Hlýindi Ágætlega viðraði til útiveru í Reykjavík í nóvember en meðalhitinn í borginni í mánuðinum var 5,1 stig, 2,9 stigum yfir meðallagi.
Hlýindi Ágætlega viðraði til útiveru í Reykjavík í nóvember en meðalhitinn í borginni í mánuðinum var 5,1 stig, 2,9 stigum yfir meðallagi. — Morgunblaðið/Eggert
Meðalhiti nóvembermánaðarins var sá hæsti sem mælst hefur í nóvember á landsvísu eða um 4,4 stig. Var hitinn um þremur gráðum hlýrri en að meðallagi og sló naumlega hitamet nóvembermánaðar frá 1945. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar yfir tíðarfar í nóvember

Meðalhiti nóvembermánaðarins var sá hæsti sem mælst hefur í nóvember á landsvísu eða um 4,4 stig. Var hitinn um þremur gráðum hlýrri en að meðallagi og sló naumlega hitamet nóvembermánaðar frá 1945.

Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar yfir tíðarfar í nóvember. Mánuðurinn var með hlýjustu nóvembermánuðum sem mælst hafa á mörgum veðurstöðvum, t.a.m. sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Grímsey, á Teigarhorni og á Hveravöllum, og aðeins einu sinni hefur mánaðarmeðalhiti nóvember verið jafn hár í Árnesi. Það var árið 2014 en sá nóvembermánuður er einnig á meðal þeirra hlýjustu frá upphafi mælinga.

Í Reykjavík var meðalhiti mánaðarins 5,1 stig sem er 2,9 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 2,6 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar. Hæsti hiti sem mælst hefur í nóvember í Reykjavík var 12,7 stig hinn 13. en nóvemberhitametið í Reykjavík var 12,6 stig frá 19. nóvember 1999.

Á Akureyri var meðalhiti mánaðarins 3,5 stigum umfram meðallag 1991 til 2020 og 3,4 stigum umfram meðallag síðustu tíu ára, en þar var meðalhitinn 4,2 stig. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,6 stig og á Höfn í Hornafirði 6,3 stig. Nýliðinn nóvembermánuður var sá þriðji hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík og á Akureyri og sá næsthlýjasti í Stykkishólmi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,3 stig á Steinum undir Eyjafjöllum. Lægsti mánaðarmeðalhitinn mældist -1,5 stig í Sandbúðum. Í byggð mældist mánaðarmeðalhitinn lægstur 0,4 stig í Svartárkoti. Hæsti hiti sem mældist á landinu var 16,3 stig á Miðsitju í Skagafirði þ. 13. Lægstur mældist hitinn -15,5 stig þ. 13. í Svartárkoti, en það er jafnframt lægsti mældi hiti í byggð þennan mánuðinn.