Ole Anton Bieltvedt: "600 hreinkálfar fórust veturinn 2018-2019 vegna þess að búið var að drepa mæður þeirra. Á því er byrjað 1. ágúst, þegar yngstu kálfar eru 7-8 vikna."

18. nóvember sl. skrifaði ég grein í blaðið með fyrirsögninni „Píslarganga saklausra og varnarlausra dýra“. Fjallaði ég þar um atburð sem varð í Noregi þar sem elgskálfur fannst ráfandi við þjóðveg með sundurskotið trýni og spýttist blóð út báðum megin.

Ég yfirfærði svo þetta á hreindýraveiðar hér.

Skv. veiðiskýrslum fyrir sumarið 2018 voru 33 þeirra hreindýra sem þá voru felld með gömul skotsár; höfðu verið skotin áður, væntanlega 2017, en tórðu, sennilega meira eða minna kvalin.

Þau dýr væru þá ótalin sem urðu fyrir skoti, komust undan veiðimanni en voru það illa særð að þau lifðu ekki veturinn af. Það gæti líka hafa verið umtalsverður fjöldi.

Ég minntist enn fremur á að ekki væru allir veiðimenn burðamiklir, þar væru líka konur á ferð, sumir neyttu áfengis í veiðiferðum, og væri trygging fyrir því að veiðimenn hittu í brjósthol dýrs, kannski úr 200 m fjarlægð, ekki alltaf gefin.

Ég bætti þeim upplýsingum við að ef norskar tölur um elgsveiðar væru yfirfærðar á hreindýraveiðar hér gætu 100-150 hreindýr hafa orðið fyrir skoti, áverkum og limlestingum á hverju ári án þess að drepast strax.

Ég tiltók svo þá frétt að Umhverfisstofnun hefði veitt leyfi til veiða á 170 hreindýrum á veiðisvæði 2 nú í sumar/haust en veiðimönnum aðeins tekist að fella 64 dýr. Væri þetta skýr vísbending um að talning dýra og veiðistýring Umhverfisstofnunar og Náttúrustofu Austurlands væri í alvarlegum ólestri.

Eins skrifaði ég þetta: „Ekki verður um hreindýraveiðar á Íslandi fjallað án þess að rifja það upp að um 600 hreinkálfar fórust veturinn 2018-2019, að mestu vegna þess að búið var að drepa mæður þeirra. Á því er byrjað 1. ágúst, þegar yngstu kálfar eru rétt 7-8 vikna. Standa varla í fæturna.“

Flestir sem búa að sæmilegu viti hafa væntanlega skilið að þarna beitti ég nokkuð líkingamáli þar sem ég vildi vekja athygli á því að kálfar eru mjög háðir mæðrum sínu með afkomu og líf, ekki bara með mjólk heldur líka með leiðbeiningar og vernd þegar vetrar.

Kálfar ráða illa við að grafa krafsholur til að komast í fæði þegar frystir og harðnar á dalnum. Þar þurfa stórir, þungir og beittir hófar fullvaxins dýrs, móður, að koma til.

Merkingin með framansögðu var því auðvitað sú að 7-8 vikna kálfar væru allt of óþroskaðir og burðalitlir til að standa á eigin fótum.

Hér má nú líka skjóta því inn að lengi vel var veiðireglan sú – einmitt út frá því að stjórnvöld skildu að 7-8 vikna kálfar, jafnvel mun eldri, væru ófærir um að sjá um sig sjálfir – að skjóta ætti kálf með móður.

Stjórnvöld urðu hins vegar að leggja þessa reglu af því gráðugir og harðsvíraðir veiðimenn reyndu mest að skjóta stærsta kálfinn, ekki kálf felldrar kýr, til að komast yfir meira kjöt.

Aftur yfir í grein mína frá 18. nóvember:

Ég lauk henni með tilvitnun í það að fagráð um velferð dýra, sem á að veita Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra ráðgjöf um stefnumótun og ákvarðanir varðandi dýravernd og dýravelferð, hafi í janúar 2020 mælst til þess við Umhverfisstofnun og ráðherra að hreinkýr yrðu ekki veiddar meðan þær væru mylkar, sem hefði þýtt að ekki hefði mátt veiða hreinkýr fyrr en 1. nóvember, þegar kálfar væru orðnir 20 vikna. Þessu hefðu veiðimenn, Umhverfisstofnun og ráðherra hafnað.

Hví er þessi fyrri grein og þetta allt rifjað upp hér?

Jú, 25. nóvember birtist svargrein í blaðinu eftir Árna nokkurn Árnason.

Árni þessi virðist þó umfram allt stórtækur veiðimaður enda segir hann þetta um sjálfan sig: „Ætli reynsla þeirra sem farið hafa þúsundir kílómetra um veiðislóðir sé ekki marktækari.“

Ætla má að hann hafi líka sært og drepið þúsundir dýra, en ekki af þörf heldur sennilega sér til skemmtunar og gleði, því maðurinn er vélstjóri að atvinnu.

Fyrirsögn svargreinarinnar er „Dramadrottning fer hamförum“. Þegar málstaður er magur grípa menn oft til stórra orða og belgings. Vélstjórinn talar um „tárvotar fabúleringar“. „Fabúlering“ er reyndar ekki til í íslensku máli, verður þar að fara í dönsku, en hvernig getur „uppspuni“, sem hann vill meina að hér sé á ferð, verið tárvotur? Uppspuni getur verið sorglegur, en aðeins menn tárvotir. Ég er hissa á blaðinu að prenta þetta bull.

Annað í svipuðum dúr og sumt verra

Flestu af dylgjum vélstjórans er svarað með greininni frá 18. nóvember og viðbótarfærslunum hér að ofan.

Vélstjórinn fullyrðir að það gerist „örsjaldan“ að dýr falli ekki við fyrsta skot. Orðrétt segir hann: „Auk þess eru með íslenskum veiðihópum vel vopnfærir veiðieftirlitsmenn sem sjá til þess að særð dýr fari ekki á flæking þá örsjaldan dýr fellur ekki í fyrsta skoti.“

Spyrja má þá vélstjórann hvar þessir vel vopnfæru veiðieftirlitsmenn voru sumarið 2017.

Annar málflutningur Árna Árnasonar, svo sem þvæla um að ég vilji ekki láta veiða rjúpur af því mér finnist fuglinn svo fallegur eða hugleiðing hans um hvort gefa ætti út sakavottorð fyrir dýr, er á lágu plani og ekki svara verður.

Ég læt lesendur um að dæma stórveiðimanninn Árna Árnason. Ætla má að hann hafi þúsundir saklausra og varnarlausra dýra á samviskunni. Án þarfar.

Ef menn þurfa að svara fyrir gjörðir sínar og sakir á hinsta degi vildi ég ekki vera í sporum vélstjórans þegar hans dagur rennur.

Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir.