Maj-Britt Hjördís Briem er lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins.
Maj-Britt Hjördís Briem er lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég las mikið sem barn og enn meira á unglingsárum. Sem barn heillaðist ég af sterkum kvenpersónum Astrid Lindgren, leit upp til hugrökku Ronju ræningjadóttur og orðheppnu Línu langsokks. Bróðir minn Ljónshjarta hitti mig í hjartastað, dauðinn varð…

Ég las mikið sem barn og enn meira á unglingsárum. Sem barn heillaðist ég af sterkum kvenpersónum Astrid Lindgren, leit upp til hugrökku Ronju ræningjadóttur og orðheppnu Línu langsokks. Bróðir minn Ljónshjarta hitti mig í hjartastað, dauðinn varð áþreifanlegur en hugrekkið og samheldnin ávallt leiðarstef. Á unglingsárum var ég tíður gestur á bókasafninu og týndi mér í ævintýra- og ráðgátubókum Enid Blyton. Mér fannst heillandi lesa bækur þar sem börnin sjálf lentu í ævintýrum og tókust á við ráðgátur og sakamál án aðstoðar fullorðinna. Í framhaldi fékk ég áhuga á morðgátubókum Agöthu Christie, glæpasögum Stephens Kings og leitaði í seinni tíð í meiri hrylling t.d. í bækur Kepler-hjónanna, Stigs Larssons og Jussi Adlers Olsens. Af íslenskum glæpasögum hafa bækur Arnaldar Indriðasonar hrifið mig og er Grafarþögn í miklu uppáhaldi. Á unglingsárum las ég þó ekki eintómar glæpasögur. S-amerískar bókmenntir töfruðu mig og ég las allar bækur Isabelle Allende sem ég komst í. Hús andanna og Eva Luna standa upp úr. Hús andanna er heillandi og stórbrotin ættarsaga, drifin áfram af sterkum og litríkum kvenpersónum. 100 ára einsemd eftir Gabirel García Márquez var lengi uppáhaldsbókin mín, goðsagnakennd ættarsaga og Alkemistinn eftir Paulo Coelho hvatti mig til þess að fylgja draumum mínum og láta hjartað ráða för án þess þó að gleyma þeim verðmætum sem búa hið innra. Flugdrekahlauparann eftir Khaled Hosseini las ég í einum rykk, þar sem ég lá á sólbekk í Sitges. Saga um menningu, mannlíf, pólitík, sorgir og vináttu í Afganistan, framandi heim sem mér var ókunnur. Í seinni tíð hef ég einna helst heillast af bókum Ólafs Jóhanns Ólafssonar og eru Sakramentið og Snerting bestu bækur sem ég hef lesið undanfarin ár. Játning hans nýjasta bók bíður á náttborðinu. Góð bók á aðventunni svíkur engan. Stíll og frásögn Ólafs Jóhanns hentar mér vel. Þrátt fyrir látleysi býr textinn yfir dýpt, samkennd og fegurð sem lætur mig ekki ósnortna. Að lokum vil ég minnast á uppáhaldshöfunda mína þá Gyrði Elíasson og Milan Kundera. Svefnhjólið eftir Gyrði er hálfgerð draugasaga, ekki er allt sem sýnist og frásögnin dansar á línunni milli raunheims og fantasíu. Kundera hefur skrifað allt frá litlum fallegum ástarsögum til stórbrotinna stórverka. Verk hans hafa mótað og haft áhrif á sögu heillar þjóðar en einnig hrist upp í heimi unglingsstúlku í Reykjavík. Óbærilegur léttleiki tilverunnar og Bókin um hlátur og gleymsku standa upp úr en þar fléttar Kundera öllum hliðum lífsins snilldarlega saman á grátbroslegan og margslunginn hátt.