Ferðaþjónusta Hótelið er 6.000 fermetrar, 140 metrar að lengd og á fjórum hæðum. 40 herbergi verða á hótelinu.
Ferðaþjónusta Hótelið er 6.000 fermetrar, 140 metrar að lengd og á fjórum hæðum. 40 herbergi verða á hótelinu. — Tölvuteikning/Höfði Lodge
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Nýtt og glæsilegt lúxushótel, Höfði Lodge, er byrjað að taka á sig mynd uppi á Þengilshöfða, 50 metra háum kletti, 800 metrum frá Grenivík í Eyjafirði. Björgvin Björgvinsson, einn eigenda hótelsins, segir í samtali við Morgunblaðið að undirbúningurinn hafi tekið 8-9 ár. „Ég og samstarfsmaður minn, Jóhann Haukur Hafstein, byrjuðum með þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing árið 2013, fyrst á Ólafsfirði og síðar á Siglufirði, en markmiðið var alltaf að reisa okkar eigið hótel hér á Grenivík,“ segir Björgvin.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Nýtt og glæsilegt lúxushótel, Höfði Lodge, er byrjað að taka á sig mynd uppi á Þengilshöfða, 50 metra háum kletti, 800 metrum frá Grenivík í Eyjafirði. Björgvin Björgvinsson, einn eigenda hótelsins, segir í samtali við Morgunblaðið að undirbúningurinn hafi tekið 8-9 ár. „Ég og samstarfsmaður minn, Jóhann Haukur Hafstein, byrjuðum með þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing árið 2013, fyrst á Ólafsfirði og síðar á Siglufirði, en markmiðið var alltaf að reisa okkar eigið hótel hér á Grenivík,“ segir Björgvin.

Hótelið mun m.a. þjóna sem höfuðstöðvar þyrluskíðastarfseminnar.

Kartöflur ræktaðar

Björgvin segir að jörðin sem hótelið rísi á hafi verið í eigu fjölskyldu eiginkonu sinnar. Þar hafi áður verið stunduð kartöflurækt. „Ég vissi alltaf af þessari jörð. Tengdapabbi geymdi hesta þarna eftir að ræktun var hætt. Það var svo fyrir þremur árum að ég ákvað að ráðast í verkefnið. Aðdragandinn er búinn að vera mjög langur.“

Auk þyrluskíðanna ætlar hótelið að bjóða margvíslega aðra afþreyingu. „Við erum til dæmis að reisa 320 fermetra hesthús. Svo munum við bjóða upp á þyrlugönguferðir, hjólaferðir og fleira. Þetta verður sannkallað ævintýrahótel.“

Öll herbergi snúa að hafi

Björgvin segir það hafa tekið tímann sinn að teikna hótelið sem sé mjög flókið hús. „Öll herbergin snúa að hafinu. Allir fá einstakt útsýni. Hótelið er sex þúsund fermetrar og herbergin fjörutíu talsins. Þau eru öll mjög stór, þau fjögur stærstu eru 180 fermetrar en minnsta herbergið er um 40 fermetrar að stærð. Þetta verður eitt af flottustu hótelum á landinu,“ segir Björgvin.

Búið er að steypa upp skíðaherbergi og sundlaug m.a. „Við erum búin að steypa upp helminginn af neðstu hæðinni. Húsið sjálft er 140 metrar að lengd og á fjórum hæðum. Aftari byggingin er þrjár hæðir, en fremri hæðin er tvær hæðir. Það er gengið inn í miðja bygginguna. Inni verður golfhermir, risastórt spa, tvö fundarherbergi, mjög flottur veitingastaður og vínherbergi. Svo er veglegur bar á efstu hæðinni.“

900 fermetra starfsmannahús

Ennfremur er verið að reisa 900 fermetra hús fyrir starfsmenn. „Þar verða 25 herbergi og líkamsræktaraðstaða.“

Stefnt er að opnun hótelsins um áramótin 2023-2024. „Það verður að koma í ljós hvort við náum því.“

Spurður um kostnaðinn segist Björgvin ekki vilja tjá sig um hann. „Þetta er samt dýrara en upphaflega var áætlað,“ segir Björgvin og brosir.

Verkefnið er fullfjármagnað en eigandi Viking Heliskiing og hótelsins er fyrirtækið Höfði Development. „Það er að 51% hluta í minni eigu og Jóhanns en erlendur fjárfestir á 49%.“

40% Bandaríkjamenn

Spurður um markaðssetningu segir Björgvin að hún verði unnin með svipuðum hætti og gert hefur verið í þyrluskíðaferðunum. „Viðskiptavinir okkar eru 40% Bandaríkjamenn, 40% Evrópubúar og svo 20% héðan og þaðan annars staðar úr heiminum.“

Hann segir eftirspurn eftir hóteli sem þessu næga. „Skíðagestirnir okkar hafa verið að kalla eftir þessu. Við sjáum tækifæri í að koma til móts við fólkið. Það vantar almennt meira af svona gistingu á Íslandi og þeirri tegund afþreyingar sem við munum bjóðum upp á.“
Samhliða því sem húsið rís af grunni eru Björgvin og samstarfsfólk hans á fullu að panta húsgögn, hnífapör, bolla, og dýnur og annað sem tilheyrir lúxushóteli. Leit að starfsfólki stendur yfir og eru nú þegar nokkrir starfsmenn komnir að félaginu. „Það bætast alltaf fleiri og fleiri í hópinn,“ sagði Björgvin að lokum.

Höf.: Þóroddur Bjarnason