Kristín Ingunn Haraldsdóttir fæddist 3. maí 1936. Hún lést 17. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 2. desember 2022.

Það er alltaf sárt að kveðja þótt beðið sé eftir hvíldinni eins og mín elskulega systir gerði. Hún þráði að komast heim í garðinn til Bjarna síns enda búin að vera mikill sjúklingur og lengi á sjúkrahúsinu á Patreksfirði. Þar fékk hún mjög góða umönnun þökk sé starfsfólkinu. Það vildi til að hennar góða skap og umburðarlyndi var ótrúlegt.

Við systkinin ólumst upp á stóru og ástríku heimili hjá foreldrum, afa, ömmu, langaömmu og þremur frændsystkinum sem ólust þar upp að miklu leyti. Oft var margt á sumrin þegar frændfólkið kom frá Reykjavík, en gaman. Þá fengum við ætíð eitthvert gotterí, man hvað okkur fannst æðislega góð vínabrauðin (það var ekki hlaupið út í búð í sveitinni) sem Guðný kom alltaf með en synir hennar voru hjá okkur á sumrin.

Við vorum mjög samrýndar systurnar, held bara að við höfum aldrei rifist. Hún fór snemma að heiman, fann ástina sína 16 ára gömul sem entist ævilangt. Hún fór fljótlega að búa með Bjarna sínum í Haga, það var ekki síður mannmargt heimili. Held það hafi nú ekki alltaf verið auðvelt. Ég saknaði hennar ætíð mjög, en við vorum alltaf í góðu sambandi. Svo komu börnin sjö hvert af öðru, það fyrsta þegar hún var nítján ára svo það var nóg að gera – þvo bleyjur og skola úti í læk, þá voru nú ekki þvottavélar. Ég var stundum að hjálpa henni þegar hún lá á sæng. Hennar börn hafa alltaf verið ákaflega góð og reynst mér vel. Magga hefur reynst mér sem besta dóttir, hún kallaði mig nú stundum hina mömmu sína þegar hún var ung en hún var hjá okkur þegar hún var í skóla á Patreksfirði.

Ég minnist margra skemmtilegra stunda sem við systur höfum átt. Tvisvar fórum við t.a.m. saman til útlanda og allar dætur hennar með okkur til Portúgals og Barcelona, ógleymanlega skemmtilegt.

Ég efast ekki um að vel verði tekið á móti elsku Kiddý minni í sumarlandinu, sé þau nú saman hönd í hönd, hana og Bjarna blessaðan. Ég sendi börnunum og öllum ástvinum í stóra hópnum mínar hjartanlegustu samúðarkveðjur.

Ég kveð þig með setningu sem við sögðum alltaf þegar við kvöddumst í símanum – Guð verði með þér.

Þú varst rík og þú gast alltaf gefið

af þínum kærleiks innri eld

sem áttir fram á hinsta kveld.

Hér kveðja og þakka ástvinirnir allir

þín blessuð minning býr þeim hjá

og býsna margur hana á.

(S.G.)

María Kristín Haraldsdóttir (Mæja systir).

Fáein kveðjuorð. Ég kveð yndislega vinkonu, Kristínu Ingunni Haraldsdóttur eða Kiddý í Haga, eins og hún var alltaf kölluð. Kiddý var yndisleg manneskja sem sá alltaf það góða í öllum. Hún var sterk kvenfélagskona og gerði mikið fyrir sitt kvenfélag. Hún var ein af þessum konum sem vann mikið, alltaf brosandi og það geislaði af henni. Það var mikið gert í okkar litla kvenfélagi og var hennar hlutur stór. Veikindi hennar stóðu yfir í þó nokkuð langan tíma, en alltaf var hún Kiddý brosandi og falleg og frá henni stafaði hlýja. Núna eru þau komin saman aftur, hún og Bjarni hennar, og þá endurfundi var hún búin að þrá lengi. Ég þakka elsku Kiddý fyrir alla vináttuna og núna síðast það, sem hún lét færa mér að gjöf. Ættboginn hennar telur marga og er svo stór. Börnum hennar og fjölskyldum þeirra vottum við fjölskylda mín innilega samúð. Guð blessi ykkur öll.

Guðrún Halla

Friðjónsdóttir.