Höfuðborgarsvæði Nóvemberumferðin sló gamla metið frá 2019.
Höfuðborgarsvæði Nóvemberumferðin sló gamla metið frá 2019. — Morgunblaðið/Hari
Met var slegið í umferðinni í nóvember og á það bæði við um umferðina á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu. Í fréttum á vef Vegagerðarinnar kemur fram að umferðin á hringveginum í nýliðnum mánuði, yfir 16 lykilteljara, var rúmlega 11% meiri en í sama mánuði á síðasta ári

Met var slegið í umferðinni í nóvember og á það bæði við um umferðina á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu. Í fréttum á vef Vegagerðarinnar kemur fram að umferðin á hringveginum í nýliðnum mánuði, yfir 16 lykilteljara, var rúmlega 11% meiri en í sama mánuði á síðasta ári. „Má ætla að gott veðurfar í nóvember hafi haft þarna veruleg áhrif. Með þessari aukningu var fyrra met, frá árinu 2019, slegið um rúmlega 8%,“ segir þar.

Á höfuðborgarsvæðinu reyndist umferðin í nóvember vera tæplega fimm prósentum meiri en í nóvember í fyrra. „Þessi aukning varð til þess að nýtt umferðarmet var slegið í nóvemberumferð á höfuðborgarsvæðinu en umferðin reyndist rúmlega þremur prósentum meiri en gamla nóvembermetið frá 2019,“ segir í umfjöllun Vegagerðarinnar. Ef litið er á einstaka landshluta kemur í ljós að umferðin á hringveginum jókst mest um Norðurland eða um tæplega 21%. Mældist aukin umferð yfir alla teljara og mest um teljara á Mýrdalssandi eða tæplega 27% en minnst um teljara við Úlfarsfell eða tæp 7%.

Á götum höfuðborgarsvæðisins var mjög svipuð aukning umferðar í nóvember á öllum mælisniðum eða frá 4,7% upp í 5,0%, mest um mælisnið ofan við Ártúnsbrekku en minnst um mælisnið á Reykjanesbraut.
omfr@mbl.is