Þórdís Erlingsdóttir fæddist 6. október 1962. Hún lést 18. nóvember 2022.

Útförin fór fram 1. desember 2022.

Kær vinkona okkar Dísa er farin, ég mun ekki gleyma símtalinu, tilfinningunni og sársaukanum sem valt yfir okkur eins og stormur föstudaginn 18. nóvember sl.

Hversu mikið er hægt að leggja á manneskjur, fjölskyldu og vini. Dísu kynntist ég sem ungur drengur í Eyjum og alltaf og ávallt var falleg vinátta. Í þá daga þegar ungur ég var hafði ég ekki hugmynd um að með árunum myndi myndast falleg, kærleiksrík og enn sterkari vinátta.

Það hefur verið svo einkennilegt hvernig ég og við Ragga mín höfum tengst Dísu og fjölskyldu í gleði og einnig í sorg, sem ég á svo erfitt með að meðtaka og trúa í gegnum lífsins göngu okkar. Enn í dag sé ég ekki endilega þennan tilgang eins og oft er talað um þegar mikið gengur á, og við fáum að finna þennan mikla sársauka.

Dísa var manneskja sem var ekki endilega opin, en hún var kærleiksrík við þá sem komumst að henni og þá átti maður einnig mikla tryggð og vináttu. Við minnumst Dísu okkar með gleði og þakklæti og kærri vináttu.

Símtölin sem voru nærri daglega ylja nú, spjallsins okkar minnumst við og einnig þessa ómælda mælikvarða á tryggðina. Sorgin bjó í svo mörg ár í hjarta og huga Dísu og erum við þakklát fyrir það traust sem hún gaf okkur þegar hún ræddi um strákanna sína sem fóru alltof snemma.

Hvernig má það vera að það sem er okkur kærast og manni dýrmætast er tekið frá manni á svo stuttum tíma?

Hvernig má það vera að lífsins ganga verði svo erfið og þung að sorgin standi hjá manni hvern dag og hverja nótt?

Dísa, Jonni og Ívar, þeirra yngsti sonur, hafa misst mikið og í dag þeir feðgar og fjölskyldur þegar þeir kveðja eiginkonu og móður, þeir hafa misst allt það sem er okkur mesta og stærsta ríkidæmið að okkar mati, já börn og bræður, já synirnir þeirra þrír, þeir Agnar, Alexander og kæri Hersir.

Við óskum þess að drengirnir þrír hafi komið hlaupandi í faðm móður sinnar, þar sem hún þráði alla daga að njóta nærveru þeirra og geta spjallað við þá.

Kæru Jonni, Ívar og fjölskylda Dísu, megi kærleikur og góðar minningar ylja ykkur um ókomna tíð.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ykkar vinir,

Friðþór Vestmann

Ingason, Ragnheiður Jónsdóttir.

Elsku Dísan mín. Það er svo erfitt að trúa því að þú sért farin. Sakna þín óendanlega.

Erfitt að trúa því að við getum ekki lengur bjallað hvor í aðra til að tala um allt og ekkert.

Endalausar minningar koma upp þegar ég hugsa til þín.

Dísa, þú varst sannarlega vinur vina þinna og vildir allt fyrir alla gera.

Mig langar að þakka þér fyrir þann tíma sem við áttum saman.

Þú kenndir mér mikið um lífið, hvort sem var sorg eða gleði.

Elsku Dísa, allir þeir erfiðleikar og missir sem þú upplifðir voru erfiðir og erfiðari en ég gæti nokkuð tímann ímyndað mér, þú varst sterkasta kona sem ég þekki og ég veit að núna situr þú með drengjunum þínum og færð loks að faðma þá alla.

Sakna þín alltaf elsku vinkona. Hvíldu í friði.

Til þín ég hugsa,

staldra við.

Sendi ljós og kveðju hlýja.

Bjartar minningarnar lifa

ævina á enda

(Hulda Ólafsdóttir)

Anna María

Vilhjálmsdóttir.