Ferjan Sævar siglir nokkrar ferðir á dag milli Hríseyjar og lands.
Ferjan Sævar siglir nokkrar ferðir á dag milli Hríseyjar og lands. — Ljósmynd/Vegagerðin
Þrjú tilboð bárust í rekstur Hríseyjarferjunnar fyrir árin 2023-2025, en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni á fimmtudag. Lægsta tilboðið átti Eysteinn Þórir Yngvason, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, 296,6 milljónir króna

Þrjú tilboð bárust í rekstur Hríseyjarferjunnar fyrir árin 2023-2025, en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni á fimmtudag.

Lægsta tilboðið átti Eysteinn Þórir Yngvason, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, 296,6 milljónir króna. Var það rúmlega 50 milljónum lægra en áætlaður verktakakostnaður, sem var 347,8 milljónir. Ferry ehf. Árskógssandi bauðst til að taka verkefnið að sér fyrir 489 milljónir og Andey ehf. Hrísey fyrir 534,3 milljónir.

Um er að ræða sérleyfi fyrir Vegagerðina á ferjuleiðinni Hrísey-Árskógssandur-Hrísey, þ.e. að annast fólks- og vöruflutninga til og frá Hrísey. Bjóðandi skal nota ferjuna ms. Sævar sem er í eigu Vegagerðarinnar. Samningstími er þrjú ár með möguleika á framlengingu allt að tvisvar sinnum, eitt ár í senn.

Sérleyfið var síðast boðið út árið 2017. Þá barst eitt tilboð, frá Andey ehf., að upphæð 442 milljónir fyrir fjögurra ára tímabil. Gengið var til samninga við fyrirtækið.

Vegagerðin tilkynnti nýlega að gefnu tilefni að ferðum Sævars verði ekki fækkað í nýju útboði. Engin slík breyting sé fyrirhuguð en hins vegar vilji Vegagerðin auka svigrúm til að ekki þurfi að sigla að óþörfu milli lands og eyjar með tóma ferju.

Sævar er 150 brúttótonna stálbátur. Hann getur tekið 100 farþega.
sisi@mbl.is