Samstöðumótmæli Maður í Haag veifar íranska fánanum til að sýna samstöðu með mótmælendum.
Samstöðumótmæli Maður í Haag veifar íranska fánanum til að sýna samstöðu með mótmælendum. — AFP/Bart Maat
Írönsk stjórnvöld hengdu í gær Mohsen Shekari, mótmælanda sem hafði fengið dauðadóm fyrir þátttöku sína í mótmælunum miklu sem skekja nú landið. Shekari var gefið að sök að hafa tekið þátt í ólöglegum götulokunum og að hafa sært öryggisvörð með sveðju

Írönsk stjórnvöld hengdu í gær Mohsen Shekari, mótmælanda sem hafði fengið dauðadóm fyrir þátttöku sína í mótmælunum miklu sem skekja nú landið. Shekari var gefið að sök að hafa tekið þátt í ólöglegum götulokunum og að hafa sært öryggisvörð með sveðju.

Mannréttindasamtökin Iran Human Rights fordæmdu aftökuna og sagði Mahmood Amiry-Moghaddam, framkvæmdastjóri þeirra, að Shekari hefði hlotið dauðadóm sinn í sýndarréttarhöldum. Hvatti hann jafnframt alþjóðasamfélagið til þess að bregðast hart við aftökunni, ellegar yrðu fjöldaaftökur á mótmælendum daglegt brauð.

Byltingardómstóllinn í Teheran dæmdi Shekari til dauða í nóvember eftir að hafa hlýtt á sönnunargögn um að hann hefði ráðist að meðlimi Basjj-sveitanna með því að höggva hann í öxlina með sveðju og þurfti vörðurinn þrettán spor að sögn ákæruvaldsins. Var hann því sakfelldur um „brot gegn Guði“. Hæstiréttur Írans staðfesti svo dóminn í lok nóvembermánaðar.

Írönsk stjórnvöld hafa dæmt ellefu mótmælendur til dauða. Þar af voru fimm dæmdir á þriðjudaginn var. Amnesty International hefur fordæmt réttarhöldin yfir mótmælendum, þar sem niðurstaða þeirra sé fyrirframgefin.