Hringurinn Jólakaffið féll niður tvö ár í röð vegna samkomutakmarkana. Nú verður það haldið á morgun, sunnudag. Myndin er úr safni.
Hringurinn Jólakaffið féll niður tvö ár í röð vegna samkomutakmarkana. Nú verður það haldið á morgun, sunnudag. Myndin er úr safni. — Morgunblaðið/Ófeigur
Hringurinn heldur jólakaffi á morgun, sunnudag, á 1. hæð Hörpu og hefst það klukkan 13.30. Jólakaffið er einn af stærstu fjáröflunarliðum Hringsins sem gerir kleift að styðja vel við Barnaspítala Hringsins, vökudeildina, BUGL og aðrar deildir…

Hringurinn heldur jólakaffi á morgun, sunnudag, á 1. hæð Hörpu og hefst það klukkan 13.30. Jólakaffið er einn af stærstu fjáröflunarliðum Hringsins sem gerir kleift að styðja vel við Barnaspítala Hringsins, vökudeildina, BUGL og aðrar deildir Landspítalans sem sinna börnum ásamt heimilum fyrir fötluð börn.

„Jólakaffið féll niður 2020 og 2021 vegna samkomutakmarkana. Við erum mjög spenntar að geta haldið þetta í ár,“ segir Guðrún Þóra Arnardóttir varaformaður Hringsins. Auk heimagerðra kræsinga og skemmtiatriða verður efnt til happdrættis. Fjölbreyttir vinningar eru í boði á borð við flugmiða, matarkörfur, spil, leikföng og gjafakort. „Það er svo gaman að barnalæknarnir á barnaspítalanum taka virkan þátt í jólakaffinu með okkur. Þeir koma og ganga á milli og selja happdrættismiðana og þvo svo upp með okkur í lokin.“

Dagskráin hefst með ræðu formanns Hringsins klukkan 13.30. Bergrún Íris rithöfundur mætir kl. 13.40 og sala happdrættismiða hefst kl. 13.55. Þá kemur Sigga Eyrún tónlistarkona fram klukkan 14.30 og jólasveinar mæta á svæðið kl. 15.00. Veislustjóri er Anna Steinsen.

Milljarða gjafir

Samanlagt og framreiknað virði gjafa Hringskvenna til Landspítalans á síðastliðnum fimmtán árum var tekið saman árið 2017 og reyndist það vera einn milljarður króna. Árið eftir, 2018, voru veittir styrkir fyrir 97 milljónir og árið 2019 var upphæðin 61 milljón. Heimsfaraldursárin voru erfið fyrir Hringinn og þurfti að finna nýjar leiðir til að kynna starfið og afla fjár. Þrátt fyrir allt voru samþykktir styrkir 2020 40 milljónir og 2021 63 milljónir.

Jólakaffið kostar að þessu sinni 3.000 krónur fyrir 13 ára og eldri, 1.300 krónur fyrir 6-12 ára en frítt er fyrir fimm ára og yngri. Hver happdrættismiði kostar 1.000 krónur. gudni@mbl.is