Guðný Kristín Guðnadóttir (Níní), Suðureyri, Súgandafirði fæddist 22. júlí 1930 í Vatnadal í Súgandafirði. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 26. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Kristín Jósefsdóttir, f. 20.9. 1898, d. 23.3. 1977, og Guðni Albert Guðnason, f. 17.10. 1895, d. 3.4. 1930. Bræður Níníar voru: Guðni Egill, f. 28.8. 1923, d. 17.12. 2012, Samúel Kristinn, f. 13.7. 1924, d. 2.8. 2011, og Ingólfur Albert, f. 27.2. 1926, d. 14.3. 2007.

Hinn 23. ágúst 1952 giftist Níní Einari Guðnasyni frá Botni í Súgandafirði, f. 6.11. 1926, d. 2.6. 2014. Börn þeirra eru: 1) Kristín Eygló, f. 21.7. 1952, gift Árna Baldvini Sigurðssyni sem lést 2006. Börn: a) Einar, f. 27.2. 1972, sambýliskona Tenley Banik. b) Arnar, f. 29.8. 1980, sambýliskona Rebecka Tholén, dætur þeirra eru Ilse Maria, f. 25.1. 2011, og Ester Maria, f. 21.2. 2015, og c) Þórunn Gyða, f. 25.2. 1983, sambýlismaður Kristofer Sidlöv, synir þeirra eru Noi Elliot og Atle Adrian, f. 25.7. 2012, og Eli Örn f. 21.11. 2014. 2) Guðni Albert, f. 31.8. 1954, kvæntur Sigrúnu Margréti Sigurgeirsdóttur. Dætur: a) Guðný Erla, f. 10.8. 1976, gift Róbert Hafsteinssyni, börn þeirra eru: Elva Rún, f. 7.5. 2000, Guðni Rafn, f. 7.7. 2003, og Erla Rán, f. 8.8. 2009. b) Sólveig Kristín, f. 2.7. 1979, gift Vigfúsi Ómarssyni, dætur þeirra eru Hulda Vigdís, f. 4.2. 2011, og Sigrún María, f. 12.3. 2015, og c) Auður Birna, f. 3.5. 1983, gift Ársæli Níelssyni, þau skildu. Synir þeirra eru Alexander Hrafn, f. 22.6. 2006, og Tristan Ernir, f. 21.7. 2008. 3) Ævar, f. 20.4. 1957, kvæntur Thitikan Janthawong. Dætur: a) Mona Marina, f. 1.10. 2006, og b) Manda Malinda, f. 11.2. 2009. Fyrir átti Ævar c) Elvar Atla, f. 17.4. 1980, kvæntur Rut Guðnadóttur, börn þeirra eru Frosti, f. 27.5. 2010, og Svala, f. 28.2. 2017 og d) Emmu, f. 15.4. 1989, sambýlismaður Elmar Leví Sigmarsson, dóttir hennar er Ársól Eva, f. 14.10. 2010. 4) Elvar, f. 10.11. 1959, kvæntur Jóhönnu Stefánsdóttur. Börn: a) Arnþór Björn, f. 29.12. 1979, sambýliskona Maureen Andersson, b) Árni, f. 27.6. 1983, kvæntur Lauren Hoard, dætur þeirra eru Emma Rose, f. 30.3. 2017, Morgan Ember, f. 5.9. 2019, og Evelyn Snow, f. 13.5. 2021, c) Hildur Sólveig, f. 14.6. 1985, sonur hennar er Elvar Þór, f. 27.8. 2009, og d) Einar Karl, f. 7.11. 1990, kvæntur Nyssu Cornelius-Einarsson. 5) Hafrún Huld, f. 29.8. 1967, gift Páli Sigurðssyni. Börn: a) Anna Karen, f. 21.7. 1992, sambýlismaður Bessi Karlsson, b) Ástrós Harpa, f. 17.6. 1997, sambýlismaður Egill Guðjohnsen og c) Viktor Ingi, f. 13.9. 2000. 6) Lilja, f. 7.2. 1972. Dóttir: Árdís Níní, f. 17.11. 2012.

Níní bjó í Vatnadal til fimm ára aldurs og fluttist þá til Suðureyrar og bjó þar alla tíð eftir það.

Útför Níníar verður gerð frá Suðureyrarkirkju á morgun, sunnudaginn 4. desember 2022, klukkan 13. Athöfninni verður streymt. Virkan hlekk má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Komið er að kveðjustund því nú kveð ég elskulega tengdamóður mína.

Upp í hugann kemur sú stund þegar ég hitti hana í fyrsta skiptið. Það var í Súlnasal Hótels Sögu þegar Guðni var að útskrifast úr 2. bekk frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1974. Það fyrsta sem ég hugsaði var hversu lík þau væru mæðginin.

Tveimur árum síðar flutti ég til Suðureyrar, gift Guðna með nýfædda dóttur okkar. Tengdafólk mitt tók mér mjög vel og voru umskiptin ekki eins erfið og ég hafði búist við. Níní var mín stoð og stytta og kom að hluta til í stað móður minnar en það var erfitt að vera svona fjarri henni í þessum fyrstu skrefum í móðurhlutverkinu.

Þegar ég fór að vinna hálfan daginn i Fiskiðjunni Freyju tók hún að sér að passa fimm mánaða barnið þrátt fyrir að vera með stórt heimili sjálf.

Samband okkar var alla tíð mjög gott og aldrei bar skugga á. Hún leiðrétti málfar mitt þegar henni fannst ég ekki tala rétt mál og vandi mig af þágufallssýkinni.

Hún hvatti mig til að ganga í Kvenfélagið Ársól fljótlega eftir að ég flutti vestur en þá var hún ritari í félaginu og gegndi því hlutverki i mörg ár.

Níní var lífið og sálin á heimili þeirra Einars á Aðalgötu 3. Það var ekki það sama að koma þangað þegar hún var heima og þegar hún var að heiman. Það vantaði hana.

Þau hjónin höfðu gaman af því að ferðast og komu þau m.a. nokkrum sinnum til okkar í Santa Pola á Spáni. Reyndar fór það svo að eftir að við keyptum húsið þar voru þau fyrst til í að dvelja þar með tilheyrandi ævintýrum á nýjum slóðum. Þau fóru nokkrum sinnum til BNA að heimsækja Elvar og Jóhönnu, til Eyglóar og fjölskyldu í Svíþjóð og í brúðkaup Ævars og Thitikan í Taílandi.

Það er alveg einstakt hvað Níní náði góðri tengingu við öll barnabörnin sín. Hvert þeirra átti sinn stað í hjarta hennar og öll upplifðu sig einstök. Elsta barnabarnið er 50 ára og það yngsta 10 ára.

Ég á einungis góðar minningar um tengdamóður mína, hefði ekki getað fengið betri.

Aldrei efaðist hún um að sonurinn fengi nóg að borða eða vel væri um hann hugsað.

Eftir að dagdeild aldraðra, Sunnuhlíð, var stofnuð var Níní dugleg að sækja félagsskap þangað.

Á þeim tíma sá um starfsemina Ásta Björk Friðbertsdóttir, sem við kvöddum einnig í vikunni. Ásta var einstaklega natin við Níní, færði henni bláber á hverju hausti síðari árin og hjálpaði henni að skipta um mold á blómunum.

Í lok júlí fékk Níní áfall sem varð til þess að hún varð rúmföst á sjúkrahúsinu á Ísafirði.

Fram að því bjó hún ein á heimili sínu þar sem hún hafði búið frá árinu 1954.

Hún vonaðist alltaf eftir því að geta farið heim aftur en því miður varð henni ekki að ósk sinni.

Ég kveð yndislega konu með þakklæti og kærleika fyrir öll árin sem ég fékk að lifa með henni.

Hvíl í friði.

Sigrún.