Síld Hægt er að fá tilbúna síld í krukkum í búð en ekki óunnin flök.
Síld Hægt er að fá tilbúna síld í krukkum í búð en ekki óunnin flök. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Fisksalar geta ekki lengur fengið saltsíldarflök til að selja áfram til viðskiptavina sem vilja sjálfir útbúa sína síld á aðventunni eða um jólin. Allir síldarverkendur eru hættir slíkri sölu og leggja áherslu á söltun eða frystingu fyrir erlenda markaði

Fisksalar geta ekki lengur fengið saltsíldarflök til að selja áfram til viðskiptavina sem vilja sjálfir útbúa sína síld á aðventunni eða um jólin. Allir síldarverkendur eru hættir slíkri sölu og leggja áherslu á söltun eða frystingu fyrir erlenda markaði.

Ágúst Tómasson, fisksali í Trönuhrauni 9 í Hafnarfirði, segir skítt að geta ekki fengið þessa vöru lengur. Hann segir að enn séu margir viðskiptavinir sem vilji útbúa sinn kryddlög sjálfir og hantera síldina eftir eigin hefðum og nefnir fólk frá Póllandi í því sambandi. Það borði síld á jólum.

Segir Ágúst að hann hafi verið að kaupa 4-5 tæplega 100 kílóa tunnur á ári og þykist vita að aðrir fisksalar hafi einnig keypt síldarflök. Einnig hafi líknarfélög keypt síld til að selja í fjáröflunarskyni. Segist hann hafa keypt tunnu í október en pöntun hans í nóvember hafi verið synjað. Áður fyrr hafi verið hægt að kaupa síld frá verkendum um allt land en síðustu árin hafi aðeins verið hægt að kaupa af Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að fyrirtækið sé ekki á þessum markaði, að selja eina eða tvær tunnur af flökum, og hafi ekki verið í mörg ár. Loðnuvinnslan sé að selja 20 til 25 þúsund tunnur af saltsíld á erlendum mörkuðum á ári og þar séu kaupendur að taka mörg þúsund tunnur hver. Hann tekur fram að tvö fyrirtæki, Ora og Búlandstindur, kaupi verulegt magn af síld og vinni og pakki fyrir neytendamarkað. helgi@mbl.is