Innköllunum á matvælum af ýmsum ástæðum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Herdís M. Guðjónsdóttir, fagsviðsstjóri innflutnings og innköllunar á matvælum hjá Matvælastofnun (MAST), segir að þetta eigi sér margar skýringar

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Innköllunum á matvælum af ýmsum ástæðum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Herdís M. Guðjónsdóttir, fagsviðsstjóri innflutnings og innköllunar á matvælum hjá Matvælastofnun (MAST), segir að þetta eigi sér margar skýringar.

„Það getur til dæmis uppgötvast allt í einu sóttvarnarefni, sem ekki er leyfilegt í matvælum, í kryddi. Þá hefur það áhrif á alla fæðukeðjuna, ekki bara kryddið sjálft heldur allt sem það hefur verið notað í. Þannig getur þurft að innkalla vörur frá ýmsum löndum,“ segir Herdís.

Heilbrigðiseftirlit geta einnig gert landsátak varðandi merkingar vöru. Þá getur komið í ljós að matvæli séu t.d. vanmerkt varðandi ofnæmi og óþol. Gefa þarf út tilkynningu um það. Mistök geta orðið í framleiðslu og t.d. vara með sykri verið merkt sem sykurlaus eða vara með glúteni merkt glútenfrí. Það getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar ef neytandi með heiftarlegt hnetuofnæmi fær t.d. óvart vöru með jarðhnetum vegna vanmerkingar.

Herdís nefnir einnig að óleyfileg efni eins og skordýraeitur geti mögulega fundist í lífrænum vörum. Samkvæmt túlkun á lífrænum matvælum má ekki nota nein varnarefni, t.d. gegn skordýrum eða myglu við gerð þeirra. Eins eru dæmi um ólögleg litarefni í mat eða sælgæti. Þá þarf að innkalla vörurnar.

MAST vaktar matarviðvörunarkerfi Evrópu (RASFF). Tilkynningum þaðan hefur fjölgað mikið eins og gjarnan er tekið fram, að sögn Herdísar. Einnig berast tilkynningar frá neytendum og framleiðendum, ef mistök koma í ljós.

Höf.: Guðni Einarsson