Oslóartréð er tendrað hvert ár og hvert ár koma nýir áhorfendur á Austurvöll til þess að sjá hið eilífa og sínýja undur hátíðar ljósanna í skammdeginu. Og svo er góður eldsmatur í trénu eins og búsáhaldabyltingin leiddi í ljós.
Oslóartréð er tendrað hvert ár og hvert ár koma nýir áhorfendur á Austurvöll til þess að sjá hið eilífa og sínýja undur hátíðar ljósanna í skammdeginu. Og svo er góður eldsmatur í trénu eins og búsáhaldabyltingin leiddi í ljós. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Miðbær Reykjavíkur var troðfullur af lögregluþjónum, gráum fyrir járnum, vegna orðasveims um að óknyttagengi ætluðu að láta sverfa til stáls vegna hnífaárásarinnar í Bankastræti Club í fyrri viku

26.11-2.12

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Miðbær Reykjavíkur var troðfullur af lögregluþjónum, gráum fyrir járnum, vegna orðasveims um að óknyttagengi ætluðu að láta sverfa til stáls vegna hnífaárásarinnar í Bankastræti Club í fyrri viku.

Þar var hins vegar flest með kyrrum kjörum, svo þegar loks kom kvörtun undan unglingapartíi á Seltjarnarnesi var var gerð rassía þar.

Mikil ólga var í undirheimum vegna árásarinnar og gekk á með ýmsum hótunum og árásum, en þar á meðal var eldsprengju kastað í glugga. Það hefði getað farið mun verr en raunin var.

Innan úr fangelsum fréttist hins vegar að þar hefðu fangar lagt mikið á sig til þess að geta verið í sambandi við netið og félagsmiðla þess. Um skeið var t.d. heitur reitur á Hrauninu.

Af kjaramálum var sögð sama fréttin og vanalega, að staðan væri viðkvæm en vel hefði miðað.

Samt fór nú svo að VR sleit viðræðunum, aðallega af því að Ragnar Þór Ingólfsson formaður móðgaðist þegar vextir voru hækkaðir og fjármálaráðherra sagði landið þurfa betra vinnumarkaðsmódel.

Jarðvísindamenn hafa tekið eftir því að þjóðvegurinn vestan við Siglufjörð hefur færst um 75 cm á þremur mánuðum.

Húsnæðisþörf kann að vera ofmetin um 2.000 íbúðir vegna skekkju í mannfjöldaáætlun Hagstofu.

Ljósin á Óslóartrénu á Austurvelli voru tendruð, enda hófst aðventan liðinn sunnudag.

Um helmingur sveitarfélaga er í þröngri fjárhagsstöðu. Óvarlegt er að gera fyrir auknum tekjum eða ódýru lánsfé, svo valið stendur á milli niðurskurðar eða nýrrar nálgunar á lögbundin verkefni þeirra.

Úr verkalýðshreyfingu heyrðist það sjónarmið að brýnt væri að ná kjarasamningum sem fyrst því fólk þyrfti á launahækkun að halda strax. Hins vegar yrði tæplega samið nema til 12-14 mánaða.

Breytt hernaðartækni og horfur í alþjóðamálum leiða til þess að efla þarf varnir Íslands, að sögn Njáls Trausta Friðbertssonar, formanns Íslandsdeildar NATO-þingsins.

Nokkur skjálftavirkni var í Mýrdalsjökli, svo þar fylgjast menn grannt með því hvort Katla láti á sér bæra. Lífsmörk eru greinilega í eldstöðinni.

Hluta Reykjanesbæjar var breytt í þorp í Alaska vegna kvikmyndatöku, en fáir sáu muninn þegar gervisnjórinn er undanskilinn.

Ríkisstjórnin ákvað að leggja til 2,5 milljarða króna útgjaldaaukningu til löggæslumála frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.

Aðrar útgjaldaaukningar, sem ríkisstjórnin leggur til, nema um 35 milljörðum. Um þriðjungur rennur til heilbrigðismála.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hitti Volodímír Selenskí Úkraínuforseta þar ytra.

Á daginn kom að Píratar hafa allt annan skilning á trúnaði í fastanefndum Alþingis en er viðtekin skoðun. Fram kom að skýrslu ríkisendurskoðanda um Íslandsbankasöluna hefði verið dreift til allra þingmanna Pírata, en skömmu síðar var henni lekið í fjölmiðla.

Almennt fögnuðu menn miklum rigningum í liðnum mánuði ekki mikið, en Landsvirkjun dró hins vegar fram kampavínið því þær eru einkar hagfelldar fyrir vatnsbúskapinn, sem ekki leit vel út með fyrr í ár.

Enn hafa engar reglugerðir um sorp litið dagsins ljós þó lög um hringrásarhagkerfið taki gildi um áramót.

Kjarvals-mynd seldist fyrir 6,2 milljónir króna á uppboði í Galleríi Fold.

Menningarráðherra hyggst veita styrki til staðbundinna fjölmiðla, alls 5 milljónir króna í heildina.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis sagði að nefndarmenn gætu ekki „deilt trúnaði“ með öðrum, líkt og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hélt fram og sagði regluna í sínum þingflokki.

Æ fleiri sækjast eftir að komast í ýmiss konar sjúkraaðgerðir erlendis, sem einkum er rakið til lengri biðlista hér á landi.

Mun minna er veitt af fjármunum úr styrkjasjóðum ýmiss konar, þar sem ávöxtun hefur verið léleg og styrkveitingar mega ekki ganga á höfuðstól.

Þjóðkirkjan hefur stundað sjálfspíslir og niðurskurð, þannig að vonast er til þess að rekstur hennar sé við það að komast í jafnvægi.

Mun færri leigusamningar eru gerðir þessa dagana en áður, fjórðungi færri en á sama tíma í fyrra.

Fullveldisdagurinn 1. desember var haldinn hátíðlegur, aðallega með því að hið opinbera lét alveg vera að minnast þess dags þegar Ísland öðlaðist sjálfstæði.

34 ný HIV-smit hafa greinst hér á landi í ár, ekki vegna þess að veiran breiðist örar út en áður, heldur ræðir hér mikið um hælisleitendur.

Mikil fjárfesting er í bígerð í Garðabæ samkvæmt fjármálaáætlun bæjarins. Þar munar mestu um nýbyggingar og endurbætur á skólum.

Samið var við Klíníkina um að hún gerði endómetríósu-aðgerðir fyrir hið opinbera, en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að nýta allt heilbrigðiskerfið.

Áfram malaði fréttakvörn í kjaramálunum, en nú var talað um að tónninn væri þyngri og harðar tekist á en áður. Seisei, já. Það hljómar allt sennilega.

Á sama tíma var reiknað út að jólaverslunin í ár myndi nema 74 þúsund krónum á hvert mannsbarn á Íslandi.

Völundur Þorsteinn Hermóðsson, búfræðikandídat og leiðsögumaður, lést 82 ára gamall.

Orkumálaráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson greindi frá því að uppbygging virkjana sé á teikniborðinu, að því er virðist í góðri sátt við umhverfisráðherrann Guðlaug Þór Þórðarson.

Þar munar í bráð mest um að vinna Orkustofnunar við virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár er á lokastigi.

Verktakar telja að hið opinbera fari fram úr sér þegar þess er krafist í útboðum að hreinorku-vinnuvélar séu notaðar við framkvæmdir. Þær séu tvöfalt til þrefalt dýrari.

Reykjavíkurborg hyggst bregðast við rekstrarvanda sínum með ýmsum hætti, meðal annars með því að koma kláf upp á Esjuna fyrir lata ferðamenn.

Íslendingar virðast hafa tileinkað sér ýmsa nýja verslunarhætti af þrótti en Seðlabankastjóra til armæðu. Talið er að bögglasendingar með alls kyns varningi, sem seldur var á helstu netsöludögum í aðdraganda jóla, hafi verið tvöfalt fleiri en í fyrra.

Mikið tilstand er í Hörpu en í næstu viku er von á aðvífandi erlendu stórmenni, alls um 1.200 manns, vegna veitingar Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna þar.

Nýtt almennings- og skólabókasafn verður sett upp í Klébergsskóla á Kjalarnesi fyrst bókabíllinn heldur senn í sína hinstu för.

PCC féll frá hugmyndum um að kaupa kísilverksmiðjuna í Helguvík.

Björg Einarsdóttir rithöfundur lést, 97 ára.