Yrsa Hún „teiknar upp óhugnanlega mynd í kuldalegu umhverfi, en nær ekki alveg utan um gjörðir einstaklinganna“.
Yrsa Hún „teiknar upp óhugnanlega mynd í kuldalegu umhverfi, en nær ekki alveg utan um gjörðir einstaklinganna“. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasaga Gættu þinna handa ★★★½· Eftir Yrsu Sigurðardóttur. Veröld 2022. Innbundin, 335 bls.

BÆKUR

Steinþór

Guðbjartsson

Stundum er það svo að fólk hittist varla nema í jarðarförum og notar þá tækifærið til þess að rifja upp gamla og góða tíma og velta fyrir sér framtíðinni. Þetta á við um vinahópinn í glæpasögunni Gættu þinna handa eftir Yrsu Sigurðardóttur, en það sem á að verða notaleg helgardvöl að lokinni jarðarför í Vestmannaeyjum í janúar breytist í algjöra martröð.

Flestir ef ekki allir háskólanemar upplifa ábyrgðarlaust líf á stundum í frístundum frá krefjandi námi. Stundum fara menn yfir strikið og ætla má að þeir bregðist yfirleitt við á skynsaman hátt, iðrist gjörða sinna og læri af reynslunni, þótt ekki sé hægt að alhæfa neitt í því efni. Vinahópurinn fyrrnefndi stóð frammi fyrir ákveðnu vandamáli á stúdentagarðinum á námsárunum og í stað þess að setja það í réttan farveg sópuðu þeir því undir teppið. Það reyndist afdrifarík ákvörðun og kom þeim í koll sjö árum síðar. Eftir jarðarför í Eyjum. Einstaklingarnir í hópnum eru eins misjafnir og þeir eru margir og virðast eiga fátt sameiginlegt. Ari er hagfræðingur, Leifur tölvunarfræðingur, Ragga vélaverkfræðingur, Sigga lögmaður og Trausti læknir í framhaldsnámi. Traustir hlekkir á yfirborðinu en ekki er allt sem sýnist eins og kemur í ljós þar sem vindurinn blæs.

Yrsa sér sviðið fyrir sér, teiknar upp óhugnanlega mynd í kuldalegu umhverfi, en nær ekki alveg utan um gjörðir einstaklinganna í hópnum. Þeir bregðast við óvæntum tíðindum á ótrúlegan hátt, eru ótrúverðugir í háttum sínum, hafa í raun ekkert lært og súpa seyðið af því. Sagan nær því ekki því flugi sem að er stefnt.

Öðru máli gegnir um rannsóknarfólkið, þar sem réttarlæknirinn Iðunn er drottning í ríki sínu á réttarmeinafræðideild Landspítalans, mikilvægasta persónan í sögunni. Öfugt við vinahópinn vill hún helst ekki fara til Eyja vegna fjölskyldumála, en gerir það eingöngu vinnunnar vegna. Persónulegir hagir skipta vinahópinn öllu þegar í harðbakka slær en Iðunn víkur einkahagsmunum til hliðar þegar starfið kallar. Það kallar á árekstra með ófyrirséðum afleiðingum.

Þótt framganga vinahópsins og annarra sem honum tengjast sé með ólíkindum dregur Yrsa fram persónueinkenni sem hæfa hverjum og einum. Þetta menntaða fólk býður ekki af sér góðan þokka og ekki er auðvelt að finna til með því, en í tilfelli Iðunnar og Alexöndru er ljóst að mennt er máttur.