[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ísland kemur vel út í samanburði milli Evrópuþjóða á flestum mælikvörðum sem vitna um heilsu og líðan nýbura og mæðra. „Tíðni alvarlegra atburða á borð við andvana fæðingar, nýbura- og ungbarnadauða er lág á Íslandi. Dregið hefur úr fjölburafæðingum hérlendis í kjölfar breytinga á verklagi við tæknifrjóvganir, sem aftur dregur úr áhættu samfara fjölburameðgöngum. Lengi hefur verið þekkt að íslensk börn fæðast óvenjulega stór en ástæða þess er að mörgu leyti óljós. Tíðni inngripa í fæðingar á Íslandi er með því lægsta sem sést í Evrópu þrátt fyrir háa tíðni þungburafæðinga,“ segir í samantekt í nýútkominni grein í Talnabrunni landlæknisembættisins.

Í greininni fjalla höfundarnir um niðurstöður skýrslu Euro-Peristat um heilsu og líðan nýbura og mæðra í Evrópu á árunum 2015-2019 og meta stöðu Íslands í þeim samanburði. Þar kemur m.a. í ljós að tíðni keisaraskurða var lág á Íslandi eða 16,6% sem er svipað hlutfall og í Noregi og er í takt við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Hæst var keisaratíðnin á Kýpur þar sem rúmlega helmingur allra kvenna fæddi börn sín með keisaraskurði. Samtals enduðu 26% allra fæðinga í Evrópulöndum með keisaraskurði á árinu 2019. Í mörgum tilfellum velja verðandi mæður að fæða með keisaraskurði og var hlutfall valkeisaraskurða 7,8% á Íslandi en hlutfall bráðakeisara 8,8% á því ári.

Fjölburafæðingum hefur fækkað í allflestum löndum á seinustu árum en höfundar benda á að þeim fylgi aukin áhætta á ýmsum meðgöngutengdum kvillum og verri útkomum fæðinga. Því hefur verið markvisst unnið að því að fækka fjölda fósturvísa sem settir eru upp í tæknifrjóvgunum. Fjölburafæðingum hérlendis fækkaði úr því að vera 17,6 á hverjar eitt þúsund fæðandi konur árið 2015 niður í 15,7 á árinu 2019.

Í Talnabrunni er einnig að finna athyglisverðan samanburð á aldri mæðra og fjölda fæðinga en hér hefur meðalaldur þeirra hækkað á undanförnum árum, líkt og í öðrum Evrópulöndum. Á árinu 2019 var hlutfall mæðra hér á landi sem eignuðust barn eða börn eftir 34 ára aldur 21,2% og þar af voru 4,5% mæðranna fjörutíu ára eða eldri. Þetta hlutfall er svipað og í flestum löndum Evrópu. Þar skera nokkur lönd sig þó úr, sérstaklega í Suður-Evrópu. Um tíu prósent mæðra á Spáni eignuðust til að mynda börn eftir að þær voru orðnar 40 ára eða eldri. „Fjórar af hverjum tíu konum sem fæddu börn í löndum Suður-Evrópu (Spánn, Ítalía, Portúgal) voru 35 ára eða eldri. Í þessum löndum var um það bil helmingur allra fæðandi kvenna að eignast sitt fyrsta barn,“ segir í greininni.

Tíðni síðburafæðinga, fæðinga eftir 42 vikna meðgöngu, er mjög misjöfn milli landa. Hér á landi var tíðnin 1,9% af öllum lifandi fæddum börnum árið 2019 en hæst var hún í Svíþjóð eða 6% og í Noregi var hún 4,4%. Fram kemur að á Íslandi voru 6,6% lifandi fæddra barna fædd fyrir 37. viku meðgöngu en að jafnaði í Evrópu voru 7,1% lifandi fæddra barna fyrirburar.

Á Íslandi hefur hefur tíðni andvana fæðinga alla jafna verið lág. Svo var einnig á árunum 2015-2019 þegar tíðnin var á bilinu 1,7-3,2 á hver 1.000 fædd börn. Árið 2019 var tíðni nýbura- og ungbarnadauða hér 0,5-0,9 börn af 1.000, sem var með því lægsta sem sást í Evrópu.

Þungburafæðingar

Þyngst allra

„Lengi hefur verið þekkt að íslensk börn fæðast óvenjulega stór en ástæða þess er að mörgu leyti óljós,“ segir í greininni í Talnabrunni. Evrópusamanburður leiðir í ljós að tíðni þungburafæðinga, þ.e. þegar barn vegur 4.500 g eða meira við fæðingu, var hæst á Íslandi í öllum 29 Evrópulöndunum eða 4,8% allra fæðinga. Þetta er mun hærri tíðni en í öðrum löndum, Noregur kemur næst en þar vógu 3% barnanna 4.500 grömm eða meira við fæðingu. Var tíðni þungburafæðinga í Evrópu lág árið 2019 eða 1,1% allra lifandi fæddra barna. Rúmlega sex af hverjum 100 lifandi fæddum börnum í Evrópu vógu hins vegar undir 2.500 g við fæðingu en á Íslandi var tíðni léttbura 4,4%.