Haukur Ágústsson: "Vonandi koma þeir sólbrúnir heim, þó að slíkt komi hvergi fram í opinberri dagskrá eða niðurstöðum og yfirlýsingum."

Loftslagsráðstefna UNFCCC (United Nations Framework Convention on Climate Change – Rammaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar), sem standa átti 6.-18. nóv. 2022 í Sharm el-Sheikh syðst á Sínaískaga í Egyptalandi, er að baki. Eins og venjulega gekk illa að ná lokaniðurstöðu, svo að ráðstefnan var framlengd um einn dag til þess að hamra saman einhvers konar samkomulag.

Skv. vefsíðunni carbonbrief.org skráðu yfir 33.000 þátttakendur sig á ráðstefnuna. Tæplega 12.000 komu á hana á vegum NGO-samtaka (Non-Government Organisation – Samtök ótengd stjórnvöldum, sem flest njóta þó velvilja og jafnvel fjárstuðnings þeirra) og fjölmiðlaliðið taldi á milli 3.300 og 3.500 manns. Að auki mætti fjöldinn allur af áróðurs- og áhugafólki um loftslagsmál – í heild um 40.000 manns.

Fátæklegur árangur

Eins og venjulega stóð til að ræða loftslagsbreytingarnar og þær ráðstafanir sem haldið er fram að til þurfi að grípa til þess að hamla þeim. Daninn Asger Aamund, fjölmiðlamaður og samfélagsrýnir, bendir á það að ráðstefnan skilaði næsta litlu í þessu efni. Aamund segir olíuframleiðsluríkin í heiminum lítið hafa viljað draga úr framleiðslu sinni. Þau hafi jafnvel talið sig stuðla að framförum í þróunarríkjum heimsins með þeirri olíu og því gasi sem þau vinna úr jörðu vegna þess að nýting þessara orkugjafa sé forsenda uppbyggingar þeirra. Reyndar eru fleiri á því máli, s.s. orkufræðingurinn Alex Epstein, stofnandi Center for Industrial Progress (miðstöð framfara í iðnaði) og höfundur metsölubókarinnar The Moral Case for Fossil Fuels (Siðræn rök fyrir jarðefnaeldsneyti). Afstaða olíu- og gasframleiðenda kann að vera ein ástæða þess að lítið er minnst á olíu og gas á lokaályktuninni, en hins vegar farið fram á að notkun kola verði minnkuð. (Epstein telur reyndar að notkun kola líka sé sjálfsögð og nauðsynleg.)

Er leiðin röng?

Loftslagsbreytingasinnar hafa þröngvað vindverum og sólarrafhlöðum upp á fólk í þróunarríkjum, s.s. í Afríku og á Indlandi. Þar hefur reyndar komið í ljós, eins og annars staðar, að vindur blæs ekki ætíð og að sólin gengur til viðar. Endurnýjanlega orkan, sem fást átti með vindi og sól, hefur því ekki reynst áreiðanleg frekar en t.d. í Þýskalandi eða á Bretlandseyjum heldur útópískir draumórar.

Í þessu efni er rétt að árétta að Kínverjar og Indverjar, sem eru á meðal helstu mengunarvalda í heiminum og teljast til þróunarríkja, gera sér fulla grein fyrir nauðsyn nýtingar jarðefnaeldsneytis. Skv. vefsíðunni statista.com eru í Kína 1.110 kolaorkuver árið 2022 og 285 á Indlandi. Bæði þessi ríki leggja mikla áherslu á byggingu enn fleiri kolaorkuvera til rafmagnsframleiðslu svo að ekki minnkar losunin.

Reyndar má líta nær, því orkukreppan í Evrópu, sem á grunnorsök sína í „grænu byltingunni“ sem staðið hefur undanfarna áratugi en ekki í stríðinu í Úkraínu, eins og fram hefur verið haldið, hefur leitt til þess að kolaorkuver sem aflögð höfðu verið eru endurræst, ný byggð og meira að segja vindmyllugörðum fargað til þess að ná til kola. T.d. hefur námufyrirtækið Garzweiler í Nordrhein-Westfalen í Þýskalandi fellt myllur í vindmyllugarði sem nefndur er Keyenberg til þess að komast að brúnkolum og meira að segja keypt upp hús manna og rifið þau á vinnslusvæðinu.

Vonbrigði

Hollendingurinn Frans Timmermans, sendiherra ESB á COP27-ráðstefnunni, var ekki ýkja ánægður. Í lokaorðum sínum sagði hann að almennt hefði árangur af ráðstefnunni verið óverulegur. Fulltrúi Breta, Alok Sharma, tók í sama streng og nýtti sér orðalag Antóníós Guterres þegar hann sagði markmiðin í loftslagsmálum vera í „gjörgæslu“.

Meira að segja höfuðrósin, bóta- eða aflátssjóðurinn sem framar öðru er talinn skreyta niðurstöðu COP27, virðist vera fölnuð fædd. Það fréttist ekki ýkja mikið af ákveðnum loforðum um framlög. Reyndar heitir ráðherra í ríkisstjórn örþjóðar á norðurhveli fé. Sú þjóð á þó sem næst engan þátt í fyrri tíðar eða yfirstandandi losun gróðurhúsalofttegunda og kom hvergi nærri iðnbyltingunni, sem hófst á 19. öldinni. Hún ætti því ekki að teljast til hinna sótugu sökudólga á meðal vestrænna þjóða. En ráðherrann sér máske tækifæri til sjálfsupphafningar með fjáraustri úr vösum almennings þótt ekkert lýðræðislegt umboð liggi fyrir.

Sólböð og siglingar

Sharm el-Sheikh er mikill ferðamannastaður og skartar fjölda hótela og skemmtistaða. Ekki er á það minnst sem hluta af markmiðum COP27, en svo virðist sem helsti árangurinn af ráðstefnunni sé sá að hún hafi reynst drjúg tekjulind fyrir ferðamannaiðnaðinn. Allir þurftu að gista, næra sig og létta sér upp á kaffihúsum og í útsýnisferðum, eins og gerði a.m.k. einn hinna rúmlega 40 íslensku þátttakenda, sem ræddi við fréttamenn íslenska ríkisútvarpsins og virtist vera í skemmtisiglingu. Þeir hafa án efa verið fleiri sem sigldu um, ráfuðu um, sóluðu sig og óðu í sjónum, allt á kostnað skattborgara landa sinna. Vonandi koma þeir sólbrúnir heim, þó að slíkt hafi hvorki verið á opinberri dagskrá né komi fram í birtum niðurstöðum og yfirlýsingum.

Höfundur er fyrrverandi kennari.