Tungutak
Sigurbjörg Þrastardóttir
sitronur@hotmail.com
Það var hressandi hjá málfræðingnum Nils Langer að benda okkur á um daginn að fólki sé stundum mismunað á grundvelli tungutaks. Þetta þekkist m.a. í fjöltyngdum samfélögum og þau eru ekki ný af nálinni, sjá allt frá Egyptalandi til Austurrísk-ungverska keisaradæmisins. Seinni fyrirlestur Nils – já, fyrir ykkar hvatningu fór ég aftur á vettvang! – tók á sambúð tungumála og gengi minnihlutamála, þ.e. mála sem þrengt er að, og við hugsum kannski ekki oft um hér, en hver veit hvernig mál þróast til framtíðar. Og þróun mála er einmitt meðal hugðarefna Nils.
Hann er í fyrsta lagi á því að við mættum eiga betri tungumálasögu. Málsaga sé oft bundin við eitt tungumál, minna sé fjallað um sambúð fleiri mála. „Sagnfræðingar skrifa of sjaldan um tungumál,“ segir hann. Mál sé heyranlegt í rauntíma en ósýnilegt síðar ef embættismenn nota annað mál í annála. Stríð séu „gagnleg“ að þessu leyti, þá fari „ómenntað fólk á vígstöðvarnar og skrifi heim“, sem komi rannsakendum til góða. Einnig megi rekast á upplýsingar um útbreiðslu mála í gögnum eins og Umkvörtunarefnum kennara frá 1872 í Slésvík-Holtsetalandi: „Þar kemur fram að það þurfi betri kúagerði, og betri stíga, svo börn komist í skólann, en einnig að börnin skilji ekki öll þýsku, sem sé vesen.“ Árið 1872 hafi þýska átt að vera opinbert skólamál héraðsins, enda dönskuvæðing flautuð af 1864, en ekki fara alltaf saman tilskipanir og veruleiki – frísneska var töluð heima við, eða danska. Embættismenn lærðu reyndar ekki þýsku nógu hratt svo undanþágur voru framlengdar árum saman, svipað og þegar heiðin blót leyfðust á laun eftir upptöku kristni … jæja, kannski ekki alveg, en grunnstef Nils var að sambúð tungumála er síbreytilegur og flókinn veruleiki. Þegar einblínt sé á hefðbundinn málhafa eins máls missi fræðingar af stórum hópum sem töluðu önnur mál samhliða. Og gefi sagnfræðingar tungumálum ekki gaum missi þeir af þætti sem sé giska ráðandi í daglegu lífi fólks.
Þá eru dæmi um að yfirvöld haldi upplýsingum frá fólki með tungumálastjórnun: „Þegar Tógó var þýsk nýlenda var viðkvæðið: Kennum þeim þýsku, samt ekki of góða þýsku, því ekki viljum við að þeir fari að lesa sósíaldemókratísk dagblöð!“ Dæmi séu líka um hópa án aðgangs að tungutaki sem gerir þeim kleift að verja sig fyrir dómstólum.
En minnihlutinn er ekki alltaf í stöðu fórnarlambs. Nils tók dæmi um svæði þar sem valdefling undirokaðs máls hafi jafnvel fleygað stöðu útbreiddara málsins, nefndi Katalóníu, Úkraínu, Írland og fleiri viðkvæm dæmi, en vogaði sér ekki nánar út í þau enda hefði það kallað á nýjan fyrirlestur. Að síðustu spurði hann ótal spurninga um valddreifingu, bælingu, viskuna sem felst í hverfandi málum og hvort málstefna eigi að snúast um tungumál eða fólk. Snúnar spurningar sem fyrr hjá Nils, enda ekki til prófs heldur íhugunar.