Mataraðstoð KS hefur styrkt Fjölskylduhjálpina. Mæðrastyrksnefnd Rvk. úthlutar m.a. mat. Hjálparstarf kirkjunnar gefur inneignarkort o.fl.
Mataraðstoð KS hefur styrkt Fjölskylduhjálpina. Mæðrastyrksnefnd Rvk. úthlutar m.a. mat. Hjálparstarf kirkjunnar gefur inneignarkort o.fl. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hjálparsamtök veita þúsundum fjölskyldna og einstaklinga aðstoð í jólamánuðinum. Útlit er fyrir að fleiri leiti eftir aðstoð nú en í fyrra.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hjálparsamtök veita þúsundum fjölskyldna og einstaklinga aðstoð í jólamánuðinum. Útlit er fyrir að fleiri leiti eftir aðstoð nú en í fyrra.

„Það verða örugglega ekki færri en í fyrra sem fá aðstoð nú miðað við það sem búið er að skrá. Það er hægt að sækja um jólaaðstoð til 16. desember á netinu,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Starfið styrkti yfir 1.500 fjölskyldur fyrir jólin í fyrra en þá varð fækkun frá fyrra ári. Nú koma um 80% umsókna um aðstoð rafrænt. Auk þess eru umsóknardagar þar sem fólk kemur í eigin persónu og sækir um.

Hjálparstarfið úthlutar bæði jólagjöfum fyrir börn og inneignarkortum í matvöruverslunum. Upphæðin á inneignarkortinu miðast við fjölskyldustærð. Fólk sem nýtur aðstoðar fær SMS um hvenær það getur komið til að sækja hana. Það er gert til að það myndist ekki raðir.

„Á höfðborgarsvæðinu einblínum við á barnafjölskyldur og fólk sem á börn. Við vísum einstaklingum til mæðrastyrksnefnda og Fjölskylduhjálparinnar. Þeir sem eru yfir viðmiðunarmörkum fá ekki heldur aðstoð,“ segir Vilborg. Stuðst er við viðmið frá umboðsmanni skuldara og þarf að framvísa nýlegum launaseðli og útgjöldum.

„Við hvetjum fólk til að styðja okkur því við segjum ekki nei við neinn sem á rétt hjá okkur,“ segir Vilborg.

Hátt í 2.000 heimili nú

„Okkur finnst vera fjölgun frá því í fyrra. Úkraínufólkið hefur bæst við,“ segir Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Nefndin einbeitir sér að því að styðja fjölskyldur með börn og öryrkja og úthlutar jólamat og jólagjöfum handa börnunum. Matnum verður úthlutað í næstu viku og jólagjafaúthlutun lýkur 19. desember.

Um 1.500 heimili fengu jólaaðstoð í fyrra og er talið að þau verði hátt í 2.000 núna. Ekki var búið að fara yfir allar umsóknir í gær. Lokað hefur verið fyrir umsóknir á netinu. Umsækjendur þurfa að hafa búið í ár á Íslandi og leggja fram síðasta skattframtal. Úkraínufólkið er undanþegið kröfu um búsetutíma og skilar staðgreiðsluskrá.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur fékk 750.000 kr. styrk frá íslenska ríkinu nú og ekkert frá Reykjavíkurborg. Anna skrifaði forsætisráðherra og upplýsti hann um að jólaúthlutunin myndi kosta 45-50 milljónir króna.

Þörfin er gríðarmikil

„Það er mikill fjöldi kominn til landsins sem þarf aðstoð. Frá 1. mars til 1. september gáfum við 7.000 matargjafir,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. Í nóvember voru gefnar yfir 1.700 matargjafir á Suðurnesjum og 2.200 í Reykjavík.

Matargjafir eru á hverjum virkum degi í Reykjavík og á Suðurnesjum og koma allt að 100 manns í aukaúthlutun daglega. Reiknað er með að desember slái öll met.

Matvælafyrirtæki vinna með Fjölskylduhjálpinni gegn matarsóun og hafa gefið tugi tonna af matvöru í Matarbankann fremur en að farga henni. Maturinn er óskemmdur og fer strax til skjólstæðinga. Ásgerður segir að þetta sé í samræmi við hring­rásarhagkerfið. Henni finnst að ríkið mætti styðja þessa starfsemi betur en framlag þess er 750.000 krónur fyrir báðar stöðvar Fjölskylduhjálparinnar, en ekkert frá Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum.

Þetta eru 20. jólin sem Fjölskylduhjálpin gefur þurfandi mat, bæði fjölskyldufólki og einstaklingum. Þann 14. desember verður tekið við skráningum frá Íslendingum og daginn eftir frá útlendingum með erlent ríkisfang en þeir verða að hafa kennitölu.

„Við fáum þrjár stórar sendingar frá Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir jólin. KS sendir okkur fimm tonn af hefðbundnum mat, sem er stórkostlegt að fá,“ segir Ásgerður.

Höf.: Guðni Einarsson