Eldingar „Mér fannst ég geta sótt kraft í þennan titil,“ segir Dagur Hjartarson um Ljósagang.
Eldingar „Mér fannst ég geta sótt kraft í þennan titil,“ segir Dagur Hjartarson um Ljósagang. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Í raun má segja að mig hafi dreymt þessa skáldsögu, því upphafið að henni er að mig dreymdi óljósan draum þar sem ég sá skáldsöguna fyrir mér,“ segir Dagur Hjartarson um skáldsöguna Ljósagang, sem er sú þriðja sem hann sendir frá sér.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Í raun má segja að mig hafi dreymt þessa skáldsögu, því upphafið að henni er að mig dreymdi óljósan draum þar sem ég sá skáldsöguna fyrir mér,“ segir Dagur Hjartarson um skáldsöguna Ljósagang, sem er sú þriðja sem hann sendir frá sér.

„Þessi draumur birtist mér á tímabili þar sem ég mér fannst ég vera orðinn kulnaður sem rithöfundur. Þarna áttaði ég mig á því að ég ætti að skrifa bók sem væri nær mínum kjarna, sem er ljóðlistin,“ segir Dagur og tekur fram að hann sem höfundur skrifi yfirleitt um hversdagleg atvik. „Mig langaði hins vegar til að skrifa bók sem væri ekki alveg í þeim veruleika sem við þekkjum,“ segir Dagur, en í nýju skáldsögunni hans mætast vísindaskáldskapurinn og ljóðrænan.

„Fyrsta setningin sem kom til mín er upphafssetning bókarinnar: „Niður aldanna var sérstaklega hávær kvöldið sem við kynntumst.“ Það er eitthvað kítlandi við þessa setningu, sem er í senn upphafin og hversdagsleg. Kannski má segja að þessi bók sé einhvers konar móteitur fyrir mig gegn veruleikanum, samtímis því sem ég fer í kjarnann á því sem heillar mig í skáldskap.“

Gliðnar í sundur í heilanum

Í ljósi þess að sögumaður er ungur myndlistarmaður með sérstakan áhuga á tunglinu á meðan kærasta hans er bókmenntafræðingur með ástríðu fyrir stjörnufræði. Fannst þér þú þurfa að leggjast í einhverjar rannsóknir á stjörnufræði og eðlisfræði til að skrifa bókina?

„Áður en ég byrjaði að skrifa bókina hafði ég verið að skoða myndlist Munchs og samhliða verið að lesa mér til um stjörnufræði og geiminn, þannig að það kom kannski bara óvart inn í bókina mína af þeim sökum. Ef maður upplifir tilvistarangist þá getur verið gott að fletta upp í geimvísindunum og skoða þær óravíddir sem þar birtast og reyna að ímynda sér fjarlægðir milli tveggja stjarnkerfa og þá gliðnar eitthvað í sundur í heilanum á manni. Maður öðlast einhverja auðmýkt og sér hlutina jafnvel í nýju ljósi,“ segir Dagur og tekur fram að svarthol og ráðgátur geimsins séu í sjálfu sér afar ljóðrænar og trompi alltaf skáldskapinn.

Hefur vísindaskáldskapur sem bókmenntagrein lengi verið þér hugleikinn?

„Nei, í raun ekki. Ég er bara byrjandi í vísindaskáldskap. En það er líka gott að vera byrjandi og mikið frelsi sem felst í því, í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur. Möguleikarnir felast í hinum opna huga byrjandans.“

Fannst þér sem höfundur snúið að finna jafnvægi í skrifunum milli ljóðrænunnar og vísindanna?

„Það er ekkert jafnvægi í þessari bók. Í raun má segja að bókin hafni jafnvæginu. Þetta er heimur þar sem fólk rýkur út í búð að kaupa ljóðabækur sem seljast upp. Þetta er heimur þar sem allt verður skáldlegra. Það er ekkert jafnvægi í viðlíkingunum. Þessi bók stenst engar kröfur um temprað myndmál heldur ögrar því og skoðar hvað gerist ef við förum yfir strikið. Er niður aldanna þar? Ég veit það ekki,“ segir Dagur og bendir í framhaldinu á að hann hafi alltaf séð persónur bókarinnar fyrir sér sem frosnar.

„Þessar persónur hreyfast ekki og eru ekki djúpar, heldur bara einhver andartök. Hafandi skrifað sálfræðilega skáldsögu áður fannst mér frelsandi að reyna ekki að búa til persónur sem hefðu sálfræðilega dýpt, heldur væru kannski frekar verkfæri fyrir viðlíkingar og ljóðrænu og pælingar,“ segir Dagur og tekur fram að texti bókarinnar hafi komið til hans í góðu flæði.

„Þetta var frekar auðveld bók að skrifa. Eina heimildavinnan sem ég þurfti að vinna fólst í að fara fram úr á morgnana, horfa út um gluggann og verða dálítið meyr yfir manneskjunni sem slíkri. Þegar ég dett í stuð er ég ekki lengi að skrifa eina bók, en svo er ég kannski ekki í stuði í tvö ár þar á milli.“

Það er óhætt að segja að Ljósagangur sé mikil samtímasaga og á sama tíma mætti flokka bókina undir hamfarabókmenntir. Var það eitthvað sem þér lá á hjarta?

„Já, greinilega. Þegar fyrsta lína bókarinnar kom til mín var ég ekki búinn að sjá að efnið tengist auðvitað hamförum, eldgosum og heimsfaraldri óbeint. Skrifin urðu þannig í ákveðnum skilningi flótti frá veruleika sem maður var kominn með upp í kok af. Maður er þannig að varpa veruleikanum frá sér í bjagaðri mynd.“

Trompar merkingu sína

En hvernig kom titillinn til þín?

„Ég rakst á orðið „ljósagang“ þegar ég var að glugga í Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson og þetta var ást við fyrstu sýn. Ljósagangur eru eldingar, en á sama tíma er þetta einstaklega lýsandi fyrir skáldskap. Þetta er orð sem trompar merkingu sína, verður einhvern veginn stærra. Mér fannst ég geta sótt kraft í þennan titil,“ segir Dagur.

Fyrr í þessum mánuði hlaust þú tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ljósagang. Kom það þér á óvart?

„Já, mjög. Mér finnst ótrúlega margar spennandi bækur að koma út fyrir þessi jólin, jafnt ljóðabækur, skáldsögur og smásagnasöfn. Ég er því afar þakklátur fyrir að hafa fengið tilnefningu,“ segir Dagur og jánkar því að hann voni að bókin rati til fleiri lesenda.

Ert þú farinn að huga að næsta verkefni?

„Já, ég er með þrjú skáldsagnahandrit í smíðum sem eru mislangt komin og veit enn ekki hvert þeirra fær athygli mína á næstu mánuðum. Ljósagangur ruddist fram fyrir þessi verkefni,“ segir Dagur og tekur fram að hann sé ekki enn búinn að finna í hvaða átt best sé að fara næst. „Ljósagangur er ákveðið ljóðrænt fyllerí og kannski þarf maður að láta renna af sér, en kannski er það ekkert góð hugmynd. Ég þarf aðeins að hreinsa hugann og sjá hvað gerist,“ segir Dagur og bendir á að hann yrki alltaf meðfram öðrum skrifum. „Það eru hversdagsleg lítil ljóð sem koma kannski einhvern tímann út á bók.“