Guðný Halldóra Jónsdóttir fæddist 22. janúar 1935. Hún lést 21. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 1. desember 2022.

Í dag kveðjum við hana Guðnýju móðursystur mína. Ég held að hún hafi verið södd lífdaga og kvatt sátt við guð og menn.

Guðný var hluti af mínu lífi alla tíð, hún var ekki kona margra orða, svo það er margt sem við ekki vitum um hana. Ungri var henni komið í fóstur til skyldmenna, vegna skilnaðar foreldra hennar og erfiðra heimilisaðstæðna. Þar bjó hún við gott atlæti þar til móðir hennar hafði tök á að taka hana aftur til sín þá 8-9 ára gamla. Þá hafði móðir hennar gifst aftur og þær mæðgur ásamt eldri systur sem orðið hafði eftir hjá móður sinni fluttu vestur að Laugarlandi í Reykhólasveit. Guðbjörg eldri systirin, móðir mín, nú orðin 94 ára, man enn vel eftir ferðinni vestur, þær systur fóru saman í rútu á nýja heimilið. Guðný talaði alltaf fallega um sveitina sína og átti þar góða ævi, þótt aðstæður hafi verið frekar frumstæðar á okkar tíma mælikvarða, ekkert rafmagn eða rennandi vatn í húsinu, en heitar lindir við bæjardyrnar, sem meðal annars voru nýttar til húshitunar, þvo þvotta og setja upp litla sundlaug.

Sem ung stúlka kom hún aftur til Reykjavíkur, flutti til systur sinnar og fór að vinna fyrir sér, fyrst sem vinnukona m.a. hjá Sigmund Laufdal bakarameistara, og síðar sem afgreiðslustúlka í bakaríinu. Þar man ég vel eftir henni, það var svo gaman að koma í bakaríið og fá snúð! Guðný bjó hjá foreldrum mínum í Langagerðinu, fyrst ein en svo með Helgu Björk dóttur sína, hún fór þó á sumrum vestur sem kaupakona. Þar til hún kynntist Stefáni, giftist honum og flutti á Framnesveginn. Ég man að það var kaffiveisla í fjölskylduhúsinu í Langagerðinu þegar þau giftu sig.

Áfram var mikið samband á milli fjölskyldnanna, farið saman í útilegur, á þorrablót og árshátíðir, seinna til útlanda og í sumarbústað foreldra minna þar sem Guðný og Stebbi áttu sitt herbergi. Mjög kært var á milli þeirra systra alla tíð og gátu þær rætt málin endalaust langt fram á nótt.

Guðný hljóp undir bagga með mér og mínum manni og gætti dóttur okkar nokkurra vikna gamallar um skeið. Sú stutta var ansi óvær og vakti allar nætur, svo hún svaf gjarnan vært þegar mætt var með hana í pössunina. Þegar við svo ætluðum að greiða Guðnýju fyrir barnagæsluna sagðist hún ekki taka greiðslu fyrir stæði barnavagnsins í portinu.

Guðný var mjög barngóð enda fór hún að vinna á leikskólanum Hagaborg þegar synirnir Óskar Ingi og Kjartan voru komnir vel á legg, og þar vann hún til starfsloka.

Hún var líka mikill kattavinur, átti alltaf ketti og þeir voru sko vel haldnir. Hannyrðir léku í höndum hennar og prjónaði hún meðal annars dúkkustráka og –stelpur, einnig jólasveinadúkkur í tugatali og gaf, en seldi einnig nokkra.

Síðustu árin voru henni erfið þegar elli kerling bankaði upp á, en ekki kvartaði hún, vildi sjálf fara á hjúkrunarheimili þegar hún fann að heilsan leyfði ekki lengur að hún væri ein í húsinu sínu.

Ég þakka Guðnýju tryggð og vináttu við mig og mitt fólk alla tíð.

Afkomendum og ættingjum öllum votta ég innilega samúð.

Blessuð sé minning Guðnýjar Halldóru Jónsdóttur.

Jóna S.

Sigurbjartsdóttir.

„Sæl lambið mitt“ var undanfari margra lítilla kossa á kinn í hvert sinn sem við hittumst. Það skipti ekki máli þótt ég væri orðin fullorðin, ég var enn litla lambið í augum Guðnýjar ömmusystur. Guðný var einstök á svo margan hátt. Hún virtist svo lítil og brothætt en í raun var hún ólseig og lét ekki auðveldlega bugast. Hún lærbrotnaði til dæmis tvisvar um ævina en lagði sig fram við það að reyna að sparka glettnislega í mig á spítalanum til að sýna mér að hún væri jú enn í fullu fjöri. Guðný var lítillát og hljóðlát en hnyttin í tilsvörum, hreinskilin og skemmtileg. Einhverju sinni mætti hún ekki á frænkukvöld og ég minntist á það við hana næst þegar ég sá hana. „Æi já, ég bara nennti ekki,“ var svarið hennar Guðnýjar. Það kom frá hjartanu og enginn leikaraskapur fólginn í því. Þannig var Guðný frænka. Hrein og bein og ég minnist hennar með svo mikilli hlýju að hún er svo gott sem áþreifanleg.

Knús og margir litlir kossar á kinn inn í nýjar víddir.

Þín frænka,

Eygló Ida.