Gylfi Þorkelsson fæddist á Óspakseyri í Bitrufirði 4. júní 1946. Hann lést 13. nóvember 2022 á krabbameinsdeild 11G á Landspítalanum.

Foreldrar Gylfa voru Þorkell Guðmundsson frá Melum í Trékyllisvík, bóndi og kaupfélagsstjóri á Óspakseyri, síðar húsvörður hjá SÍS í Reykjavík, f. 3. apríl 1905, d. 31. janúar 1969, og Ástríður Ingibjörg Stefánsdóttir, húsfreyja frá Kleifum í Gilsfirði, f. 21. apríl 1904, d. 10. desember 1978.

Bræður Gylfa eru: 1) Sigurgeir, maki Freygerður Pálmadóttir; 2) Stefán Guðmundur, f. 21. apríl 1941, d. 6. september 1992; 3) Ingimar Heiðar, maki Jóhanna Pétursdóttir.

Gylfi kvæntist Sigríði Halldórsdóttur, f. 4. febrúar 1949, verslunarkonu, 23. nóvember 1974. Hún lést 15. ágúst 2021. Foreldrar Sigríðar voru Halldór Benjamín Ólason, f. 23. desember 1920 á Ísafirði, d. 20. nóvember 2007 í Reykjavík, rafvélavirkjameistari í Reykjavík, og Hulda Heiðrún Eyjólfsdóttir, f. 30. maí 1919 á Seyðisfirði, d. 6. ágúst 2014, húsfreyja.

Dóttir Gylfa og Sigríðar er Ásta Heiðrún, f. 29. júlí 1982 í Reykjavík, verkfræðingur. Fyrri sambýlismaður er Sverrir Bjarni Sigursveinsson. Þau eiga börnin Emmu Sigríði Sverrisdóttur, f. 23. september 2012, og Gylfa Sverrisson, f. 30. mars 2018.

Gylfi lauk samvinnuskólaprófi frá Bifröst árið 1966. Hann var bókari hjá Olíuverslun Íslands hf. 1966-1972, síðar kerfisfræðingur og deildarstjóri tölvudeildar þar 1972-1981 og kerfisfræðingur hjá Olíufélaginu hf. 1981-1983. Hann var forstöðumaður upplýsingatæknideildar Kassagerðar Reykjavíkur 1983-2007 og lauk starfsævinni sem sérfræðingur hjá Reiknistofu bankanna 2007-2013.

Útför Gylfa fór fram 23. nóvember í kyrrþey.

Elsku besti pabbi og afi. Engin orð ná yfir söknuðinn sem fylgir andláti þínu. Öllum undirstöðum í lífi mínu hefur verið kippt í burtu með fráfalli þínu og mömmu og ómögulegt að byggja nýjar. Þú varst alltaf kletturinn í mínu lífi, traustari pabba er erfitt að finna. Ég vildi óska að ég og afabörnin þín hefðum átt meiri tíma með þér. Emma og Gylfi fara á mis við mikið að alast ekki upp með ömmu og afa. Við huggum okkur við yndislegar minningar og vitandi að þú og mamma eruð saman á ný og vakið yfir okkur.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ásta Heiðrún, Emma Sigríður og Gylfi.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Gylfi Þorkelsson, yngsti bróðir minn, hefur lokið farsælli lífsgöngu sinni og heldur nú til móts við ástkæra eiginkonu sína sem lést fyrir rúmu ári.

Á kveðjustund koma minningarnar upp í hugann. Minningar frá uppvaxtarárum okkar fjögurra bræðra í sveitinni. Gylfi var góður bróðir, heilsteyptur og vandaður til orðs og æðis með einstaklega góða nærveru. Við bræður áttum því láni að fagna að alast upp í friðsælli sveit hjá elskulegum foreldrum okkar. Lífið var leikur með hæfilegri þátttöku í bústörfunum þess á milli. Athafnasvæði okkar í ævintýraleitinni var milli fjalls og fjöru og jafnvel út á fjörðinn þegar aldur og þroski leyfðu. Ég minnist sjóferða út í hólmann til þess að sinna æðarvarpinu eða vitja netanna sem áttu að fanga rauðmagann. Að sumarlagi fórum við á hestunum að sækja silung í netalögn sem við áttum í ánni innar í firðinum. Á Óspakseyri var hefðbundinn búskapur þess tíma, með sauðfé, nautgripi og hesta, en dráttarvélar voru varla komnar til sögunnar og hesturinn þarfasti þjónninn. Margar voru ferðirnar sem við Gylfi fórum saman með hestana klyfjaða heyböggum af útengjum eða túnum. Fyrir kom að baggarnir snöruðust af í bröttum brekkum og þá var gott að hafa bróður með. Börn og unglingar að sunnan, gjarnan frændur og frænkur, komu ávallt til sumardvalar, sem var okkur bæði kærkominn félagsskapur og sjálfsagt þroskandi á báða bóga. Þau tengsl hafa haldist í mörgum tilvikum. Á staðnum var verslunarrekstur kaupfélagsins sem faðir okkar stjórnaði, símstöð og pósthirðing fyrir sveitina í umsjón móður okkar og vorum við bræðurnir að sjálfsögðu boðnir og búnir að liðsinna þeim ef svo bar til. Á staðnum var einnig samkomuhús ungmennafélagsins og sóknarkirkja sveitarinnar. Af öllu þessu má ráða að oft var mikið umleikis hjá okkur og næg verkefni fyrir alla sem gátu lagt hönd á plóg. Þetta voru eftirminnilegir og ánægjulegir tímar í minningunni. Árið 1961 brugðu foreldrar okkar búi og settust að í Reykjavík, en við þrír eldri bræðurnir vorum þá fluttir að heiman til náms eða dvalar hér syðra. Gylfi hélt áfram námi sínu og lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1966.

Sumarið 1963 vorum við Gylfi samtíða á síldarvertíð á Siglufirði, en hann stundaði jafnan fjölbreytt störf í skólafríum. Má þar nefna framreiðslustörf á farþegaskipinu Gullfossi, húsamálun í Boston, vinnu hjá Símanum og fóðurverksmiðju á Suðurlandi.

Að námi loknu hóf Gylfi störf hjá Olíuverslun Íslands og lærði jafnframt kerfisfræði. Hann starfaði við tölvumál og upplýsingatækni hjá ýmsum aðilum til 2013 er hann fór á eftirlaun, en einnig sjálfstætt eftir það.

Gylfi kvæntist Sigríði Halldórsdóttur 1974. Þau voru glæsileg og samhent hjón og komu sér upp fallegu heimili sem ávallt var ánægjulegt að koma á.

Blessuð sé minning þeirra hjóna.

Dóttur þeirra, Ástu, og börnum hennar Emmu Sigríði og Gylfa votta ég mína dýpstu samúð.

Ingimar Heiðar Þorkelsson.

Það er með söknuði að við kveðjum Gylfa Þorkelsson, mág okkar og svila, sem eftir langa baráttu við krabbamein lést þann 13. nóvember sl. Gylfi og Sigríður systir mín áttu langt og farsælt hjónaband, en hún lést fyrir rúmu ári, sem var mikið áfall fyrir hann og Ástu dóttur þeirra.

Gylfi var vandaður maður og hafði áhuga fyrir öllum tækninýjungum og fylgdist vel með allri þróun nýrrar tækni og þá ekki síst öllu sem viðkom tölvumálum, enda starfaði hann við þróun þeirra mála hjá Olís, Kassagerðinni og Reiknistofu bankanna. Öll verkefni sem hann fékkst við leysti hann af mikilli samviskusemi og nákvæmni.

Gylfi og Sigga áttu fallegt heimili í Steinaseli 7 sem þau reistu sér af miklum dugnaði. Þangað var ávallt notalegt að koma og njóta góðra samvista með fjölskyldunni.

Þau hjónin höfðu mikið yndi af ferðalögum og þá ekki hvað síst til Flórída. Þessar ferðir skipulagði Gylfi af mikilli nákvæmni með löngum fyrirvara og nutu þau fjölskyldan þessara samverustunda alla tíð. Ríkur þáttur í þessum ferðalögum var áhugi Gylfa á að ljósmynda upplifanir þeirra hjóna á þessum ferðalögum og deila þeim með fjölskyldunni.

Það er mikið áfall fyrir Ástu einkadótturina og litlu afabörnin Emmu Sigríði og Gylfa að kveðja nú afa sinn, svo skömmu eftir að hafa misst ömmu sína. Við biðjum góðan guð að styðja þau og styrkja alla tíð um leið og við kveðjum góðan dreng, Gylfa Þorkelsson. Guð blessi minningu hans.

Valgerður og Helgi.

Ég kynntist fyrst Gylfa frænda mínum þegar ég var send í sveit sjö ára gömul. Það var algengt á þessum tíma að börn væru send til ættingja í sveitum landsins. Þorkell, móðurbróðir minn og faðir Gylfa, var stórbóndi á Óspakseyri í Bitrufirði. Við Gylfi vorum jafn gömul og hófst með okkur góður vinskapur þau sjö sumur sem ég dvaldi í sveitinni hjá fjölskyldu Gylfa. Vinátta sem entist fram að endalokum. Fjölskylda Gylfa hætti búskap þegar Gylfi var unglingur og flutti til Reykjavíkur. Eins og gefur að skilja var flutningurinn til borgarinnar mikill breytingatími fyrir Gylfa og fjölskylduna. Gylfi aðlagaðist fljótlega nýjum aðstæðum og þreifst í þessu nýja umhverfi. Gylfi sótti nám í Austurbæjarskólanum og hóf síðar nám við Samvinnuskólann á Bifröst. Gylfi var góður námsmaður og útskrifaðist með miklum sóma frá Bifröst.

Gylfi varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast yndislega eiginkonu, Sigríði, sem lést fyrir rúmlega ári. Þau voru ákaflega samhent hjón og áttu fallegt fyrirmyndarheimili. Ég naut gestrisni þeirra oft og tíðum þegar ég kom í heimsókn til Íslands. Gylfi og Sigríður voru svo gæfurík að eignast eina dóttur, Ástu Heiðrúnu. Ásta var ávallt sólargeisli þeirra hjóna svo og tvö barnabörn þeirra, Emma Sigríður og Gylfi. Ásta var þeim stoð og stytta í baráttu þeirra við sjúkdóminn sem endaði líf þeirra alltof snemma.

Eftir að ég giftist og flutti til Bandaríkjanna ung að aldri slitnuðu vinaböndin aldrei. Gylfa og Siggu þóttu gaman að ferðast og heimsóttu þau okkur ásamt Ástu dóttur þeirra. Ég og fjölskylda mín eigum ógleymanlegar minningar frá heimsóknum þeirra til okkar til bæði Oregon og Kaliforníu.

Gylfi var einstaklega traustur, ábyrgur og yfirvegaður maður. Hann var alltaf viljugur að rétta hjálparhönd til fólks ef þörf var fyrir hendi. Það stóð aldrei á honum ef ég þurfti á greiða að halda í heimsóknum til föðurlandsins. Gylfi var fróður maður um landsmál og ég á eftir að sakna tíðra samtala okkar. Það verður tómlegt að koma til Íslands og geta ekki lengur heimsótt Gylfa í Steinaselinu.

Elsku Ásta mín, hugur okkar er hjá þér og börnunum. Ég, Reed og fjölskyldur okkar sendum þér innilegar samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þig og hugga á þessum sorgartímum.

Megi minningar um góðan dreng lengi lifa.

Elísabet (Beta) frænka og

fjölskylda.

Gylfi var bekkjarbróðir okkar á Bifröst 1964-66.

Í minningunni mætti hann á Bifröst degi seinna en aðrir.

Dökkklæddur, dökkhærður og dularfullur, svolítið eins og Clint Eastwood.

Gylfi var hæglátur og lágmæltur en húmorinn dúaði undir niðri, brosmildur og hló oft dátt, svona inn í sig.

Við urðum svo vinnufélagar í Olíuverzlun Íslands í áratug eða þar um bil og á þeim tíma breyttist nafnið í Olís. Þetta var ógleymanlegur vinnustaður.

Gylfi vann í bókhaldinu og var hann nákvæmur, iðinn og þrautseigur. Þessir kostir hafa ráðið því að hann var valinn til að læra kerfisfræði á vegum fyrirtækisins til að halda einni fyrstu bókhaldstölvu (IBM gataspjaldavél) gangandi. Gylfi hellti sér í verkefnið og náði frábærum tökum á þessu fagi og sinnti síðan kerfisfræðum til starfsloka: hjá OLÍS, Kassagerð Reykjavíkur og loks Reiknistofu bankanna. Þegar Gylfi lagði eitthvað fyrir sig þá var það í lagi.

Gylfi var mikill tækjamaður, festi kaup á framandlegum hlutum og þá helst því besta fáanlega á hverjum tíma. „Vitlausasta sem ég gerði var að kaupa nýlegan Mustang Mach 1 glæsivagn frá US árið 1971. Varla pláss nema fyrir einn,“ sagði Gylfi við mig nýlega og hló sínum lágværa hlátri.

Gylfi kvæntist Sigríði Halldórsdóttur snyrtifræðingi, geislandi stúlku úr Vesturbænum, árið 1974. Þau hjón tóku virkan þátt í samkomum okkar bekkjarfélaga og voru jafnan glaðbeitt með í afmælisferðum bekkjarins m.a. til Parísar, Berlínar, Pétursborgar og Mallorca, og innlendum skemmtunum vítt og breitt.

Dóttir þeirra er Ásta Heiðrún verkfræðingur og börn hennar eru tvö: Emma Sigríður og Gylfi, enn ung að árum.

Gylfi veiktist fyrst árið 2018 en hristi það af sér. Síðar tók sig upp illvígt mein sem um síðir náði að fella þennan hugprúða dreng. Árið 2020 veiktist svo Sigga illa og lést innan tveggja ára. Söknuður Gylfa var mikill en hann hélt áfram sinni glímu þar til yfir lauk.

Við bekkjarfélagar í árgangi ´66 og makar minnumst góðs drengs og þeirra hjóna beggja og vottum Ástu, börnum hennar og öðrum aðstandendum samúð.

Fyrir hönd Bifrestinga ´66,

Guðjón Sigurðsson.