Hernám Lagt er til að aðgerðir yfirvalda gegn samskiptum stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar verði rannsakaðar.
Hernám Lagt er til að aðgerðir yfirvalda gegn samskiptum stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar verði rannsakaðar. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er með grófustu glæpum íslenska ríkisins gegn eigin þegnum sem við vitum um,“ segir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur um aðgerðir yfirvalda til að sporna við samskiptum íslenskra kvenna við hermenn í kjölfar hernámsins hér árið 1940. Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um að skipuð verði nefnd til að rannsaka starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942-1943. Fjöldi þingmanna úr nokkrum flokkum flytur tillöguna en sambærileg tillaga hefur áður verið lögð fram án þess að hljóta brautargengi.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er með grófustu glæpum íslenska ríkisins gegn eigin þegnum sem við vitum um,“ segir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur um aðgerðir yfirvalda til að sporna við samskiptum íslenskra kvenna við hermenn í kjölfar hernámsins hér árið 1940. Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um að skipuð verði nefnd til að rannsaka starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942-1943. Fjöldi þingmanna úr nokkrum flokkum flytur tillöguna en sambærileg tillaga hefur áður verið lögð fram án þess að hljóta brautargengi.

Ofboðsleg skömm hefur ríkt

Hafdís Erla var ein þeirra sem skiluðu umsögn um þingsályktunartillöguna í vikunni. Í umsögninni kveðst Hafdís telja að bráðabirgðalög frá 1941 um eftirlit með ungmennum, stofnun Ungmennadómstóls og visthælið á Kleppjárnsreykjum ættu að falla undir opinbera endurskoðun en kröfur um slíkt hafi færst töluvert í vöxt á síðustu árum. Hún leggur áherslu á að slík rannsókn einskorðist ekki við stúlkur sem dæmdar voru til vistar á Kleppjárnsreykjahælinu „heldur taki einnig til þeirra sem var gert að yfirgefa bæinn þar sem þær töldust ekki hæfar til búsetu í þéttbýli. Slík útskúfun á sér fá eða engin fordæmi í sögu Íslands sem fullvalda ríkis,“ skrifar Hafdís og bætir við að í gögnum Sakadóms Reykjavíkur og Ungmennadómstóls sé að finna nokkur dæmi um stúlkur sem sögðu frá kynferðislegri misnotkun í yfirheyrslum en voru samt sem áður dæmdar til að yfirgefa borgina og máttu þær ekki dveljast í kaupstöðum í eitt ár á eftir.

„Það hefur ríkt svo ofboðsleg skömm um þessi mál. Konurnar sem voru þarna hafa aldrei nokkurn tímann stigið fram og rætt þetta. Umræðan tók að breytast eftir aldamótin 2000 og fólk fór til að mynda að verða opnara að ræða um kynferðislegt ofbeldi. Í allri þeirri viðhorfsbreytingu hefur aldrei nokkur kona talað um að hafa verið á Kleppjárnsreykjum. Það fer enda ekki á milli mála af gögnum að dæma hvernig þær upplifðu þetta. Þær vildu frekar ganga í sjóinn en að fara á hælið. Þær töldu að lífi sínu væri lokið.“

Fordæmi komið í Noregi

Hafdís bendir á að árið 2019 hafi norska ríkisstjórnin gefið út opinbera afsökunarbeiðni til kvenna sem einnig máttu sæta ofsóknum og ofbeldi vegna þess að þær áttu í samböndum við þýska hermenn.

„Nú er íslenskum stjórnvöldum mikið í mun að flagga jafnrétti sem við erum býsna góð í. Ef þeim er alvara með það að vera leiðandi á þeim vettvangi þá þarf að gera þessi mál upp, ekki spurning,“ segir Hafdís. „Þarna var í gildi löggjöf sem beint var gagngert gegn konum. Hún var framkvæmd gegn konum sem áttu ekki bakland og gátu ekki varið sig. Nú hefur Noregur stigið þetta skref. Þar með er komið fordæmi sem gerir það að verkum að auðveldara verður að vinna þessu máli forgöngu.“

Enn eimir af fordómum

Sumar á lífi

Brýna nauðsyn ber til þess að upplýst verði með opinberri rannsókn hvað raunverulega átti sér stað á Kleppjárnsreykjum og við lögreglurannsóknir á ungum konum í kjölfar komu erlendra herliða til landsins, segir í þingsályktunartillögunni. „Enn eimir af fordómum í garð þeirra kvenna sem voru viðfangsefni þessara rannsókna og sættu jafnvel frelsissviptingu í kjölfarið. Sumar þessara kvenna eru enn á lífi og ekki of seint að þeim verði veitt opinber afsökunarbeiðni. Nauðsynlegt er að uppræta fordómana og skömmina sem þessar konur máttu þola alla sína tíð, og þola jafnvel enn,“ segir í ályktuninni en flutningsmaður er Gísli Rafn Ólafsson.