Klippt á borða Davíð Þorláksson, Regína Ásvaldsdóttir, Bergþóra Þorkelsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Klippt á borða Davíð Þorláksson, Regína Ásvaldsdóttir, Bergþóra Þorkelsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Lokið er vinnu við seinni áfanga breikkunar og endurbóta á Vesturlandsvegi í gegnum Mosfellsbæ. Verkið hefur verið í vinnslu frá því í maí 2020 og lauk við formlega vígslu vegarins í gær. Áfangarnir eru tveir, samtals tæpir tveir kílómetrar frá Skarhólabraut að Reykjavegi

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Lokið er vinnu við seinni áfanga breikkunar og endurbóta á Vesturlandsvegi í gegnum Mosfellsbæ. Verkið hefur verið í vinnslu frá því í maí 2020 og lauk við formlega vígslu vegarins í gær.

Áfangarnir eru tveir, samtals tæpir tveir kílómetrar frá Skarhólabraut að Reykjavegi. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta afköst, koma í veg fyrir umferðartafir og auka umferðaröryggi. Framkvæmdirnar eru hluti af verkefnum samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Verktaki í báðum áföngum var Loftorka Reykjavík ehf.

Framkvæmdum við breikkun hringvegar á Kjalarnesi miðar vel og eru framkvæmdir þar á áætlun, að sögn Gunnars Sigurgeirssonar, verkfræðings hjá Vegagerðinni. Mikil vinna hefur farið í að fergja landið til að undirbúa vegstæðið. Þá hefur lögnum verið breytt þar sem Kjalarnesið er mikið atvinnusvæði og margar lagnir þarna undir. Unnið er að því í samvinnu við Reykjavíkurborg, Veitur og Gagnaveitu Reykjavíkur.

Nú er unnið við tvenn undirgöng og eitt hringtorg og þess vegna er umferðinni beint um hjáleið á þremur stöðum. Þá hefur gamla veginum með sjónum frá Grundarhverfi verið lokað vegna þess að verið er að malbika áningarstað. Verkinu á að ljúka í júní á næsta ári.

Sá kafli sem nú er unnið að liggur frá Varmhólum í mynni Kollafjarðar að Vallá. Næsti áfangi verður vegurinn frá Vallá að vegamótum Hvalfjarðarvegar við Hvalfjarðargöng. Vegurinn er samtals um 9 km að lengd og verður 2 + 1 vegur með aðskildum akbrautum.

Stefnt hefur verið að því að bjóða út seinni áfangann í ár. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að ekki hafi verið teknar ákvarðanir um útboð en verkið og útboð séu áfram í undirbúningi. Vegagerðin stefnir að því að bjóða kaflann út á næsta ári en það er þó háð fjárveitingum.

Höf.: Helgi Bjarnason