á óbeint heiðurinn af nafninu. Nú eða þá Prosper Mérimée. Nóvellan hans kom víst á undan.

Þyki ykkur Axel þessi kunnuglegur þá er það ábyggilega vegna þess að leikarinn, Morten Hee Andersen, fór með hlutverk séra Ágústs, sonar séra Jóhannesar, í þáttunum Vegir drottins eða Herrens Veje, sem RÚV sýndi fyrir nokkrum árum. Þar var hann nýkominn heim úr stríði, glímdi við geðræn vandamál og gekk á endanum í veg fyrir flutningabíl. Léttara er yfir okkar manni hér enda var allt auðveldara á sjöunda áratugnum, alltént ef marka má sjónvarpið. Að vísu geisaði ískalt stríð en á móti því kom menningarbyltingin bjarta með bítlamúsík og almennri bjartsýni og gleði. Ekki síst hjá unga fólkinu sem loksins, eftir ok aldanna, fékk sjálfstraust til að sleppa fram af sér beislinu.

Bítill, ekki bóndi

Fulltrúi þeirrar kynslóðar í krulluveislunni er hinn nýfermdi Sveinn. Hann vex úr grasi í litlu koti og á að sjálfsögðu að taka við býlinu af foreldrum sínum og hokra þar uns kallið kemur. Nema hvað hugur Sveins er ekki þar; heldur þráir hann ekkert heitar en að trylla meyjarnar með rafmagnsgítar í hendi. Alveg eins og Bítlarnir. Svo veikist faðir hans, Jörundur, skyndilega af hvítblæði. Kippir sér raunar lítið upp við þau tíðindi í fyrstu. „Fyrst þessi boðflenna kom allt í einu þá hlýtur hún að fara allt í einu líka,“ segir hann. Menn virðast ekki hafa verið vel að sér um vágestinn í dönskum sveitum fyrir sextíu árum.

Ef við hverfum aftur til hinnar mergjuðu dagskrárkynningar RÚV þá sætir tíðindum að spúsa Axels í þessum fyrstu tveimur þáttum heitir alls ekki Birta, heldur Tófa, og tekur virkan þátt í ævintýrinu. Snurða er að vísu hlaupin á þráðinn í lok annars þáttar sem opnar ugglaust dyrnar fyrir Birtu seinna meir. Sem er aftur hver? Jú, eiginkona Jörundar bónda og móðir Sveins.

Mín tilfinning er sú að Birta komi til með að bjarga málum enda staðföst kona að upplagi sem lætur ekki vaða yfir sig. Ekki veitir víst af enda fór fyrsta opinbera kynningin á Carmenrúllunum út um þúfur og aumingja Axel varð að athlægi eftir að kviknaði í hárinu á fyrirsætunni, téðri Tófu, á sviðinu á vörukynningu framtíðarinnar. En atriði þeirra var megaflott. Hugga má sig við það. Alltaf gaman að svona samhæfðum dansatriðum.

Kunnugleg andlit

Eitt af því skemmtilegasta og heimilislegasta við alla þessa dönsku myndaflokka, sem RÚV er svo duglegt að sýna okkur, er að andlitin eru upp til hópa kunnugleg. Lars Ranthe, sem leikur Jörund, hefur til dæmis komið við sögu í mörgum þáttum, eins og Vegum drottins. Hann var líka í myndum á borð við Veiðina og Drykkju með Mads okkar Mikkelsen. Það var svo auðvitað bróðir Mads, Lars Mikkelsen, sem lék séra Jóhannes í Drottins vegum. Þeir liggja víða þræðirnir í danskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Rétt eins og hér heima.

Maria Rossing, sem leikur Birtu, er líklega ekki eins þekkt hér um slóðir en ef marka má heimildir var hún síðast í kvikmyndinni Skyggen i mit øje á liðnu ári. Svo var hún í jóladagatali danska sjónvarpsins 2018, ef einhver man eftir því.

Pilturinn sem leikur Svein heitir hvorki meira né minna en Louis Næss-Schmidt og er orðinn býsna sjóaður í sjónvarpi þrátt fyrir ungan aldur, hann er 15 ára. Hann kom til dæmis við sögu í Netflixseríunni The Chestnut Man á liðnu ári.

Handritshöfundurinn, Mette Heeno, upplýsir í samtali við vef Norræna sjónvarps- og kvikmyndasjóðsins að leikstjórinn Katherine heitin Windfeld hafi upphaflega fengið þá hugmynd fyrir áratug að gera kvikmynd um Carmenrúllurnar, sem eru í raun og sann dönsk uppfinning. Sjálf kom hún að hirðinni seinna og á endanum var ákveðið að gera heilan myndaflokk. Persóna Axels er lauslega byggð á föður Carmenrúllnanna, Arne Bybjerg, sem mun hafa verið litríkur náungi og ofboðslega hress. Aðrar persónur eru skáldaðar.

„Eftir að hafa kynnt mér málið betur gerði ég mér grein fyrir því að þetta gæti orðið mun umfangsmeiri saga,“ segir Heeno, „um konur að ryðjast út á vinnumarkaðinn og öðlast frelsi á sjöunda áratugnum, þegar miklar þjóðfélagsbreytingar áttu sér stað og efnahagurinn blómstraði.“

Vinsælli en kappræðurnar

Carmenrúllurnar hafa fallið í frjóa jörð í Danmörku og fóru beint á toppinn yfir vinsælasta sjónvarpsefni landsins, þegar flokkurinn var frumsýndur í haust. Veltu þar úr sessi vinsælum skemmtiþáttum á borð við The Great Danish Bake-Off og Strictly Dancing.

Ekki nóg með það, mun fleiri Danir horfðu á annan þáttinn af rúllunum en kappræður Mette Frederiksen forsætisráðherra og annarra stjórnmálamanna fyrir þingkosningarnar, sem fram fóru á sama tíma. 664 þúsund manns sáu rúllurnar en 498 þúsund kappræðurnar.

„Við erum í skýjunum með þessar tölur,“ sagði framleiðandinn, Stinna Lassen, en umsagnir danskra gagnrýnenda hafa líka verið lofsamlegar. Önnur sería af Carmenrúllunum er fyrirhuguð næsta haust.