— Morgunblaðið/Eggert
Hvað geturðu sagt mér um Jól & næs í Salnum? Það losnuðu nokkrar dagsetningar fyrir jólin í Salnum og ég tók þær frá strax í sumar og hugsaði með mér að við Hildur Vala gætum kannski verið með huggulega jólatónleika; látlausa og afslappaða til…

Hvað geturðu sagt mér um Jól & næs í Salnum?

Það losnuðu nokkrar dagsetningar fyrir jólin í Salnum og ég tók þær frá strax í sumar og hugsaði með mér að við Hildur Vala gætum kannski verið með huggulega jólatónleika; látlausa og afslappaða til mótvægis við alla þessa risavöxnu jólatónleika í stóru tónleikahúsunum. Ég spilaði lengi með KK & Ellen fyrir jólin og þar var alltaf afar kósí stemning.

Hvaða fólk verður með þér?

Okkur datt strax í hug Jónas Sig og Ragga Gísla og fannst þau eitthvað líkleg til að kveikja á hugmyndinni. Þau tóku líka svona assgoti vel í þetta og svo fengum við bassaleikara Stuðmanna, Ingibjörgu Turchi, í hópinn til viðbótar.

Verðið þið með hefðbundin jólalög?

Nei, ég held að það verði ekkert hefðbundið við dagskrána ef ég á að vera alveg einlægur. Við eigum örugglega eftir að sjá fólk skipta um hljóðfæri og bregða sér jafnvel í ólíklegt hlutverk. Lagavalið er líka mjög fjölbreytt og útsetningar alla vega. Þessi hópur mun hrista saman einhvern jólakokteil og við munum leita fanga víða. Við höfum ekki nennt að standa í kynningarstarfi fyrir utan samfélagsmiðlana og því kemur það skemmtilega á óvart að hafa selt upp ferna tónleika. Enn er þó hægt að fá miða í Salinn 7. desember og á Selfossi 15. desember.

Eruð þið búin að æfa mikið?

Nei, nefnilega ekki! Það hefur verið mikið um flensur í borginni, sem setti æfingaplanið í uppnám, en stíf fundahöld munu skila sér. Við munum samt æfa mjög passlega mikið.

Ertu kominn í jólaskap?

Ég er kominn með snert af því en það verður komið strax á fyrstu tónleikunum!

Hinn 7., 8. og 9. desember verður Jón Ólafsson ásamt Jónasi Sig, Röggu Gísla, Hildi Völu og Ingibjörgu Turchi með jólatónleikana Jól og næs í Salnum í Kópavogi. Hinn 15. desember verður hópurinn svo á Sviðinu Selfossi. Miðar fást á tix.is.