— Morgunblaðið/Eggert
Það hefur komið flatt upp á marga vegfarendur í miðbænum síðustu daga er fallegir tónar frá Hammond-orgeli hafa borist frá Tryggvagötunni um hádegisbil. Í ljós kemur að tónarnir koma frá i8 galleríi

Það hefur komið flatt upp á marga vegfarendur í miðbænum síðustu daga er fallegir tónar frá Hammond-orgeli hafa borist frá Tryggvagötunni um hádegisbil. Í ljós kemur að tónarnir koma frá i8 galleríi. „Þetta er okkar desember-sýning,“ segir Börkur Arnarson, galleristi í i8. Sýningin nefnist Org vél og stendur fram að jólum. „Davíð Þór Jónsson kemur við hérna í kringum hádegi á virkum dögum og spilar. Hann er bara með improv, sitt eigið efni, í kannski klukkutíma í hvert sinn. Bara eftir því hvernig liggur á honum,“ segir Börkur.

Veggir gallerísins eru auðir en sígildu Hammond-orgeli hefur verið komið fyrir í miðju þess og við hliðina stendur gamall Lesley-hátalari. Tónlist Davíðs er tekin upp. „Meðan hann spilar er gallerínu lokað og fólk stendur bara fyrir utan og hlustar á, þeir sem eru svo heppnir að vera óvart að ráfa fram hjá. Þetta er virkilega gaman,“ segir Börkur.

Davíð ræddi listsköpun sína í viðtali við Morgunblaðið fyrir skemmstu og þar kom fram að hann heillast af spuna. „Þegar ég sest við hljóðfærið reyni ég að fara inn í þögnina og þegar best lætur rata fingurnir á hljóð eða nótu og svo tekur önnur nóta við. Stundum byrja ég á slagi eða áferð, eða það leitar á mig einhver taktur og það getur byrjað með látum og orðið að stórri hljóðmynd, í einhverjum grallaragangi.

En ég reyni sem sagt að forðast það sem ég gerði áður, hugmyndina um að til að mega spila fyrir fólk verði það að vera eitthvað fyrirframákveðið – þá gæti maður misst af einhverju skemmtilegu flugi!“
hdm@mbl.is