Elín Magnúsdóttir fæddist á Hverfisgötu 67 í Reykjavík 23. maí 1931. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 17. nóvember 2022.
Foreldrar hennar voru Kristinn Magnús Halldórsson bifreiðarstjóri, f. í Reykjavík 26. október 1905, d. í Reykjavík 16. september 1967, og Jóna Kristín Sigurðardóttir, f. í Götuhúsum á Stokkseyri 23. september 1908, d. í Reykjavík 19. maí 1993. Elín var næstyngst fjögurra systra. Elst Valgerður, f. 16. ágúst 1928, d. 21. maí 2005. Sigríður, f. 3. október 1929, d. 26. október 2018. Yngst er Gíslína, f. 4. febrúar 1941.
Elín giftist 16. september 1954 Sigurði Gunnarssyni bifreiðarstjóra, f. 16. september 1929, d. 22. október 2012. Foreldrar Sigurðar voru hjónin Helga Oddsdóttir og Gunnar Ólafsson.
Þau eignuðust eina dóttur, Kristínu, f. 14. nóvember 1954. Kristín er gift Rúnari Geirmundssyni, f. 19. nóvember 1954. Synir þeirra eru Sigurður Rúnarsson, f. 19. mars 1974 og Elís Rúnarsson, f. 15. nóvember 1981.
Börn Sigurðar og Guðnýjar Örnu Sölvadóttur Beck eru Stefán Elís, f. 20. júlí 2000 og Arna Rut, 19. september 2005
Elís er kvæntur Katrín Erlu G. Gunnarsdóttur og eru börn þeirra þrjú. Móey Marta, f. 29. júlí 2012, Flóki Freyr, f. 27. ágúst 2015 og Bára Sóley, f. 19. mars 2019.
Elín ólst upp í Reykjavík og bjó þar alla sína ævi. Hún hóf snemma að starfa við saumaskap og vann við það fag mestalla sína starfsævi.
Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hennar.
Tengdamóðir mín Elín Magnúsdóttir er fallin frá á nítugasta og öðru aldursári.
Samfylgdar okkar Elínar síðastliðin fimmtíu ár vil ég minnast og þakka með hlýju og þakklæti. Árið 1971 lágu leiðir okkar saman er ég féll fyrir Kristínu dóttur hennar og Sigurðar Gunnarssonar. Elín og Sigurður tóku mér ákaflega vel og samþykktu mig sem tengdason 1974 sama ár og frumburður okkar Sigurður fæddist. Vinátta okkar hefur verið góð allar götur síðan og kært okkar á milli.
Allt frá upphafi sambúðar okkar Kristínar stóð aldrei á því hjá Elínu og Sigurði að aðstoða okkur með allt sem þau gátu. Amma Elín eins og hún var alltaf kölluð sat við saumavél allan daginn við fatasaum hjá fremstu fatagerðum landsins. Í frítíma sínum var amma Elín alltaf að sauma eitthvað á strákana sína og okkur öll, svo sem heimasaumaðar svuntur í öllum stærðum og gerðum til að hafa við matargerð og uppvaskið. Alltaf var amma Elín tilbúin að passa meðan við Kristín vorum að vinna eða byggja okkur hús.
Elín og Sigurður hófu sambúð sína 1954 á Hverfisgötu 68 beint á móti æskuheimili hennar, sama ár Kristín fæddist. Árið 1963 fluttu þau í nýja íbúð í Álftamýri 50 þar sem þau bjuggu til ársins 2008. Þá keyptu amma Elín og afi Siggi íbúð á Lindargötu 57 í blokk með félagslegri aðstöðu fyrir eldri borgara. Draumaíbúð á áttundu hæð með útsýni til allra átta. Þeim leið vel þar og sögðust bara vera komin heim aftur á Hverfisgötuna enda sáu þau æskuheimili Elínar út um gluggann hjá sér.
Eftir fráfall Sigurðar árið 2012 höfðum við fjölskyldan áhyggjur af því hvernig lífið yrði fyrir ömmu Elínu eina í kotinu en hún undi hag sínum vel. Var dugleg að fara út að ganga og fjölskyldan var dugleg að heimsækja hana. Fyrir sex árum flutti yngsta systir hennar, Gíslína, í íbúð í sama stigagangi og amma Elín. Það voru gæfuspor fyrir þær báðar og ekki síst fyrir ömmu Elínu. Takk Gíslína fyrir félagsskapinn og allt sem þú varst ömmu.
Amma Elín var einstaklega góð og umhyggjusöm amma og langamma. Hún elskaði strákana sína af öllu hjarta og ekki síst langömmubörnin. Börn Sigurðar Stefán Elís og Arna Rut og börn Elísar þau Móey Marta, Flóki Freyr og Bára Sóley áttu sér öll sérstakan stað í hjarta hennar. Ekkert fannst henni skemmtilegra en að fá þessi krútt í heimsókn til sín helst um hverja helgi og gefa þeim eitthvað gott að borða, vöfflur eða sætt kex og nammi.
Sigurður og Elís og ekki síst börnin þeirra voru ömmu Elínu allt. Hún elskaði þau og dáði og var alltaf kát og glöð þegar þau komu í heimsókn. Ef töf var á því að hún fengi heimsókn frá þeim þurftum við Kristín allaf að sýna henni myndir af þeim í símanum okkar, hringja til þeirra í myndsíma eða segja henni sögur af þeim.
Ævi ömmu Elínar lauk svo 17. nóvember síðastliðinn. Hún fékk friðsælt andlát með dóttur sína og strákana okkar sér við hlið södd lífdaga. Elín Magnúsdóttir, hafðu þökk fyrir allt og allt sem þú varst okkur.
Rúnar Geirmundsson.
Systurnar fjórar ólust upp hjá foreldrum sínum í örlítilli tveggja herbergja þakíbúð á Hverfisgötu 67, sem öll var undir súð. Tvær systranna sváfu í litlu herbergi ásamt afa og ömmu en tvær elstu á dívönum í stofunni. Gangur milli herbergjanna þjónaði sem eldhús, og matur var borinn á örlítið borð þar sem tveir gátu hæglega setið, en þrír tæpast. Lengi frameftir þurfti að klöngrast niður brattan stiga á útikamar í bakgarðinum. Þegar ég kom til sögu var sú bylting orðin að örlitlu salerni hafði verið komið fyrir í skáp aftan við eldhúsborðið. Það var svo lítið að tólf ára drengur gat þar varla staðið uppréttur.
Afi, Kristinn Magnús Halldórsson, varð snemma óvinnufær vegna alvarlegs fótarmeins. Amma, Kristín Sigurðardóttir frá Götuhúsum á Stokkseyri, framfleytti heimilinu sem vinnukona á heimilum broddborgaranna og hafði misjafnar sögur að segja. Í æsku systranna kom poki fyrir jólin með varningi frá borginni og bréfi frá borgarstjóranum. Það var fátækrahjálpin.
Þetta örlitla heimili varð miðdepill sístækkandi fjölskyldu, þar sem fjölskyldan kom á sunnudögum í rjómapönnukökur hjá ömmu og sögur og glens hjá afa. Hann var fæddur sagnamaður, og systurnar erfðu frásagnargáfuna. Það var stórkostlegt að hlusta á þær a segja frá hinu stórmerkilega samfélagi sem varð til í Skuggahverfinu. Allar fjórar voru eldskarpar, minnugar og listnæmar. Engin þeirra komst til mennta. Þetta var saga fátæks fólks á þeim tíma.
Elín varð annáluð saumakona, lofuð fyrir handbragð sitt og stundum benti hún mér á löggur þeysa fram hjá á mótorfákum sínum og sagði gáskafull: „Sérðu leðurgallana – ég saumaði þá!“ Hjá ýmsum fyrirtækjum sem framleiddu fatnað voru henni fengin vandasömustu verkefnin, bæði leðurgallar lögreglunnar og einkennisbúningar flugmanna og lögregluþjóna, sem þá voru virðulegustu og flottustu flíkur á Íslandi.
Skuggahverfið var hennar heimur. Þegar hún hleypti heimdraganum og fór að búa með eiginmanni sínum, Sigurði Gunnarssyni, bílstjóra hjá H.Ben, fór hún ekki lengra en yfir götuna, beint á móti íbúð foreldra sinna. Í næsta hús flutti systir hennar, Sigríður, með manni sínum, Andrési Adólfssyni. Allan barnaskólann kom ég nánast dag hvern til afa og ömmu, fór á Borgarbókasafnið og tók svo rúntinn yfir til Siggu frænku og svo til Ellu. Þetta voru góð ár á vesturmörkum Skuggahverfisins.
Ellu frænku á ég skuld að gjalda frá menntaskólaárum mínum. Nokkurra ára uppstytta varð þá milli mín og foreldra minna þegar ég fór að efast um lífsskoðanir þeirra, og þann heim sem Morgunblaðið, biblía heimilisins, færði þar inn dag hvern. Ég bjó þá um tveggja ára skeið í lítilli kytru á efstu hæð í Eskihlíð. Þegar svartast gerði í álinn leit ég jafnan við hjá Ellu frænku, sem gaf mér að borða, bjó stundum um mig í stofunni og sendi mig með nesti út í nýjan dag.
Skuggahverfið var Ellu frænku svo kært að þangað flutti hún aftur í íbúðir aldraðra við Lindargötu, bjó þar í sama húsi og Gíslína systir hennar, og naut alla tíð sérlega góðrar umhyggju Stínu dóttur sinnar og manns hennar, Rúnars útfararstjóra. Þegar hún dó bjó hún því aðeins stuttan spöl frá húsinu þar sem hún fæddist og ólst upp. –Einstaklega væn kona er nú horfin á vit áa okkar og við Árný sendum afkomendum hennar innilegustu samúðarkveðjur.
Meira á: www.mbl.is/andlat
Össur Skarphéðinsson.