Viðræður Ríkissáttasemjari segir daginn hafa verið langan í gær.
Viðræður Ríkissáttasemjari segir daginn hafa verið langan í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins funduðu fram eftir kvöldi í gær og stóðu fundahöld enn yfir þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöld. Samflot iðn- og tæknimanna lauk fundi sínum með Samtökum atvinnulífsins síðdegis

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins funduðu fram eftir kvöldi í gær og stóðu fundahöld enn yfir þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöld. Samflot iðn- og tæknimanna lauk fundi sínum með Samtökum atvinnulífsins síðdegis. Iðn- og tæknimenn halda áfram viðræðum sínum og munu forsvarsmenn þess mæta til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan 14.00 í dag í Karphúsinu.

„Ef það gengur ekkert í viðræðunum þá er auðvitað fátt annað að gera en að lýsa yfir árangursleysi viðræðnanna,“ segir Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður Alþýðusambandsins og Rafiðnaðarsambandsins.

Hefðum viljað sjá árangur

Kristján segir að viðræður hafi lítið þokast í gær en örlög viðræðnanna hefðu átt að ráðast þá.

„Þetta sýnir svolítið stöðuna, myndi ég segja,“ segir hann en viðræður hafi lítið þokast áfram.

„Við þurfum að fara að sjá árangur af þessu, þar er alveg ljóst. Félagsmenn bíða eftir því að fá launahækkanir til þess að bregðast við þeim auknu útgjöldum sem heimilin verða fyrir. Það er brýnt að þetta fari að gerast og gerist tiltölulega hratt,“ segir Kristján. Segir hann kröfur sinnar samninganefndar aðallega snúast um prósentuhækkanir á launum. Þá hafi einnig verið rýnt í stöðu mismunandi hópa, sem iðn- og tæknifólk tilheyrir. SGS hefur á hinn bóginn lagt áherslu á krónutöluhækkanir launa.

Miklar væntingar til gærdagsins hjá SGS

Fundur Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) stóð yfir fram á kvöld í gær, eftir að iðn- og tæknimenn viku af fundi. Vilhjálmur Birgisson, formaður sambandsins, sagði í samtali við mbl.is í gær að viðræður dagsins myndu leiða í ljós hvort sambandið haldi áfram kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

„Ég tel þetta ögurstundu sem við stöndum frammi fyrir núna, hvort menn nái saman eða allavega fari á þann stað að það sé hægt að halda áfram með þessar viðræður eða ekki,“ sagði Vilhjálmur. Samningafundir hófust klukkan eitt og segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, gærdaginn hafa verið langan.

„Þetta er flókið og þungt verkefni fyrir samninganefndirnar. Ég ber mikla virðingu fyrir því vinnuframlagi sem þær koma með í þessu erfiða verkefni. Enda sést það á því hve þétt þessi vinna hefur verið, ekki bara í dag heldur undanfarna viku.“

VR hefur slitið viðræðum og var því ekki með á fundinum í gær. Landssamband íslenzkra verzlunarmanna hefur ekki slitið viðræðum en var þó ekki á fundi ríkissáttasemjara í gær.

Bundu vonir
við gærdaginn

Iðn- og tæknimenn og SA luku fundi í gærkvöldi

Enginn árangur en funda aftur í dag

SGS og SA funduðu fram eftir kvöldi

Viðræðurnar áfram sagðar flóknar

Þarf að slíta ef enginn árangur næst, að sögn formanns ASÍ

Höf.: Veronika Steinunn Magnúsdóttir