Jaðarsvöllur Sigurður Andri mundar „driverinn“ á teig.
Jaðarsvöllur Sigurður Andri mundar „driverinn“ á teig. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
Kylfingar hafa verið duglegir að bregða sér á Jaðarsvöll á Akureyri í einstakri veðurblíðu undanfarnar vikur. Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, segir að völlurinn hafi verið vel sóttur eftir að hann var opnaður að nýju eftir þriggja til fjögurra vikna hlé í haust

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Kylfingar hafa verið duglegir að bregða sér á Jaðarsvöll á Akureyri í einstakri veðurblíðu undanfarnar vikur. Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, segir að völlurinn hafi verið vel sóttur eftir að hann var opnaður að nýju eftir þriggja til fjögurra vikna hlé í haust.

„Það er alltaf gaman þegar hægt er að hafa opið á þessum tíma við góðar aðstæður eins og verið hefur undanfarið. Við finnum að kylfingar norðan heiða eru ánægðir að geta á spilað á þessum árstíma,“ segir hann en bætir við að árið 2016 hafi tíðin einnig verið með ágætum og golfmót verið haldið á Jaðarsvelli 18. desember „og það væri nú aldeilis gaman ef við gætum endurtekið það í ár“.

Uppselt á Arctic Open

Góð tíð hefur einnig nýst starfsfólki vallarins sem hefur haft tækifæri á að sinna útivinnu og viðhaldi við sérstaklega góðar aðstæður í allt haust.

Steindór segir liðið sumar hafa verið gott á Jaðri. „Það var mikið spilað, góð fjölgun í klúbbnum og unglingastarfið hjá okkur blómstrar,“ segir hann. Þá hafi mótahaldið verið með eindæmum gott og öllu stærstu mótin sem klúbburinn hélt verið vel sótt. Steindór bætir við að nú þegar sé orðið fullt á hið vinsæla miðnætursólarmót, Arctic Open, á næsta ári.

200 hringir að meðaltali

Alls voru spilaðir 35.326 hringir á Jarðarsvelli á liðnu sumri, sem er þriðja mesta aðsókn frá því talning hófst. Fleiri hringir voru spilaðir á vellinum árin 2020 og 2021.

Steindór segir að margir hafi brugðið sér í golfferðir til útlanda í ár enda búið að aflétta öllum hömlum sem fylgdu kórónuveirunni. Þá var Jaðarsvöllur opinn aðeins færri daga en undanfarin ár, ekki opnaður fyrr en um miðjan maí og heldur kaldara var í veðri á liðnu sumri en í fyrrasumar.

Jaðarsvöllur á akureyri

Grínin eru að þiðna upp

Sigurður Andri Gunnarsson lék tvo hringi í gær, seinni níu, en sá hluti Jaðarsvallar á Akureyri er opinn nú. „Það gekk bara mjög vel hjá mér,“ segir hann og að völlurinn sé góður, grínin að þiðna vel upp. „Það er alveg magnað að geta spilað golf á þessum árstíma, ég nýti mér það óspart.“

Sigurður Andri er frá Hornafirði en hefur búið á Akureyri frá árinu 2013. Hann er sjómaður, er á Jökli sem landar á Raufarhöfn og var nýkominn heim eftir síðustu sjóferð. „Það er algjör veisla að geta nýtt fríið til útiveru á golfvellinum og í góðum hita flesta daga.“