Kjartan Már Kjartansson
Kjartan Már Kjartansson
„Staðan er miklu betri en við héldum að hún yrði. Að vísu var útlitið ágætt eftir sex mánaða uppgjör en ennþá betra eftir níu mánaða uppgjör,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um stöðu bæjarins í ljósi fjárhagsáætlunar sem nú hefur verið samþykkt fyrir næsta ár

„Staðan er miklu betri en við héldum að hún yrði. Að vísu var útlitið ágætt eftir sex mánaða uppgjör en ennþá betra eftir níu mánaða uppgjör,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um stöðu bæjarins í ljósi fjárhagsáætlunar sem nú hefur verið samþykkt fyrir næsta ár.

Staðan er betri en í mörgum öðrum stórum bæjarfélögum. Kjartan telur að aðalskýringin sé sú að atvinnuleysi hafi minnkað mikið og mikil atvinna í boði nú. Þar leikur ferðaþjónustan og Keflavíkurflugvöllur stórt hlutverk.

„Ef Keflavíkurflugvöllur væri einn vinnustaður, sem hann er ekki, er hann besti vinur okkar þegar vel gengur en óvinur okkar þegar samdráttur er, eins og var í heimsfaraldrinum. Nú er allt á réttri leið. Atvinnustigið nokkuð hátt, íbúum fjölgar hratt og útsvarstekjurnar streyma til okkar,“ segir Kjartan. Hann bætir því við fjármálin séu í betra horfi en áður og hægt að framkvæma án þess að taka lán.

Fjárhagsáætlunin var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Átta fulltrúar greiddu henni atkvæði sitt en þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Bæjarsjóður hefur 233 milljóna króna tekjur umfram gjöld og rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjanesbæjar er jákvæð um 925 milljónir kr.

Kjartan segir að stærsta framkvæmd bæjarins á næsta ári sé að ljúka byggingu íþróttamiðstöðvar og sundlaugar við Stapaskóla. Í framhaldinu verði byggt yfir yngstu árgangana þar, leikskóladeildirnar. Þá hefjast framkvæmdir við nýjan sex deilda leikskóla í Hlíðarhverfi á næsta ári og nýr leikskóli verði byggður í Dalshverfi 3. Áformað er að taka á móti 50-60 börnum í hann næsta haust. Kjartan bætir við að jafnframt verði unnið að viðgerðum á Myllubakkaskóla og Holtaskóla.

„Þetta eru aðalmálin, að koma skólahúsnæði í gott horf, bæði grunnskóla og leikskóla, til þess að börn nýrra íbúa fái góða aðstöðu,“ segir Kjartan. Nefna má fleiri atriði úr fjárhagsáætluninni. Þannig hefur verið ákveðið að hefja hvatagreiðslur fyrir 4-5 ára börn á næsta ári. helgi@mbl.is