Friðrik Pétur Sigurðsson fæddist í Reykjavík 21. desember 1953. Hann lést á líknardeild Landspítalans 22. nóvember 2022.

Þriggja vikna kom Friðrik til Bolungarvíkur til kjörforeldra sinna, Hólmfríðar Vilhelmínu Hafliðadóttur, f. 29. ágúst 1923, d. 2. október 2014 og Sigurðar Egils Friðrikssonar, f. 14. september 1911, d. 17. febrúar 1991. Móðir Friðriks var Anna Sigríður Þorláksdóttir, f. 11. júní 1937, d. 14. október 2006. Systir hans sammæðra er Sædís Gísladóttir, f. 26. nóvember 1963, gift Garðari Skarphéðinssyni, f. 30. nóv. 1962. Þeirra synir eru Gísli og Ingvar. Systir Friðriks, dóttir Sigurðar Friðrikssonar og fyrri konu hans Guðrúnar Guðfinnsdóttur, er Kristín, f. 14. september 1935. Maður hennar er Benedikt Guðbrandsson, f. 13. júní 1933 og þeirra börn Guðrún Inga og Guðbrandur. Friðrik var ókvæntur og barnlaus.

Friðrik ólst upp í Bolungarvík til nítján ára aldurs en fluttist þá á höfuðborgarsvæðið þar sem hann hefur búið síðan. Hann stundaði ýmis störf, var lengst af leigubílstjóri en vann einnig við sitt helsta áhugamál, stangveiðina.

Útför Friðriks fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Fyrir rúmum mánuði kvaddi hann mig með bjartsýnina að vopni. Ætlaði að vinna þetta stríð og verða að minnsta kosti sjötíu og fimm ára. En vonin brást og krabbameinið tók af honum öll völd og baráttan brött og óvægin. Einmitt þegar lífið brosti við honum. Traustir vinir og örugg búseta. Veiðiferðir og fluguhnýtingar í fallegu íbúðinni sinni með mögnuðu útsýni. Í húsinu var hann vel liðinn, kynntist mörgum og eignaðist einstakan sálufélaga í frænku sinni og vinkonu, Erlen, sem hélt í hönd hans til hinstu stundar. Þá var það mikil gæfa fyrir hann að Sædís, litla systir, skyldi finna bróður sinn fyrir aldarfjórðungi.

Frændi minn átti sín æskuár hjá móðursystur minni og manni hennar og dvaldi stundum hjá Stínu, stóru systur. Milli fjölskyldna okkar var mikill samgangur og vinskapur. Friðrik var velkomið barn, einstaklega fallegur og hugmyndaríkur. Hans leiksvæði var aðallega Grundirnar með góðum félögum og vinum. Friðrik gat farið sínar eigin leiðir, dundaði sér snemma einn við veiðar í lækjum og ám. En svo hófst skólagangan og fljótlega eineltið sem stóð yfir í mörg ár. Hætti að hlakka til að fara í skólann, í staðinn kvíði og skólafælni. Í þá daga voru úrræðin einföld, fórnarlambið skyldi víkja. Þannig lauk hann skólagöngu sinni á fimmtánda ári. Með aukinni þekkingu um afleiðingar eineltis vitum við nú að einelti í barnæsku getur markað djúp spor og haft mikil áhrif.

Bestu stundir frænda míns voru úti í náttúrunni við stangveiðar sem hann stundaði af kappi og var með eindæmum fiskinn. Kom stundum færandi hendi með fenginn og á tyllidögum gátu gular rósir fylgt með. Stundum fengum við að fljóta með í veiðiferðir þar sem við fylgdumst með veiðiklónni Friðriki og höfðum ekki roð við honum. Fjölskylda mín kveður kæran frænda sem var svo einstaklega barngóður. Innilegar samúðarkveðjur til Stínu, Sædísar, Erlenar og fjölskyldna þeirra.

Árný Elíasdóttir (Adda).