Stefán Vagn Stefánsson
Stefán Vagn Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Við höfum ítrekað lýst yfir áhyggjum af mönnun læknavakta utan höfuðborgarsvæðisins. Læknaskortur er ástand sem versnar hratt á næstu árum ef ekki verður brugðist við,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær eru nú viðsjár í Snæfellsbæ þar sem í haust hafa stundum liðið vikur án þess að læknir sé starfandi þar. Þetta er áhyggjuefni íbúa sem þurfa þegar svona stendur á að leita til læknis í Grundarfjörð eða Stykkishólm. Þess eru einnig dæmi að fólk í Snæfellsbæ fari til Reykjavíkur eftir hjálp, það eru um 200 km.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Við höfum ítrekað lýst yfir áhyggjum af mönnun læknavakta utan höfuðborgarsvæðisins. Læknaskortur er ástand sem versnar hratt á næstu árum ef ekki verður brugðist við,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær eru nú viðsjár í Snæfellsbæ þar sem í haust hafa stundum liðið vikur án þess að læknir sé starfandi þar. Þetta er áhyggjuefni íbúa sem þurfa þegar svona stendur á að leita til læknis í Grundarfjörð eða Stykkishólm. Þess eru einnig dæmi að fólk í Snæfellsbæ fari til Reykjavíkur eftir hjálp, það eru um 200 km.

Læknir kemur til starfa í Snæfellsbæ strax á nýju ári. Bent er þó á að sá geti ekki verið á sólarhringsvakt að staðaldri svo hugsa þurfi málið í stóru samhengi. „Stór hluti heilsugæslulækna á landsbyggðinni er að komast á aldur og er ekki fyrirsjáanlegt hvernig fylla eigi í þau skörð,“ segir Steinunn og bætir við að gjarnan eigi í hlut læknar sem hafi staðið vaktina í sínu héraði einir, meira og minna. Ólíklegt sé að yngra fólk sé tilbúið í störf við slíkar aðstæður. Á öðrum svæðum séu vissulega læknar sem ættu að eiga mörg ár eftir að störfum. Margir þeirra hafi hins vegar of stóran hóp skjólstæðinga, séu með þunga vaktabyrði og eiga torvelt með að fá afleysingar.

Ekki framtíðarhelt

„Núverandi fyrirkomulag er ekki framtíðarhelt,“ segir Steinunn. Læknafélag Íslands hafi því óskað þess við stjórnvöld að hámarksfjöldi íbúa á hvern heilsugæslulækni í dreifbýli verði skilgreindur til að tryggja eðlilegt vinnuálag. Eins þurfi að draga úr bindingu og vaktabyrði og bæta starfsskilyrði. Slíkt megi gera með bættri samræmdri símsvörun fyrir landið allt, auknum stuðningi annarra fagstétta, betri sjúkraskrárkerfum og fjarlækningum.

Steinunn Þórðardóttir segir að félaginu sé ekki kunnugt um staði sem eru læknislausir með sama hætti og Snæfellsbær. Hins vegar séu til staðir sem eingöngu er sinnt af læknum sem þangað koma tímabundið og þá sem verktakar. Slíkt sé brothætt þjónusta.

Hvetjandi leiðir

„Markmiðið hlýtur að vera að kjör og starfsaðstæður utan höfuðborgarsvæðis séu með þeim hætti að læknar geti hugsað sér að fastráða sig þar,” segir formaðurinn. Stefán Vagn Stefánsson er 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis og í forystu þingmanna þess. Hann segir þeim vel kunnugt um læknamál í Snæfellsbæ og athygli Willums Þór Þórssonar heilbrigðisráðherra á þeim hafi verið vakin. Allir séu áfram um að bæta úr og finna hvetjandi leiðir. Minna megi á að í reglum Menntasjóðs námsmanna sé heimild til þess að létta á námsskuldum fólks hafi það aflað sér sértækrar menntunar og fari til starfa þar sem sérstök þörf sé á þjónustu þess. Slíkt geti átt við í aðstæðum á Snæfellnesi.

Einnig þurfi að styrkja heilbrigðisþjónustu úti á landi, svo læknar þar sem eru einyrkjar hafi sterkt faglegt bakland.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson