Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Til klæðagerðar hentar hann.
Í húsi megum finna þann.
Eins og selur synda kann.
Á sál og geði hressir mann.
Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:
Af bjórnum kemur bifurskinn.
Bjór sem gaflhlað og ég finn.
Bjór sem selur synda kann,
sem og bjórinn hressir mann.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Bjór í kápu brúka má.
Bjór í húsi krókur þá.
Í vatni bjór ég synda sá.
Sýp ég glaður bjórnum á.
Síðan er limra:
Í bjórinn hún blandaði skudda,
því blaut úr hófi var Gudda,
og koníakk
á knæpu drakk,
og giftist Grími í sudda.
Þá er ný gáta eftir Guðmund:
Kallar til mín krummi á skjá
„komdu þér nú lappir á“,
úr bólinu ég brölti því,
og blasir hér við gáta ný:
Mannfýla hin mesta er.
Meinvættur, sem varast ber.
Galdrabrögðum beitir sá.
Blótsyrði nú innt er frá.
Þessar limrur fylgdu lausn Helga:
Leyfilegt
Ástríka Sigga á Sandi,
sem er í hjónabandi
öðrum víst ann
þótt elski sinn mann,
hinn kallast heilagur andi.
Margt verður til í sundlaugarferðum. – Viskubrunnar
Oft verð ég alveg bit
er í pottinum sit
hjá afburðasnjöllum
almúgaköllum
sem á-öllu hafa vit.
Benedikt Valdemarsson frá Þröm í Eyjafirði kvað:
Syngur tíðin sorgarlag
sæld og blíðu dylur.
Á mér níðist nótt og dag
norðanhríðarbylur.
Kyrrð næturinnar varð Benedikt efni í þessa vísu:
Lokar ótta björtum brám,
blundi drótt er falin.
Læðist nóttin léttum tám
ljúft og rótt um dalinn.
Egill Jónasson á Húsvík orti:
Gengi manna mjög er valt,
mörg það sanna örin.
Þessi brann og þessi svalt,
þarna eru tannaförin.