Það eru erfiðir tímar. Við sem trúðum á endalausar tækniframfarir og að allt yrði betra og auðveldara í dag en það var í gær höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum.
Nú eru það mikið annars flokks vörur sem við búum við í daglegu lífi: Maíspokar sem ekki halda vatni, hvað þá vörunum, daufvirkandi svitaeyðir vegna ósongatsins, pappaskeiðar í skyrið, smáskeiðar úr ókenndu efni sem vindast og leysast upp þegar hrært er í kaffinu og margt fleira hindrandi í dagsins önn.
Það má varla nota nagladekk og helst á að aka rafbíl sem ekkert drífur á við gömlu kaggana sem komust allt.
Nautpeningur er orðinn óalandi og óferjandi vegna metangass, svo í stað nautakjöts kemur eitthvað gervi.
Tími starfsmanna þjónustufyrirtækja er orðinn svo dýrmætur að þeir mega helst ekki svara í síma og allt verður þess vegna ópersónulegra í samskiptum við kúnnana.
Þetta er veröldin í dag og rafflug á næstu grösum. Guð hjálpi okkur því við vitum ekki hvað við gerum.
Sunnlendingur