Magnús Kr. Guðmundsson fæddist 16. mars 1930. Hann lést 26. október 2022.
Útför hans fór fram 5. nóvember 2022.
Ég kvaddi afa Magnús, Magga í Tungu, miðvikudaginn 26. október síðastliðinn.
Afi var útgerðarmaður í rúmlega hálfa öld. Hann hafði mikil áhrif á sjávarútveg og fiskeldi á Íslandi og var m.a. sæmdur fálkaorðunni fyrir sitt framlag árið 2004. Líf hans snerist alla tíð um vinnu. Vinnan og ættfræði voru hans áhugamál. Afi var í rauninni eins og mennsk Íslendingabók. Skýr í kollinum fram á hinsta dag.
Afi var vestfirskur jaxl og hraustmenni mikið. Hann hafði alla sína ævi hugsað vel um sig og um það sem hann lét ofan í sig. Aldrei drakk hann áfengi, passaði skammtastærðir og var umhugað um vatnsdrykkju sína. Síðustu vikurnar dvaldi hann á Heilbrigðisstofnuninni á Patreksfirði. Þangað þurftu afkomendur hans að færa honum vatnsbrúsa með vatni úr Tálknafirði. Vatnið á Patreksfirði bragðaðist að hans sögn ekki vel. Brúsarnir voru merktir nöfnum þeirra áa sem vatnið var tekið úr. Keldeyrará, Tunguá eða Hólsá. Afi þekkti ekkert annað en að vera við stjórnvölinn og því hægt að segja að hann hafi náð að stjórna fram að lokastundu.
Afi bar sjaldan tilfinningar sínar á torg og var sparsamur á hrósið. Margir af hans afkomendum virðast hafa erft það frá honum. Afi hrósaði hvorki öðrum né sjálfum sér og var einstaklega ósérhlífinn og hógvær. Það reyndist dugnaðarforki eins og honum erfitt hve ósjálfbjarga hann var orðinn þegar líða fór undir lok.
Elsku afi. Daginn sem þú kvaddir þessa jarðvist kom ég til þín á spítalann. Ég naut þess að verja tíma með þér ein í þögninni. Það var einkennilegt að vera í sama herbergi og ég hafði sjálf fæðst í rúmlega 31 ári áður. Ósjálfrátt reikaði hugurinn. Spurningar um tilgang lífsins og hugsanir um hve hverfult lífið væri. Um leið og ég kom inn til þín og byrjaði að tala við þig kreistir þú hönd mína kröftuglega. Þú opnaðir augað og ég brosti til þín. Ég vonaði að þú sæir eitthvað af ömmu í mér, því þú áttir það til að segja mér að ég minnti þig á hana. Ég fylltist þakklæti að fá að eiga þessa stund með þér. Ég sagði þér hve stoltur þú gætir verið af öllum þínum afrekum og afkomendum. Að við værum stolt af þér og allt yrði í lagi. Þér væri óhætt að sleppa takinu. Ég lá hjá þér, strauk þér og hummaði sjómannalög. Söng til þín lagið Ég veit þú kemur í kvöld til mín og bauð góðan guð um að leyfa þér að fara fljótlega til ömmu. Að þú fengir hvíldina. Þessa stund mun ég geyma í hjarta mínu um ókomna tíð.
Þetta fallega miðvikudagskvöld fór afi, Maggi í Tungu, í sína hinstu sjóferð. Á himninum var dansandi ljósadýrð. Litrík norðurljósin lýstu upp fjörðinn. Fjörðinn sem afi þekkti manna best. Fjörðinn sem honum þótti svo vænt um. Ég taldi mér trú um að nú væri hann með ömmu, konunni sem hann elskaði heitt. Þau væru loks sameinuð, leiddust hönd í hönd og stigu dans í takt við norðurljósin.
Hvíl í friði elsku afi.
Þitt barnabarn,
Sigríður Etna
Marinósdóttir.