Robert Wessman, stofnandi Alvotech
Robert Wessman, stofnandi Alvotech
Gengi bréfa í líftækni­félaginu Alvo­tech hækkaði um rúm 20% í gær, á fyrsta degi viðskipta með bréfin á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Velta með bréfin var þó ekki mikil, 121 milljón króna. Hlutabréf Alvotech voru tekin til viðskipta í Nasdaq-kauphöllinni í New York 16

Gengi bréfa í líftækni­félaginu Alvo­tech hækkaði um rúm 20% í gær, á fyrsta degi viðskipta með bréfin á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Velta með bréfin var þó ekki mikil, 121 milljón króna.

Hlutabréf Alvotech voru tekin til viðskipta í Nasdaq-kauphöllinni í New York 16. júní sl. og á First North-markaðnum á Íslandi 23. júní. Félagið óskaði í lok ágúst eftir því að viðskipti með bréf í félaginu yrðu færð af Firsth North yfir á Aðalmarkað og var það samþykkt í lok síðustu viku.

Í tilkynningu sagði Róbert Wessmann, stjórnarformaður og stofnandi Alvo­tech að skráning á Aðalmarkað gerði félaginu kleift að laða að breiðari hóp fjárfesta hérlendis og erlendis.

Þrátt fyrir hækkunina í gær hafa bréf í Alvotech lækkað um 22,3% frá því að þau voru tekin til viðskipta á markaði hér á landi í sumar. Gengi bréfanna lækkaði strax í kjölfar skráningar, tók nokkuð stökk upp á við um miðjan ágúst en lækkaði svo jafnt og þétt þar til þau fóru að hækka aftur undir lok nóvember. Þá hefur gengi bréfa félagsins í kauphöllinni í New York einnig lækkað nokkuð, eða um 20% frá því að viðskipti hófust í júní.