Jóna Kristjana Guðmundsdóttir fæddist 31. mars 1931. Hún lést 18. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 2. desember 2022.

Elsku amma mín, nú hefur þú kvatt þennan heim og það er svo sárt að þurfa að kveðja þig. Ég er sorgmædd og mikið á ég eftir að sakna þín en um leið sitja eftir óendanlega dýrmætar minningar um dásamlega samveru og einstaklega gott samband okkar.

Það voru forréttindi að fá að alast upp svona nálægt þér, ég var alltaf velkomin í heimsókn og við áttum margar góðar og skemmtilegar stundir saman. Það var svo gott að koma til þín á Boðaslóðina, gæða sér á heimsins bestu pönnukökum og spjalla um alla heima og geima.

Að fá að gista um helgar voru gæðastundir og þá brölluðum við ýmislegt saman og alltaf var nóg af góðgæti í boði.

Það var einstök tilfinning að vera hjá þér. Öryggi, hlýja, umhyggja og gleði einkenndu samveruna með þér.

Á hátíðarstundum var samvera okkur báðum mikilvæg. Þú komst upp þeirri skemmtilegu jólahefð að fjölskyldan hittist hjá þér á jóladag og spilaði bingó. Þú varst bingóstjórinn, last upp tölur og útdeildir vinningum sem þú hafðir útbúið og áttum við öll góða stund saman. Það kom þó fyrir að gamanið kárnaði þegar keppnisskap sumra þátttakenda varð of mikið.

Og amma mín, alltaf varstu með og samgladdist mér á stóru stundunum í lífi mínu.

Ávallt hafðir þú áhuga á hvernig gengi hjá mér og hvað ég væri að gera og fylgdist vel með áskorunum og sigrum í lífi mínu.

Það verður skrítið að geta ekki hitt þig, þig sem alltaf hefur verið í lífi mínu, næst þegar ég kem til Íslands og því dýrmætara er það mér að hafa fengið tækifæri til að heimsækja þig í september og eiga góða stund með þér.

Þakka þér elsku amma mín fyrir allar góðu og skemmtilegu samverustundirnar, þolinmæðina, kærleikann og allt sem þú kenndir mér. Minning þín mun ávallt lifa í hjarta mínu.

Þín

Díana Dögg.

Elsku amma Jóna.

Takk fyrir allar yndislegu stundirnar saman í gegnum árin.

Takk fyrir brosið þitt og hláturinn. Takk fyrir hlýjuna og faðmlögin. Takk fyrir sjónvarpsglápið og bíltúrana. Takk fyrir óendanlegu umhyggjuna og kærleikann. Takk fyrir allar minningarnar sem ég mun aldrei gleyma. Takk fyrir að vera þú.

Orð fá ekki lýst hversu erfitt er að kveðja þig yfir í Sumarlandið.

Við hittumst aftur þar þegar kominn er minn tími til að kveðja.

Ég elska þig, amma Jóna.

Guð geymi þig. Þinn

Fannar Freyr.