Harka Robert Turner hjá Stjörnunni og Danero Thomas, leikmaður Breiðabliks, gefa lítið eftir í baráttunni um frákast í gærkvöldi.
Harka Robert Turner hjá Stjörnunni og Danero Thomas, leikmaður Breiðabliks, gefa lítið eftir í baráttunni um frákast í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keflavík vann afar sannfærandi 100:75-útisigur á Íslandsmeisturum Vals er liðin mættust í toppslag í 8. umferð Subway-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Keflavík náði forystunni snemma leiks og voru gestirnir mun sterkari allan leikinn

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Keflavík vann afar sannfærandi 100:75-útisigur á Íslandsmeisturum Vals er liðin mættust í toppslag í 8. umferð Subway-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Keflavík náði forystunni snemma leiks og voru gestirnir mun sterkari allan leikinn. Virkuðu Valsmenn andlausir, á meðan margir í liði Keflavíkur spiluðu vel.

Sveiflur hjá Keflavík

Síðustu tveir leikir Keflvíkinga hafa verið einkennilegir, því liðið tapaði fyrir botnliði Þórs frá Þorlákshöfn í síðustu umferð, 102:116. Þeir svöruðu því með besta mögulega hætti; stórsigri á heimavelli Íslandsmeistaranna.

Tapið var það fyrsta hjá Val frá því í 1. umferð, eftir sex sigra í röð. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, var ekki á hliðarlínunni í gær, þar sem hann er kominn í leyfi vegna veikinda sonar síns. Ekki er víst hve lengi Finnur verður frá, en ljóst er að Valsmenn söknuðu hans.

Það er skemmtileg flétta á meðal toppliðanna þriggja, því þau hafa unnið hvert annað hingað til. Keflavík vann Val, Valur vann Breiðablik og Breiðablik vann Keflavík. Það stefnir í ansi spennandi baráttu um deildarmeistaratitilinn, sérstaklega þar sem Njarðvík og Haukar eru aðeins tveimur stigum á eftir liðunum þremur á toppnum. Það eru því fleiri lið í toppbaráttunni en oft áður.

Dominykas Milka skoraði 22 stig og tók 10 fráköst fyrir Keflavík. Kári Jónsson skoraði 18 stig fyrir Valsmenn.

Gott gengi Blika heldur áfram

Breiðablik hefur komið skemmtilega á óvart í deildinni í vetur og er jafnt Keflavík og Val á toppnum, eftir 100:75-heimasigur á Stjörnunni. Blikar voru með yfirhöndina nánast allan tímann. Eftir jafnan fyrsta leikhluta var Breiðablik með 48:43-forskot í hálfleik og jók forskotið jafnt og þétt í seinni hálfleik, með því að vinna alla fjóra leikhlutana.

Breiðablik er búið að skora rúmlega 50 stigum fleira en næstu lið í vetur, en að sama skapi fengið á sig fleiri stig en öll lið deildarinnar sem eru ekki í fallsæti. Það er því alltaf fjör í leikjum Kópavogsliðsins og skoraði Breiðablik enn og aftur fleiri en 100 stig.

Úrslitin eru bakslag fyrir Stjörnuna, sem hafði unnið tvo leiki í röð fyrir leikinn í gær. Stjörnumenn þurftu meira framlag frá fleiri leikmönnum, en Robert Turner var yfirburðamaður í liði Garðbæinga. Everage Richardson skoraði 27 stig og tók níu fráköst fyrir Breiðablik. Robert Turner skoraði 40 fyrir Stjörnuna.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson