Signý Guðmundsdóttir fæddist á bænum Efra-Firði í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu 15. maí 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði á Höfn í Hornafirði 24. nóvember 2022.
Foreldrar Signýjar voru Guðmundur Halldórsson, f. 19.12. 1889, d. 14.12. 1974, vinnumaður í Efra-Firði og síðar bóndi í Þorgeirsstöðum í Lóni, og kona hans, Ingibjörg Einarsdóttir, f. 3.6. 1890, d. 1.11. 1962, húsfreyja.
Bræður Signýjar voru Karl Guðjón Guðmundsson, f. 27.1. 1920, d. 30.4. 2010, bóndi í Þorgeirsstöðum; Steindór Guðmundsson, f. 5.11. 1922, d. 16.11. 2003, bóndi í Hvammi í Lóni, og Eiríkur Guðmundsson, f. 26.4. 1927, d. 9.1. 1985, bóndi í Vík í Lóni og síðar í Þorgeirsstöðum.
Eiginmaður Signýjar var Hlöðver Sigurðsson, f. 16.4. 1919, d. 22.7. 1995, sjómaður, hagleiksmaður og málari á Höfn. Þau giftust 15.5. 1959. Foreldrar Hlöðvers voru Sigurður Jónsson, f. 10.7. 1874, d. 22.3. 1956, bóndi og sjómaður í Krossalandi í Lóni, og kona hans, Þórey Guðmundsdóttir, f. 5.12. 1887, d. 20.2. 1969, húsfreyja.
Signý og Hlöðver eignuðust fjögur börn: Óttar, f. 14.3. 1950, fórst með Sigurfara SF-58 17.4. 1971, sjómaður á Höfn og nemi við Stýrimannaskólann.
Þóra Ingibjörg, f. 6.2. 1952, húsfreyja á Höfn, maður hennar er Ingvi Þór Sigurðsson fv. sjómaður og verkstjóri. Börn þeirra eru drengur, f. 21.3. 1970, d. sama dag; Óttar Már, f. 19.5. 1971, sjávarútvegsfræðingur og vélstjóri á Akureyri, kona hans er Dagmar Guðmundsdóttir viðskiptafræðingur, börn þeirra eru Sara Bryndís, Logi Már og Sóley María; Helena f. 7.7. 1972, skrifstofumaður á Höfn, maður hennar er Heimir Sigurður Karlsson starfsmaður hjá Fiskistofu, börn þeirra eru Ingvi Þór og Hekla Natalía; Signý, f. 14.10. 1977, nemi á Höfn, maður hennar er Einar Stefán Aðalbjörnsson sjómaður, börn þeirra eru Alexander Alvin, Óttar Már og Nína Ingibjörg; Inga Rósa, f. 6.3. 1992, matvælafræðingur og gæðaeftirlitsstjóri, maður hennar er Óli Kristján Benediktsson nemi í rafvirkjun, börn þeirra eru Eiður og Klara; Þóra Björg, f. 6.3. 1992, lyfjafræðingur í Reykjavík, maður hennar er Bjarki Þór Guðmundsson sölustjóri, börn þeirra eru Tinna Karen og Aldís Birta.
Guðmundur, f. 4.2. 1956, matreiðslumaður í Reykjavík, fyrri kona hans var Hafdís Mjöll Búadóttir, synir þeirra eru Búi Vilhjálmur, f. 25.11. 1974, málarameistari í Hafnarfirði, kona hans er Sigrún Lóa Kristjánsdóttir verkefnisstjóri við Háskóla Íslands, börn þeirra eru Patrekur Hafliði, Jóhannes Hafþór og Sunna Bríet; Janus Arn, f. 2.1. 1987, stjórnmálafræðingur í Reykjavík. Seinni kona Guðmundar var Guðrún Jónsdóttir matreiðslumeistari sem er nú látin.
Sigurður, f. 23.9. 1957, vélstjóri og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, fyrri kona hans var Guðný Hrefna Einarsdóttir bókari, börn þeirra eru Einar Hlöðver, f. 2.6. 1983, viðskiptaþróunarstjóri hjá Marel, búsettur í Hafnarfirði, kona hans er Rakel Ingibjargardóttir yfirhönnuður hjá Icewear, börn þeirra eru Viggó Orri, Ylfa Nótt og Móey Minna; Erla Signý, f. 27.11. 1986, kennari við Grunnskólann í Vestmannaeyjum, maður hennar er Gylfi Frímannsson vélstjóri og sjómaður, börn þeirra eru Ísey Hrefna og Anna Guðný; Guðni Freyr, f. 22.10. 1993 stýrimaður í Vestmannaeyjum, kona hans er Karen Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmæðranemi, börn þeirra eru Mikael Elmar og Eva Katrín.
Signý fæddist í Efra-Firði og bjó þar til þriggja ára aldurs þegar hún fluttist að Þorgeirsstöðum. Hún flutti með Hlöðver manni sínum á Höfn er hún var tvítug. Þau reistu sér húsið Miðbæ sem varð síðar Höfðavegi 11 árið 1948, þar sem þau bjuggu allan sinn búskap. Signý og Hlöðver byggðu sér á efri árum sumarhúsið Draumaland í Lóni.
Auk húsmóðurstarfa sinnti Signý ýmsum störfum sem til féllu á Höfn, m.a. við Hjúkrunarheimilið Skjólgarð og sinnti verslunarstörfum við vefnaðarvörudeild Kaupfélags Austur-Skaftfellinga.
Signý var félagslynd. Hún kom að ýmsum félagsmálum á Höfn, hafði gaman af því spila, söng m.a. í kirkjukórnum, starfaði í kvenfélaginu Tíbrá og í Handraðanum. Hennar helsta áhugamál voru þó stangveiðar í ám og vötnum, en hún fór í ótal veiðiferðir og síðasta fiskinn sinn veiddi hún á stöng í Tungufljóti.
Útför Signýjar verður gerð frá Hafnarkirkju, Höfn, í dag, 3. desember 2022, og hefst athöfnin klukkan11.
Elsku mamma er fallin frá.
Móðir mín var einstök manneskja sem öllum þótti vænt um sem henni kynntust. Hún var mikið náttúrubarn, sem helgaðist mest af uppvaxtarárum hennar í Lóninu hjá foreldrum sínum að Þorgeirsstöðum.
Heimilið sem móðir mín rak var töluvert stórt um tíma þegar þrír bræður föður míns ásamt ömmu minni fluttu inn á heimili foreldra minna. Hún sá um matseld og gistingu fyrir þau eftir að þau ákváðu að bregða búi í sveitinni. Á hverjum degi var tiltækur fullur hádegisverður og kvöldverður með graut og öllu tilheyrandi handa öllum sem bjuggu heima og þar að auki kom mikið af frændfólki úr sveitinni, sem starfaði niðri á Höfn eða vann aðra vinnu í nágrenni Hafnar, í mat til mömmu þegar þau komu í kaupstað. Segja má að heimilið hafi verið nokkurs konar miðstöð stórfjölskyldunnar í þéttbýlinu á Hornafirði, þ.e. fyrir það fólk sem bjó í sveitinni. En þangað voru allir alltaf hjartanlega velkomnir sem lýsir henni svo vel enda vildi hún öllum hjálpa og mátti ekkert aumt sjá.
Móðir mín fór ekki varhluta af grimmd íslenskra náttúruafla þegar foreldrar mínir missa sitt elsta barn, Óttar heitinn bróður, sem aðeins var tuttugu og eins árs þegar hann lést, ásamt frændum okkar og öðrum vinum sem allir í samfélaginu þekktu. Þetta var hörmulegt sjóslys sem skók okkar heimabyggð og lagði samfélagið fyrir austan á hliðina um langan tíma en Sigurfari SF 58 sökk við innsiglingu Óssins þegar honum hvolfdi. Móðir mín tók þessu af miklu æðruleysi eins og hennar var von og vísa og gekk alltaf upprétt þó henni stæði nú ekki alltaf á sama um allt sem á eftir gekk.
Hún var t.d. ekki alveg sátt við yngsta son sinn þegar hann tilkynnti henni að hann ætlaði að reyna að feta í fótspor eldri bróður síns og fara á sjóinn. Það segir allt sem segja þarf um móður mína en hún lét mér það eftir með trega og var það aldrei rætt meira af hennar hálfu, þó oft hafi henni ekki staðið á sama þegar barist var við veðurofsa og dansinn tekinn við náttúruöflin úti í Hornafjarðarósi á vertíðunum í þá daga. Sem betur fer hefur nú orðið mikil breyting þar á til batnaðar.
Hún sýndi fyrirhyggju í öllu og átti sitt eigið land hér á Höfn til aukabúskapar. Þar var hún með hænur, endur og einhverjar tegundir af gæsum svo fátt eitt sé nefnt. Hún stundaði veiðar svo sem silungsveiðar með því að leggja net og fór víða með stöngina sína. Þar undi hún sér best enda var þvælst um allar koppagrundir þegar haldið var til veiða.
Foreldrar mínir byggðu sér síðar sumarbústað í Laxárdal í Lóni sem þau skírðu Draumaland og var þeim mjög kær. Þar héldu þau mikið til yfir sumartímann og móðir mín var þar mikið með börnum og barnabörnum eftir að faðir minn féll frá. Hún veitti öllum sínum börnum og barnabörnum mikinn stuðning með því að vera til staðar fyrir þau enda var hún einstök kona sem mikil virðing var borin fyrir í allri sýslunni.
Elsku mamma mín; í dag skil ég hvað það er að eiga bestu mömmu í heimi og mun ég elska þig að eilífu. Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku hjartað mitt.
Sigurður Hlöðversson.
Mig langar í fáeinum orðum að kveðja þessa merku konu sem var tengdamamma mín í hartnær 30 ár. Elsku Signý mín, þú varst ekta íslensk ofurkona. Dugleg, ósérhlífin, alltaf tilbúin að hjálpa öðrum en gleymdir oft sjálfri þér. Þið Hlöðver tókuð svo vel á móti mér árið 1981, á Höfðaveginum þar sem var nú oft líf og fjör. Það myndaðist mikill og góður vinskapur á milli okkar og þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar í sumarbústaðnum þínum, á Höfðaveginum, í heimsóknum þínum í Búhamarinn og í ferðalögunum á Spáni. Þín verður sárt saknað elsku Signý mín, en heilsan var orðin döpur og ég held að þér líði vel í Sumarlandinu með Hlöðveri og Óttari þínum. Bless bless þar til við hittumst á ný.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(Valdimar Briem)
Guðný Hrefna Einarsdóttir.
Hún Signý amma mín er látin. Þó hún hafi verið orðin 93 ára og ég sjálfur orðinn rígfullorðinn þá er ég fullur söknuðar og jafnvel svolítið umkomulaus. Og ég er ekki einn um það. Fjölmennur hópur afkomenda kveðja þessa fórnfúsu og ástríku konu sem tók öllu sínu fólki opnum örmum og hafði ætíð nægan tíma fyrir okkur fjölskylduna.
Þegar ég hugsa til ömmu Signýjar hugsa ég til allra þeirra góðu stunda sem við áttum saman á uppvaxtarárum mínum. Ég var svo lánsamur að fá að dvelja oft hjá ömmu um nokkurra vikna skeið á sumrin frá sex ára aldri. Á þeim tíma skapaðist með okkur mikil og órjúfanleg vinátta. Það urðu dýrmætir og ógleymanlegir bernskudagar í allt öðru umhverfi og mannlífi en ég hafði vanist. Amma og afi höfðu komið sér upp fallegu húsi á Höfn í Hornafirði, á Höfðaveginum, þar sem þau komu börnum sínum á legg. Það var vissulega uppbyggileg reynsla fyrir mig, borgarbarnið, að fá að kynnast mannlífinu, viðhorfum og vinnubrögðum í íslensku sjávarplássi á þessum tíma. Þarna var amma hrókur alls fagnaðar, þekkti allt og alla, á kafi í kvenfélagsstússi, hannyrðum, handverki, spilamennsku og kórsöng, en þó, þrátt fyrir allt, fyrirmyndarhúsmóðir af gamla skólanum með íslenskan alþýðumat eins og hann gerist bestur.
Ekkert jafnaðist þó á við það að fá að fara með ömmu í hennar frægu veiðiferðir, oftast í Lónið þar sem hún var fædd og uppalin. Amma var forfallinn veiðimaður og veiðikló. Það var engin smá upphefð í því að verða fullgildur aðstoðarmaður hennar í þessum leiðöngrum. Þegar um hægðist á kvöldin kom í ljós að þessi góða alþýðukona kunni kynstrin öll af sögum. Ömmu þótti afar vænt um sína heimahaga og það mannlíf sem þeir höfðu fóstrað. Hún var því stöðugt með á hraðbergi margvíslegan fróðleik um Höfn í Hornafirði, um sveitina sína, bæjarnöfn í Lóni, ábúendur þar, ættartengsl og örnefni. Alltaf var hún að fræða okkur barnabörnin um heillandi mannlíf, rammað inn í eina stórbrotnustu náttúrufegurð landsins. Einhver kynni að halda að börn hafi ekki sérstakan áhuga á þjóðlegum fróðleik af þessu tagi. En það höfðum við nú samt þegar amma sagði frá. Hún bjó yfir þannig frásagnargáfu að allt varð skemmtilegt og áhugavert sem hún fræddi okkur um.
Já, ég sakna hennar Signýjar ömmu minnar sárt. En ég er jafnframt þakklátur fyrir að hafa átt hana að og fengið að njóta ástríkis hennar og umhyggju. Við þessar aðstæður er gott að geta horfið í huganum með ömmu að veiðivatni austur í Lóni eða austur í sumarbústaðinn hennar þar. Ég sé hana fyrir mér í bústaðnum, hnykla brýrnar og spá í spilin þar sem hún er að spila við vinkonur sínar Hornafjarðarmanna.
Elsku amma! Ég þakka þér fyrir alla umhyggjuna, fróðleikinn og fegurðina sem þú kenndir mér að njóta.
Nú er lífsins leiðir skilja,
lokið þinni göngu á jörð.
Flyt ég þér af hljóðu hjarta,
hinstu kveðju og þakkargjörð.
Gegnum árin okkar björtu,
átti ég þig í gleði og þraut.
Umhyggju sem aldrei gleymist,
ávallt lést mér falla í skaut.
(Höf. ók.)
Janus.
Elsku amma, það er sárt að þurfa að kveðja þig en þú varst tilbúin að fá hvíldina.
Ég á margar dýrmætar minningar um þig sem ég mun geyma vel. Þú varst frábær amma.
Ég man sérstaklega vel eftir því þegar þú komst í heimsókn þegar ég var barn hvað þú varst alltaf til í að dansa og syngja með okkur systrunum, við fórum með þig inn í stofu og þar var sungið „dansi dansi dúkkan mín“ og labbað í hring. Þú komst yfirleitt í mat á sunnudögum, fyrir matinn horfðir þú alltaf á barnatímann með okkur á meðan maturinn var eldaður.
Allar ferðirnar í Lónið, uppáhaldsstaðinn þinn. Þar leið þér best og vildir þú helst eyða stórum hluta af sumrunum þar, með fjölskyldunni eða vinkonum þínum. Alltaf stutt í gleðina.
Jólin heima hjá mömmu og pabba, alltaf varst þú komin og gistir yfir hátíðirnar, það var alltaf jafn notalegt að eyða jólunum með þér.
Ég er þakklát fyrir að fjölskyldan mín hafi fengið að hitta þig og kynnast þér. Við munum svo sannarlega halda minningu þinni á lofti.
Elsku besta amma mín, þín verður sárt saknað.
Þóra Björg Ingvadóttir.
Elsku amma mín. Þá er komið að kveðjustund. Mikið sem það er erfitt og söknuðurinn sár. En ég veit að nú líður þér vel.
Minningarnar um þig eru óteljandi, dýrmætar og skemmtilegar. Þú varst mögnuð kona og svo mikil fyrirmynd í lífinu.
Margar minningar hafa komið upp á síðustu dögum, má þar nefna allar stórafmælisveislurnar sem þú bauðst til. Þú vildir alltaf halda gott partí á stórafmælunum þínum þar sem öll fjölskyldan kom saman, þetta voru góðar stundir. Í eitt skiptið datt okkur systrum í hug að vera með skemmtiatriði þar sem við sömdum lagið „Amma þarf að djamma“ og fengum alla í okkar legg til að læra lagið og vera með. Við mamma laumuðumst svo heim til þín og fundum til hina ýmsu búninga í fataskápunum þínum og klæddust flestallir einhverri flík af þér. Ég hafði smá áhyggjur af því að þú yrðir ekki sátt þegar þú kæmist að því að við hefðum rótað í fataskápunum, en það voru óþarfa áhyggjur, þú hafðir svo gaman af þessu.
Þegar ég bauð þér í mat eða veislur þá varstu alltaf svo þakklát og ánægð með það sem þú fékkst og sagðir að þetta væri betra en að fara á veitingastað.
Þú ljómaðir alltaf þegar þú hittir börnin mín og finnst mér svo dýrmætt að þau hafi fengið að kynnast þér, við munum halda minningu þinni á lofti og geyma þig á góðum stað í hjörtum okkar.
Hvíldu í friði í draumalandinu elsku hjartans amma mín.
Þín
Inga Rósa.
Elsku amma. Ég man vart eftir fallegra veðri á leið minni frá Hornafirði til Reykjavíkur en síðasta föstudag. Sólin speglaði sig í Hornafjarðarfljóti og myndaði með þeim dropum sem niður komu regnboga á víð og dreif ásamt því að túnin í Suðursveit virkuðu iðagræn þótt langt væri liðið á veturinn. Það hafði færst kyrrð yfir allt eftir stormasaman dag daginn áður. Kyrrðin olli því að yfir mann helltust góðar minningar og mikið af þeim. En einnig sorg yfir því að þessa leið færi ég ekki aftur til þess að heimsækja þig.
Heimsóknirnar austur hvert ár voru nefnilega gríðarlegt tilhlökkunarefni hjá mér. Og nei, það að var ekki vegna þess að ég vissi að ég fengi 5.000 kr. í vasapening þegar ég færi heim aftur. Heldur vegna þess að við deildum sömu áhugamálum og einnig sömu sýn á lífið. Það var ekki hangið inni og horft á sjónvarp, heldur var tímanum eytt í garðinum, hvort sem var við tjarnargerð í Draumalandi eða í beðinu við Höfðaveg 11, í að laga þá hluti sem komnir voru til ára sinna og síðast en ekki síst við að tína, mála og líma saman þá steina sem heilluðu okkur í göngum okkar um bæinn. Ég var aldrei verkefnalaus í kringum þig og lærði fljótt að þegar maður þarf að láta gera eitthvað, þá skyldi maður standa upp og framkvæma það sjálfur.
Fjögurra ára veiddi ég minn fyrsta fisk á stöng undir dyggri leiðsögn þinni. Því hvergi var fallegra að vera en uppi í Lóni á fallegum sumardegi, að kasta stöng eða að leggja og vitja um net. Þú sýndir mér réttu handtökin af mikilli ró, þrátt fyrir að ég hafi ekki ferðast hratt um í vöðlum sem náðu mér upp fyrir haus og dregið á eftir mér steina sem voru af svipaðri þyngd og ég sjálfur á þeim tíma. En þegar líða tók á árin fékk ég æ oftar orð í eyra. Fyrir þær sakir að netin stæðu of grunnt, eða of djúpt, eða þá að ég væri kominn inn á land Kalla bróður þíns. Landamærin voru virt í sveitinni. Seinna lærði ég að heiðarleiki þinn, ásamt keppnisskapi við að ná í sem flesta fiska, myndaði oft togstreitu hjá þér. Því sama þótt við vissum að veiðiskilyrðin væru betri á ákveðnum stöðum eða á ákveðnum dögum, þá yrði, öðru framar, að fylgja reglunum.
Á Lónið verður ekki minnst án þess að tala um Draumaland. Sá staður ber svo sannarlega nafn með rentu. Á þeim stað sem handbragð þitt og afa Hlöðvers er allt um kring. „Minna er meira“ á vel við þegar hugsað er um bústaðinn ykkar, því aldrei virtist hann hætta að taka við fólki. Svo lengi sem fjölskyldan var saman, þá breytti engu hvar fólk svaf, hvort sem var á gólfinu eða ofan í skúffum. Þakklátastur er ég þó fyrir að hafa getað upplifað Draumaland með þér og frumburðinum mínum þegar Mikael Elmar hélt upp á tveggja ára afmælið sitt þar.
Að hafa fengið að eyða með þér síðustu ævistundum þínum er dýrmætt og mun sá tími fylgja mér alla ævi. Þú varst orðin tilbúin í næsta ferðalag og vonandi finnurðu frið í faðmi afa og Óttars.
Ég elska þig.
Guðni Freyr.
Elsku besta amma mín, fyrirmynd mín í lífinu, enda er ég nafna þín. Minningarnar um þig eru svo óteljandi margar. Þú varst alltaf svo mikill nagli, græjaðir og gerðir allt sem þurfti að gera á meðan þú hafðir heilsu til. Það var sko ekki verið að mikla neitt fyrir sér heldur gekkstu til allra verka. Það voru ekki ófá ferðalögin sem þú keyrðir með gömlu vinkonurnar þínar upp í Draumaland, norður í land og austur í bústað. Mikið held ég að það hafi alltaf verið gaman hjá ykkur í þessum ferðum enda var alltaf glatt á hjalla þar sem þú varst og drottinn minn, það var alltaf svo mikið að gera hjá þér. Þegar þú loksins hafðir tíma til þess að koma við hjá mér varstu búin að kveðja og þotin út í bíl áður en hægt var að endurgjalda kveðjuna. Ég hugsaði oft um það hversu heppin þú værir að vera svona félagslynd og alltaf hafðir þú nóg fyrir stafni, sama hvort þú varst að veiða með stöng, leggja netin, sauma bútasaumsteppi, prjóna eða dytta að uppáhaldsstaðnum þínum, Draumalandi í Lóni. Upplifun mín var alltaf sú að þér leiddist ekki. Þú varst ekki nema 66 ára þegar afi kvaddi okkur og ég man alltaf svo vel eftir því hvað þú kveiðst einmitt mikið fyrir því að verða allt í einu alein í húsinu ykkar Miðbæ á Höfðaveginum, enda ekki skrítið þar sem það var alltaf svo margt fólk í kringum ykkur og þú hugsaðir alltaf svo vel um alla. Við brölluðum ýmislegt saman í lífinu og ég á svo óteljandi góðar og skemmtilegar minningar með þér elsku amma mín. Bústaðarferðir, hlátrasköll, spil og spjall. Oftar en einu sinni sátum við saman ég, þú og Helena systir uppi í Draumalandi að spila og þú sagðir okkur margar dýrmætar sögur frá því í gamla daga. Ég sakna þín svo mikið, elsku dúllan mín, en ég veit að afi og Óttar hafa tekið vel á móti þér og fagnað komu þinni. Loksins eruð þið sameinuð á ný og þú getur sagt þeim skemmtilegar sögur af okkur öllum.
Langt úr fjarlægð, elsku amma mín,
ómar hinzta kveðja nú til þín.
En allt hið góða, er ég hlaut hjá þér,
ég allar stundir geymi í hjarta mér.
Ég man frá bernsku mildi og kærleik
þinn,
man hve oft þú gladdir huga minn.
Og glæddir allt hið góða í minni sál,
að gleðja aðra var þitt hjartans mál.
(Höf. ók.)
Kyss, kyss og hvíldu í friði. Ég elska þig amma mín.
Kveðja
Signý.
Elsku besta amma mín. Nú er víst komið að kveðjustund. Þegar ég hugsa til baka koma upp í hugann minningar um allar samverustundirnar í fallega húsinu ykkar afa á Höfðaveginum og í Draumalandi í Lóni, dásamlega bústaðnum sem þið byggðuð ykkur. Þaðan eigum við yndislegar minningar. Oft voru ansi margir í gistingu og mikið fjör, mikið spilað og mikið veitt af silungi.
Við áttum alltaf gott samband þótt það væri fjarlægð á milli okkar. Það má svo segja að við höfum kynnst upp á nýtt og orðið bestu vinkonur þegar ég var tvítug, réð mig í sumarvinnu á Hornafirði og fékk að búa hjá þér. Þetta sumar áttum við margar dýrmætar stundir saman, bæði heima og uppi í bústað. Seinna kom ég svo aftur á Höfn að vinna. Þá kom ég oft til þín í hádeginu, þú varst tilbúin með hádegismat og svo lögðumst við inn í stofu og hlustuðum á hádegisfréttir á rás 1 áður en ég fór aftur í vinnuna. Ég hugsa til þessara tíma með hlýju og þakklæti.
Við vorum alltaf duglegar að hringjast á og símtölin okkar voru heilagur tími hjá mér. Þegar ég hringdi í þig passaði ég mig á að hafa frið til þess að tala nógu lengi. Þau voru því ófá kvöldin sem við spjölluðum um alla heima og geima eftir að stelpurnar mínar voru sofnaðar. Mikið verður skrýtið að fá ekki fleiri símtöl frá þér elsku amma mín.
Þú varst svo spennt þegar stelpurnar okkar Gylfa fæddust og fylgdist vel með okkur öllum. Þú komst í skírnina hennar Íseyjar Hrefnu en tveimur árum seinna léstu mig vita að þú treystir þér skiljanlega ekki til að ferðast til Vestmannaeyja um hávetur í skírn hjá Önnu Guðnýju. Ég gleymi því aldrei þegar þú birtist svo óvænt inni í stofu hjá okkur daginn fyrir skírnina, mikið varð ég glöð að sjá þig.
Við systkinin komum reglulega með börnin okkar til Hornafjarðar síðustu ár og alltaf varstu jafn glöð og þakklát. Það var dásamlegt að leyfa krökkunum að upplifa Draumaland eins og við upplifðum sem börn. Við Gylfi og stelpurnar stoppuðum svo alltaf hjá þér á tíðum ferðalögum okkar til Reyðarfjarðar. Í eitt skiptið komum við með pulsur og elduðum hjá þér, þá var sko veisla því þér fannst pulsur svo góðar. Þetta varð svo að hefð hjá okkur um tíma, pulsupartý og dýrmæt samvera áður við héldum ferðalaginu áfram.
Þú varst dugnaðarforkur elsku amma mín, ekta íslensk sveitakona sem lét ekkert á sig fá. Þú gekkst í öll verk, hvort sem það var viðhald á sumarbústaðnum, vinna í fallega garðinum eða veiða og verka fisk. Það var því sárt þegar þú fórst að missa sjónina hægt og rólega og þar með getuna til að gera hluti sem þú hafðir ástríðu fyrir. Ég trúi því að nú sértu á góðum stað með fólkinu þínu, komin með sjónina aftur og fylgist vel með okkur öllum.
Takk fyrir allt elsku amma mín. Takk fyrir allar dásamlegu samverustundirnar. Takk fyrir öll dýrmætu símtölin okkar. Takk fyrir öll knúsin og hlýja faðminn þinn. Takk fyrir ástina, kærleikann og hlýjuna sem þú sýndir mér og okkur fjölskyldunni. Ég ber nafnið þitt stolt og mun alltaf líta upp til þín.
Góða ferð í Draumaland.
Ég elska þig að eilífu.
Þín
Erla Signý.
Nú er komið að kveðjustund, elsku Signý amma, tengdaamma, langamma og langalangamma.
Þegar við hugsum um ömmu okkar kemur upp fullt af góðum minningum sem munu lifa áfram í hjörtum okkar.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Takk fyrir allt elsku Signý amma.
Helena, Heimir, Ingvi Þór, Lína Dóra,
Helena Dóra, Hekla Natalía og Erlendur.