Eyjólfur Ó. Eyjólfsson skrifar á Boðnarmjöð: „Eitt afbrigði af ofstuðlun í limrum virðist vera að komast í tísku núna. Ég kalla það í gamni rasssig og segi að þannig limra sé rasssigin. Til að sýna þetta orti ég þessa rasssignu limru

Eyjólfur Ó. Eyjólfsson skrifar á Boðnarmjöð: „Eitt afbrigði af ofstuðlun í limrum virðist vera að komast í tísku núna. Ég kalla það í gamni rasssig og segi að þannig limra sé rasssigin. Til að sýna þetta orti ég þessa rasssignu limru. Vera má að ekki séu allir sammála mér og þætti mér þá gaman að heyra í þeim. Ég er ekki óskeikull fremur en aðrir menn sem ekki eru í pólitík.

Stuðlarnir stuða mig ekki

því stuðlana allvel ég þekki

og hef fyrir sið

til að herða þann klið

að hengja þá saman í hlekki.

Þarna eru tveir stuðlar í skammlínunum og lokalínan hefst á höfuðstaf eins og við er að búast. En þá kemur skyndilega aukastuðull í lokalínuna. HENGJA í HLEKKI. Auðvelt er að laga þetta og hafa lokalínuna svona; að setja þá saman í hlekki.

Og þá verður útkoman þessi:

Stuðlarnir stuða mig ekki

því stuðlana allvel ég þekki

og hef fyrir sið

til að herða þann klið

að setja þá saman í hlekki.

Oft er sterklegur dynur í stuðlum

en stundum við saman þeim kuðlum

og tökum að moka

sem taði í poka

og með tungunnar dýrmæti bruðlum“

Þórður Pálsson svarar:

Hún er rækilega rasssigin

rytjuleg og stórlygin

þó standi hún hér

hún stuðlana ber

ratar víst ei um einstígin.

Rétthend hrynhenda eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Fremri öllum fer um völlinn,

frár og sterkur þar að verki.

Liðið pressar, Leo Messi

– ljón og maður – eykur hraðann.

Loks á spretti leðurknetti

leikinn sparkar beint í markið.

Enn fer þessi augnablessun

oft á kreik og vinnur leiki.

„Víðförull ferðalangur“ eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Hjólbeinótt fádæma, Fríða,

í fjarlægum heimsálfum víða

í hættu sig lagði.

Heimkomin sagði:

„Flóðhesti er frábært að ríða.“

Í Rauðárdal í Ameríku orti Símon Dalaskáld:

Yfir landið eins og gandreið svífa

mikið illir Mormónar

meður villu kenningar.Sigurður Breiðfjörð kvað þegar skuldar var krafið:
Ég er snauður, enginn auður
er í hendi minni,
nærri dauður, drottins sauður,
í djöfuls veröldinni.
Jón Magnússon skáld kvað, þegar Guðmundur á Sandi og sr. Sigurður Einarsson, þá dósent, áttust við í útvarpinu:
Þó að fimur Siggi sé
og sveifli vígðum brandi
svitnar hann við að koma á kné
karlinum frá Sandi.
Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum kveður:
Bera urðum skin og skúr
skilningsþurrð og trega.
Þó hefur snurðum okkar úr
undist furðanlega.
Sigurey Júlíusdóttir (1901-1983) kvað:
Mikið er þín menntun klár
og miklar gáfur þínar.
Þú veist alveg upp á hár
ávirðingar mínar.
Steingrímur Thorsteinsson kvað:
Grundin vallar glituð hlær,
glóir á hjalla og rinda,
sólar halla blíður blær
blæs um fjallatinda.
Kolbeinn Högnason í Kollafirði kvað:
Oft hef ég saman orðum hnýtt
einum mér til gleði,
það er annars ekki nýtt
að Íslendingar kveði.