Jonestown, Gvæjana. AFP. | Lengst inni í frumskógum Gvæjana stendur er aðeins að finna skilti og skjöld, sem lætur lítið yfir sér, til að minna á bækistöðvar sértrúarsafnaðar sem voru vettvangur einhvers hryllilegasta fjöldamorðs seinni tíma.
„Velkomin í hof fólksins,“ er letrað grænum stöfum á skilti yfir rauðum malarvegi þar sem áður var Jonestown og 914 fullorðnir menn og börn létu lífið 18. nóvember 1978.
Fólkið var í sértrúarsöfnuði James Jones, sem þvingaði það til að fremja sjálfsmorð. Hann hvatti foreldra til að eitra fyrir börnum sínum, þeir sem reyndu að flýja voru skotnir og þeir sem þráuðust við neyddir til að drekka eiturdrykk.
Blóðbaðið þótti bera vitni því valdi, sem leiðtogar sértrúarsafnaða geta náð yfir fylgjendum sínum. Þeir sem búa í nágrenninu myndu helst vilja vera lausir við minninguna um þennan voðalega atburð, en óska þess um leið að staðurinn verði öðrum víti til varnaðar um það sem getur farið úrskeiðis.
„Það er í raun ekkert að sjá, nema staðurinn verði ruddur þannig að í ljós komi hvað þarna er að finna, gömul farartæki, traktorar og annað,“ sagði Fitz Duke, sem býr í Port Kaituma, afskekktu þorpi skammt frá.
Hann var 31 árs þegar fjöldamorðið var framið og minnist söfnuðar hans, fátækra Bandaríkjamanna af afrískum uppruna, sem lögðu hart að sér við að reisa sér það sem átti að vera sósíalísk, sjálfbær byggð á 1.500 hektara landi á þessum afskekkta stað.
„Landbúnaðurinn var vel rekinn hjá þeim,“ sagði Duke og bætti við að þorpsbúar hefðu oft unnið fyrir söfnuðinn. „Þeir voru með mikinn búfénað og voru nánast sjálfbær um mat. Við fórum oft í heimsókn. Þau voru með góða hljómsveit, mikið af hljóðfærum.“
Yfirlýst var að þetta væri samfélag án rasisma og sexisma, paradís á jörð, en Jones og aðstoðarmenn hans stjórnuðu með harðri hendi. Fyrrverandi félagar í söfnuðinum hafa sagt frá eiturlyfjum, svelti og kynlífsþrælkun. Jones hefði pínt fólk til að vinna myrkranna á milli sex daga vikunnar.
„Menn gátu ekki komið og farið að vild,“ sagði Duke. „Þeir voru með stóran turn þar sem hægt var að fylgjast með aðalveginum og þar stóðu alltaf menn með kíki.“
Hann sagði að þeir hefðu verið með „stærri byssur en lögreglan“ og eitt sinn hefðu þeir stoppað lögregluna með þeim orðum að þeir væru „ekki í Gvæjönu heldur Jonestown“.
Eftir að kvartanir höfðu borist í Bandaríkjunum um lífskjörin í sértrúarsöfnuði Jones fór þingmaðurinn Leo Ryan til Jonstown 17. nóvember 1978 til að rannsaka málið. Daginn eftir þegar hann var að fara um borð í flugvél heim til Bandaríkjanna skutu liðsmenn Jones hann til bana ásamt þremur blaðamönnum og manni úr söfnuðinum, sem vildi fara.
Jones hafði lengi varað fylgismenn sína um að atlaga bandarískra stjórnvalda væri yfirvofandi og haldið æfingar í hvernig ætti að innbyrða eitur. Nú varð ekki aftur snúið. Hann sagði söfnuðinum að Ryan hefði verið útsendari CIA og árás bandarískrar sérsveitar væri yfirvofandi.
Nærri líki Jones fannst 45 mínútna upptaka þar sem mátti heyra hvernig hann hvatti söfnuðin til að fremja sjálfsmorð og sagði að það væri „byltingarathöfn“.
„Það sætir enn undrun að einn maður geti heilaþvegið mörg hundruð manns með þessum hætti,“ sagði Duke.
44 árum síðar er aðeins að finna hvítan stein með áletruninni „í minningu fórnarlamba fjöldamorðsins í Jonestown“ til vitnis um það sem þarna gerðist.