Hlaup Gaman að hlusta á hlaðvarp á hlaupum.
Hlaup Gaman að hlusta á hlaðvarp á hlaupum. — Morgunblaðið/G. Rúnar
Tíminn er oft af skornum skammti í nútímasamfélagi og reynist mér oft erfitt að finna tíma til þess að fræðast um annað en það sem stendur í kennslubókum. Það er ekki langt síðan hlaðvörp fóru að njóta mikilla vinsælda og finnst mér það frábær leið…

Agla María Albertsdóttir

Tíminn er oft af skornum skammti í nútímasamfélagi og reynist mér oft erfitt að finna tíma til þess að fræðast um annað en það sem stendur í kennslubókum. Það er ekki langt síðan hlaðvörp fóru að njóta mikilla vinsælda og finnst mér það frábær leið til þess að viða að mér fróðleik á meðan ég geri eitthvað annað. Ég hef hlustað á hlaðvarpið 360 gráður heilsa í þónokkurn tíma þar sem Rafn Franklín fjallar um allt sem snýr að bættri heilsu, bættum árangri og betri líðan. Mér líður oft á tíðum eins og ég sé nýkomin úr kennslustund þegar ég hef hlustað á þátt.

Það getur verið einstaklega áhugavert að hlusta á allskyns sérfræðinga á sviði líkamsræktar og heilsu fjalla um sitt sérsvið og fá þannig nýjustu upplýsingar og vísindi beint í æð. Mataræði er stór þáttur í því að lifa heilbrigðum lífsstíl og hefur Rafn fengið marga sérfræðinga til sín í þáttinn með ólíkar skoðanir á mataræði og heilbrigðum lífstíl sem er einmitt það sem gerir þættina góða. Ef þig vantar nýtt hlaðvarp til þess að hlusta á í göngutúrnum eða þegar þú gengur frá þvottinum mæli ég hiklaust með hlaðvarpinu 360 gráður heilsa.

Höf.: Agla María Albertsdóttir