Strandafólk Gunnsteinn Gíslason og Margrét Jónsdóttir, nú Akurnesingar.
Strandafólk Gunnsteinn Gíslason og Margrét Jónsdóttir, nú Akurnesingar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Árangur í lífinu byggist meðal annars á því að vera jafnan trúr sínu, sinna öllum verkum af áhuga og gleði. Ekki sakar heldur að vera ánægður með sitt þótt mikilvægast af þessu öllu sé að eiga góða fjölskyldu,“ segir Gunnsteinn Gíslason

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Árangur í lífinu byggist meðal annars á því að vera jafnan trúr sínu, sinna öllum verkum af áhuga og gleði. Ekki sakar heldur að vera ánægður með sitt þótt mikilvægast af þessu öllu sé að eiga góða fjölskyldu,“ segir Gunnsteinn Gíslason. Hann verður níræður á morgun, 4. desember, og af því tilefni taka þau Margrét Jónsdóttir kona hans á móti gestum á heimili sínu á Akranesi. Þangað fluttu þau á síðasta ári eftir að hafa átt heima alla sína tíð í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum.

Gunnsteinn sat í hreppsnefnd Árneshrepps frá 1958 til 2006, eða í alls 48 ár. Oddviti var hann í 35 ár. Gunnsteinn fékk riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2002 fyrir störf að sveitarstjórnarmálum.

Sinnti því sem þurfti

„Verkefnin í þágu sveitarinnar voru fjölbreytt. Vegna þeirra þurfti ég oft að funda fyrir sunnan með ráðamönnum, til dæmis Steingrími Hermannssyni. Mikill áfangi náðist í vegamálum þegar akfær vegur var lagður frá Hólmavík og í Norðurfjörð árið 1966. Á þeim tíma bjuggu líka vel á annað hundrað manns í sveitinni,“ segir Gunnsteinn, sem er frá bænum Steinstúni í Árneshreppi. Þau Margrét, sem er frá Stóru-Ávík í sömu sveit, hófu búskap árið 1960 og bjuggu í Norðurfirði. Þar var Gunnsteinn næstu áratugi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Norðurfjarðar. Það þraut örendið árið 1993 og þá tók Margrét við rekstri verslunarinnar sem eftirleiðis var á vegum kaupfélagsins á Hólmavík.

Þau Gunnsteinn og Margrét bjuggu svo lengi á Bergistanga, skammt frá verslunarhúsunum, og fóru seinna út í rekstur ferðaþjónustu. Börn þeirra hjóna eru fimm; Jón Unnar, Gíslína Vilborg, Guðrún, Gísli Baldvin og Álfheiður Hildur. Alls eru afkomendurnir orðnir 33. „Í Norðurfirði sinnti ég einfaldlega þeim störfum sem þurfti,“ segir Gunnsteinn, sem alveg fram á síðustu ár var hafnarvörður. Sá þar um löndun afla, en á sumrin er gerður út fjöldi strandveiðibáta frá Norðurfirði.

Hátíðleg tímamót

Í mörgu tilliti er byggðin í Árneshreppi sveipuð ljóma, hvort heldur sem þar ráða vel stílaðar frásagnir skáldanna eða fallegar ljósmyndir af blóðrauðu sólarlagi og stórbrotinni náttúru. „Strandir hafa oft yfir sér ljóma. Slíkt gerðist strax um 1910 þegar síldarspekúlantar komu á svæðið til að verka síld, sem þá var nóg af. Seinna voru reistar stórar verksmiðjunar í Djúpuvík og á Eyri við Ingólfsfjörð, þótt ekki væru starfræktar nema í fá ár. En þar fékk fólk vinnu, strákar og stelpur pöruðust saman. Sum settu sig niður í sveitinni og þá var fullt af börnum á hverjum einasta bæ. Svo breyttist þetta og fólkinu fór að fækka,“ segir Gunnsteinn.

Íbúar í Árneshreppi í dag eru 42. Þar af dveljast í Norðurfirði nú yfir veturinn fjórir; tvennt af hvoru kyni. „Börnin okkar vildu fá okkur suður. Fannst ekkert vit í að við værum þar þegar sveitin er nánast tóm. Og í sjálfu sér var að því leyti ekki sanngjarnt að við værum áfram fyrir norðan. Við héldum því suður í fyrra. Góðum tíma á Ströndum er lokið,“ segir Gunnsteinn. Heilsu sína segir hann ágæta miðað við aldur, en viðurkennir að snerpan sé ekki söm og áður. Þó er ástæða til að halda tímamótin hátíðleg eins og gert verður með kaffi og bakkelsi á sjálfu afmælinu á morgun, 4. desember, sem er annar sunnudagur í aðventu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson