Katrín Margrét Ólafsdóttir fæddist 21. febrúar 1942. Hún lést 18. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 2. desember 2022.

Tíðin rennur sum

streymur í á,

titt munnu bylgjurnar falla;

litlum báti rekst eg á,

áraleysur at kalla.

(Friðrík Petersen 1853-1917)

Þetta er upphafserindið í ljóði sem vel á við þegar Katrín Margrét Ólafsdóttir, nefnd Dadý, hefur „lagt inn árarnar“ og „fer til gravar“ eins og tekið er til orða hér í Færeyjum.

Ég kynntist manninum hennar, Matta, en hann var skipstjóri hjá Eimskip þegar ég fluttist til Færeyja 1991. Hún og Matti voru nánast eitt og af því sama kynntist ég henni líka og æ betur alla tíð síðan og síðast í maí þegar ég heimsótti þau hjónakornin.

Dadý var drottning fiðrilda. Fiðrildi eru með fallegri og yndislegri fyrirbrigðum sem finnast hér á jörð. Flögra gjarna um sjálfum sér og öðrum til ánægju. Notaleg, brosmild og einfaldlega afskaplega skemmtileg og falleg manneskja. Flestir sem höfðu verið í heimsókn fóru þaðan léttir í lund.

Dagarnir í Moskvu, umleið 1998, var upplifun sem aldrei gleymist. Þessi sómahjón heimsóttu mig þar. Menning og listir út um allan bæ er ekki svo galið þegar Dadý var með í för.

Síðustu samverustundir á Kristnibraut skellti húsfreyjan á eina rjómatertu sem var óhefðbundin í útliti. Handbragðið aðeins breytt þegar tertugerðarkonan er langt gengin með parkinson. Matti hafði bakað botninn. Þegar tertan kom á borðið líktist hún fínasta abstraktmálverki sem átti jú vel við þetta heimili.

Við Katrín heilsuðumst afskaplega innilega og kvöddust enn innilegar. Þau augnablik eru mér dýrmæt minni.

Ég var beðinn að heilsa frá vinum hér í Færeyjum. Zacharías, Trøndur, Anker, Jan og Fríða eru nefnd. Lofaði að koma. Listasafnið þakkar gjöfina góðu og heilsar líka.

Það á vel við að enda á seinasta erindinu í „Tíminn líður eins og straumur í á“:

Tíðin rennur sum streymur í á

fram í Harrans navni!

Lítlum báti eri eg á, –

himnastrond fyri stavni.

(Friðrik Petersen 1853-1917)

Jóhann Valbjörn Long Ólafsson.

Katrínu Ólafsdóttur kynntist ég fyrst þegar hún var innan við tvítugt og hún og Matthías Matthíasson bernskuvinur minn voru að draga sig saman, og fljótlega varð hún órofa hluti af vinahópnum úr Laugarásnum. Hópurinn tvístraðist þegar á leið, en við héldum sambandi með gagnkvæmum matarboðum, þar sem Katrín blómstraði. Hún var ljóðelsk, las fallega upp og hafði fallega söngrödd og hafði einstakt lag á að skapa ævintýraheim úr hvunndeginum. Ég man sérstaklega eftir einu boði á Jónsmessunótt þegar þau bjuggu í Breiðholtinu og hún leiddi gestina berfætta út í nálægan móa og við sungum Nú sefur jörðin sumargræn úti í bjartri sumarnóttinni.

Samband Matta og Dadýjar var eitt fallegasta hjónasamband sem ég hef kynnst. Þau voru algerir jafningjar, ræktuðu áhugamál sín um leið og þau meðtóku og nærðu áhugamál hins aðilans. Hún var lærð leikkona og gerði hann að forföllnum leikhúsáhugamanni, og djassáhugi hans skaut rótum í hennar brjósti. Myndlistaráhuginn var þeim sameiginlegur, og með tímanum komu þau sér upp mjög merkilegu safni samtímamyndlistar. Það lék orð á að í hvaða hafnarbæ sem Matti legði við bryggju tækist honum að finna bæði listasafn og djassklúbb, og þegar börnin voru komin á legg sigldi Dadý oft með honum, auk þess sem þau fóru saman fljúgandi í margar menningarferðir þegar skipstjórinn átti frí. Einnig komu þau sér upp í fyllingu tímans litlum kofa við Þingvallavatn sem þau nefndu Hosiló, sem varð Dadý mjög kær, ekki síst eftir að hún fór að finna fyrir lasleika.

Upp úr aldamótum greindist Dadý með Parkinson-sjúkdóminn, sem ágerðist smám saman, þannig að Matti hætti á sjónum fyrr en ætlað var til að annast um hana. Hún var lengi vel ákveðin í að láta sjúkdóminn ekki taka völdin. Þegar þau ferðuðust til New York og heimsóttu Museum of Modern Art neitaði hún að láta Matta aka sér um salina í hjólastól, þangað til hún fékk þá hugmynd að þau gætu skipst á. Stundum sæti hann í hjólastólnum og stundum hún!

Síðustu árin hrakaði Dadý mikið. Matti sinnti um hana af einstakri umhyggju. 21. febrúar hélt hún upp á áttræðisafmæli sitt með mikilli reisn ásamt öllu sínu nánasta fólki við undirleik Gunnars Gunnarssonar tengdasonar þeirra og Tómasar R. Einarssonar. Hún elskaði fjölskyldu sína öllu framar, og sú ást var sannarlega endurgoldin ásamt aðdáun á henni og elju við að annast hana og uppfylla allar hennar óskir. Í júní í sumar fór Dadý í hvíldarinnlögn á Grund, eða „Hilton“ eins og hún kallaði það sjálf í gríni, og þaðan átti hún ekki afturkvæmt. Heilsunni hrakaði dag frá degi og hún var orðin háð sterkum verkjalyfjum, en hugurinn var frjór og vakandi og húmorinn á sínum stað. Það er erfitt að átta sig á því að sá skæri logi blakti ekki lengur. Ástvinum hennar votta ég einlæga samúð.

Þorleifur Hauksson.