„Á heimasíðu breska þingsins sést að forseta neðri málstofunnar ber að beita ávítum þegar kurteisisreglur þar eru brotnar með því að gera sök viðkomandi þingmanns heyrinkunnuga.“
„Á heimasíðu breska þingsins sést að forseta neðri málstofunnar ber að beita ávítum þegar kurteisisreglur þar eru brotnar með því að gera sök viðkomandi þingmanns heyrinkunnuga.“ — AFP/Breska þingið/Jessica Taylor
Bann kemur ávallt fram sem hluti af kerfi og bannorðalistar eru ekki samhengislausir, en það liggur í hlutarins eðli að ekki er auðvelt að semja listann án þess að nefna orðin.

Margir þekkja pípið sem sett er yfir mál manna í amerísku sjónvarpsefni þegar einhver lætur eitthvað út úr sér sem þar má ekki heyrast. Skylt þessu er þegar fólk er blokkað á samfélagsmiðlum fyrir þá sök að skrifa orð sem ekki mega þar sjást. Íslendingar eru óvanir þessu enda hefur aldrei tíðkast hérlendis að beita viðurlögum samkvæmt bannorðalista.

Ritstjórn og ritskoðun

Bann kemur ávallt fram sem hluti af kerfi og bannorðalistar eru ekki samhengislausir, en það liggur í hlutarins eðli að ekki er auðvelt að semja listann án þess að nefna orðin. Að þessu leyti er ritstjórnarstefnu á samfélagsmiðlum þó framfylgt með því að mata hugbúnað á óleyfilegum orðum og láta vélina leita stöðugt og skella í lás jafnskjótt og einhver lætur út úr sér bannorð. Að vísu má telja langt gengið að kalla það ritstjórn, því að ritskoðun virðist eiga eins vel við þar sem viðurlögum er beitt samhengislaust við annað en það sem varðar bannið sjálft. Ritstjórn er líkari því sem lýst er á heimasíðu BBC, þar sem kemur fram að við starfsþjálfun séu ræddir þeir hlutir sem ekki eiga að heyrast þar á bæ.

Kerfið á bak við bann

Bannorðalistar liggja ekki á lausu, en leit á gúglinu skilaði upplýsingum um kerfi, sem komu mér að mestu leyti lítið á óvart. Helst eru bönnuð blótsyrði og ákveðin orð yfir líkamsparta og vessa, klám, orð með kynferðislegar skírskotanir og sumstaðar má ekki nefna áfengi, fíkniefni eða tóbak. Í stórum dráttum snýst málið um almennt siðgæði og á síðari árum hafa komið til grófyrði sem talin eru geta átt við heila þjóðfélagshópa.

Listarnir lengjast eftir því sem samfélagsmiðlatjáning verður almennari og nú síðast hafa bæst við orð sem einhverjum fyndist mætti setja í klúrt eða fordómafullt samhengi; sem hafa á einhvern hátt sambærilega merkingu og bönnuðu orðin, sem og stafsetningarafbrigði sem fólk gæti fundið upp á til þess að komast fram hjá reglunum. Þar með er talin myndræn tjáning, svokölluð lyndistákn eða tjásur og með þessu reynir á takmörk reglunnar um það sem er bannað. Sagan segir að á bannskrá hjá TikTok sé að finna tiltekna sjúkdóma og dauðann sjálfan og það virðist á skjön við almennu reglurnar. Ef til vill skýrist það af menningu, en líklega þó heldur af pólitískum aðstæðum í heimalandi fyrirtækisins sem á það, nefnilega Kína.

Á heimasíðu breska þingsins sést að forseta neðri málstofunnar ber að beita ávítum þegar kurteisisreglur þar eru brotnar með því að gera sök viðkomandi þingmanns heyrinkunnuga. Aðferðin til þess er að nefna þingmanninn með nafni, sem mun aldrei annars gert og mætti þannig halda því fram að nöfn sitjandi þingmanna séu bönnuð. Annars snúa orðin sem þingforsetar hafa talið óviðunandi öll að því að fundarmenn hafi kallað hver annan ónefnum, svo sem blackguard, coward, git, guttersnipe, hooligan, rat, swine, stoolpigeon og traitor.

Bannorðalisti verður hins vegar ekki til úr dæmum og þessi upptalning endurspeglar einungis reglu, þar sem samhengið er aðalatriði en ekki orðið sjálft. Málið snýst um sá sé látinn finna fyrir því, sem hefur hvers konar vansæmdarorð um annan.

Skemmileg orð

Ég slæ því fram að bannorðalistar séu menningarlegt afsprengi af sögulegu samkrulli milli trúarbragða og réttarkerfis frá fornu fari. Þeir eru framandlegir í augum Íslendings af því að þeir hafa ekki tíðkast hérlendis, þrátt fyrir að upptalning og listar séu ekki óalgeng í íslenskum lögum. Það eina sem líkist bannorðalista í gömlum lögum er þar sem segir um refsingu við því að brigsla mönnum um glæpi, til dæmis með því að kalla þá nöfnum, sem aðeins áttu við um dæmda sakamenn. Það er ekki ósvipað og sést á dæmunum frá breska þinginu, en eins og á við þar er ekki um að ræða eiginlegan bannorðalista.

Markmiðið með umræddum lögum var æruvernd og grundvöllurinn sú hugmynd, að hægt væri að valda skemmdum með orðum jafnt og verkum. Þetta er skýrt í orðum konungs frá 1294: „Ef maður særir mann, bindur eða ber, eður skemmir fullréttisorðum eða verkum“ (DI II bls. 286). Í lögum hét það fjölmæliskemma fullréttisorðum, en orðið fullrétti var haft um brot sem þurfti að bæta fyrir fullar bætur, eins og um hafi verið að ræða mannslíf. Þannig varðaði aðför að mannorði lög um mannhelgi á sama hátt og líkamlegt ofbeldi. Fáum árum síðar taldi konungur upp nokkur skemmileg orð, þar sem segir: „ef maður kallar annan drottinsvikara, fordæðu, morðingja, þjóf, hvinn, pútuson eða hórkonuson eða önnur jafnskemmileg orð“ (DI II bls. 383 og 392).

Þarna eru tekin dæmi um ærumeiðandi atriði, en skemmilegu orðin voru fleiri en þau sem kóngur taldi og þurfti því að meta hvert mál eftir samhengi. Önnur Jónsbókarákvæði sýna til dæmis að þann mann mátti kalla snáp, sem varð sannur að því að hafa vænst konu (Jónsb. hér er notuð útg. 1904, bls. 55 og 69). Þetta þýðir að bótaréttur myndaðist hjá konunni ef sannaðist að hann hefði logið því til að hann hefði sofið hjá henni. Það þýðir jafnframt að ekki mátti kalla mann snáp nema úrskurður lægi fyrir.

Að nefna glæpamann

Mál af þessu tagi snerust um rétt sérhvers manns til að verja æru sína, en aldrei um almennt siðgæði og þaðan af síður þjóðfélagshópa. Samt sem áður er það talið með megineinkennum á lögum í eldri tíð að ólík ákvæði giltu fyrir fólk af mismunandi stöð og stétt. Í Grágás átti til dæmis ekki hið sama við um búanda (bónda) og þræl og ef kona gaf þræli frelsi af því að hún ætlaði að giftast honum átti barn þeirra að heita hornungur og hafði ekki arfsrétt (út. 1852, bls. 224). Ef kona með skóggangsdóm á bakinu eignaðist barn með sínum manni hét það besingur, en vargdropi ef það var karlinn sem var sekur. Þannig voru notuð hugtök sem skýrðu og mótuðu réttarstöðu íbúa landsins.

Þegar konungsvald kom til hérlendis var þrælahald löngu aflagt, en siðurinn lifði hins vegar áfram, að nota orð/hugtök sem skilgreindu réttarstöðu manna. Samkvæmt refsirétti Jónsbókar, sem hafði lagagildi í næstum 560 ár, urðu dæmdir glæpamenn útlægir og misstu við það landvistarleyfi og öll réttindi. Þessir rétthæfislausu sakamenn tóku nafn af glæpnum sem þeir höfðu verið dæmdir fyrir: Griðníðingur, tryggrofi og drottinsvikari, morðvargur, brennuvargur og ránsmaður. Ódáðaverk gat af sér ódáðamenn og fordæðuskapur fordæðu; á þjóf hafði sannast þjófnaður, en hvinnska á hvinn. Öll áttu þessi orð það sameiginlegt að vera fjölmæli og fullréttisorð ef þau voru notuð í röngu samhengi, þótt rétt væri að nota þau yfir dæmda menn og þeir lifðu sjaldnast lengi.

Brigsl, rógur og kjaftasögur

Kjarni laganna um fjölmæli var að skapa löglegan farveg þar sem menn gætu varið æru sína fyrir kjaftasögum og reglan var að alvarlegar sakargiftir á hendur einstökum mönnum skyldi aðeins talað um opinberlega í tengslum við kærur og réttarhöld. Enginn skyldi kalla annan glæpamann nema eiga sjálfur aðild að málinu og þá varð hann að sækja það eftir réttum leiðum, sem einnig voru skýrðar í lögum. Að öðrum kosti var gert ráð fyrir að tilgangur þess að tala illa um fólk væri að koma illu til leiðar. Þetta er skýrt svona í Jónsbók: „mál hvert er maður mælir við annan svo að honum horfir til hneyksla, eða kennir manni hvinnsku eða fordæðuskap, og á hann eigi sjálfur sókn í því máli …“ (bls. 66).

Svipaðrar merkingar er til dæmis að rægja, brigsla og væna; að láta ærumeiðingar berast og liggja í loftinu. Að segja, eða gefa í skyn að tiltekinn aðili hafi gert eitthvað af sér; að svipta mann ærunni utan við réttarkerfið. Mörg orð hafa sambærilega merkingu: Orðrykt, byggðarymt, vont orð, orðrómur, baktal, söguburður, slúður, undirróður og einelti. Í þessu samhengi varðar útbreiðsla á kjaftasögunni um ósannaðar sakir meiru en hvort sagan sé sönn.

Ljótt orðfæri hefur lengst af þótt dæma sig sjálft og að jafnaði reiddi kerfið sig á að þeir sem væru vandir að virðingu sinni tækju ekki þátt í að breiða út óhróður um aðra. Á einum stað í norskum lögum var afbrotið fjölmæli greint þannig, að „heimskir menn og snápar ráða upp á saklausa menn“ (Ngl. 3, bls. 21). Fleiri dæmi eru úr gömlum heimildum um að orðið snápsskapur tengist fáfræði; „mikil heimska og snápsskapur“ segir til dæmis í Barlaams sögu ok Jósafats (útg. 1981, bls. 91).

Allt er þetta auðvitað miklu stærra og viðameira en hér er sagt frá og í stað Jónsbókarákvæðanna móta nú yngri hugmyndir kerfið sem lýst er í lögum með nýjum hugtökum. Sum hafa raunar staðist tímans tönn og enn önnur hafa sama hljóm þótt merkingin sé dálítið breytt. Markmiðin eru þó ávallt hin sömu, að stuðla að friði með því að verja réttindi íbúanna. Svo snúið sé aftur að upphafinu, þá hefur aldrei verið komið á þess konar kerfi hérlendis, að þörf hafi verið fyrir bannorðalista.